Almannatryggingar

76. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 23:14:31 (3218)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru mikil tíðindi sem hér eru að gerast þegar þingmenn Sjálfstfl. lýsa því yfir hver um annan þveran að þeir hafi fyrirvara varðandi þau mál sem eru til umræðu. Hér eru á ferðinni verulegar fjárhæðir sem ætlunin var að spara eða ná til ríkissjóðs. Í þessu tilfelli gerðu menn ráð fyrir því að hægt væri að selja Samábyrgð Íslands á fiskiskipum fyrir a.m.k. 174 millj. kr., svo nákvæmir voru menn á því. Svo kemur hv. þm. Pálmi Jónsson og segir að ekki einungis hann heldur ýmsir fleiri sjálfstæðismenn setji fyrirvara við það að þetta geti gengið. Ég verð samt sem áður að taka undir með honum. Ég tel að þarna hafi menn flanað ótrúlega að máli, að það skuli ekki hafa verið rannsakað betur hvaða stuðningur var við það og hvaða möguleikar væru yfirleitt á því að selja þetta fyrirtæki. Þetta er samspil fyrirtækja sem menn eru að tala um. Það er ekki einungis verið að tala um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Það er verið að tala um bátaábyrgðarfélögin og þessi fyrirtæki hafa starfað saman að tryggingamálum í fjölda ára. Svo koma menn stökkvandi inn á Alþingi fyrirvaralaust með frv. um að selja Samábyrgðina. Málið er það illa undirbúið að um leið og það er komið til umræðu í þinginu kemur það fram að menn eru alls ekki tilbúnir að skrifa upp á þetta og þurfa að skoða þetta með öllum ráðum miklu betur. Þarna hafa menn staðið mjög illa að verki. Það verður maður að segja.