Almannatryggingar

76. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 23:18:30 (3220)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er orðið mikið álitamál sýnist mér hvort það er verjandi að halda okkur hér í umræðum þegar klukkan er á tólfta tímanum. Við höfum unnið mikið undanfarna daga, ekki síst við sem sitjum í fjárln., við að aðstoða við að koma saman fjárlögum íslenska ríkisins. Hér er flutt frv. sem átti að skila íslenska ríkinu miklum peningum og það kemur í ljós að þessi mál virðast alls ekki hafa verið rædd í stjórnarflokkunum og ekkert samkomulag um þau. Ég vil spyrja hæstv. forseta: Væri ekki ráð að fresta þessum fundi og biðja stjórnarflokkana að ráða ráðum sínum og komast að niðurstöðu um hvað menn geta orðið sammála um frekar en að halda okkur hér í umræðu um mál sem við vitum ekki einu sinni hvort nokkur ástæða er til að vera að æsa sig yfir? E.t.v hefur málið eða málin tvö engan stuðning á hinu háa Alþingi? Það er kannski varla hægt að ætlast til að hæstv. forseti svari þessu en að ræðu minni lokinni, sem ég skal reyna að hafa ekki mjög langa, vildi ég óska að rætt yrði við formenn þessara tveggja þingflokka og farið fram á að menn reyndu að koma sér saman um það sem hér er verið að ræða.
    Ég ætlaði að leggja inn nokkur orð vegna þess frv. sem liggur fyrir á þskj. 285. Það er satt að segja dálítið erfitt að ræða frv. eins og hv. 10. þm. Reykv. sagði hér fyrr í kvöld. Svo getur gengið fram af manni að frv. sé vart umræðuvert. Ég tel mig hafa nokkur efni á að segja þetta þar sem ég eyddi tíu árum af starfsævi minni í vinnu við þá stofnun, Tryggingastofnun ríkisins, sem ég hélt að allir landsmenn hefðu litið á sem eina undirstöðu jafnréttis í þjóðfélaginu. Ekki síst eyddi ég tíma mínum í að halda langar ræður sem upplýsingafulltrúi stofnunarinnar um aðdraganda þess að almannatryggingar voru lögleiddar á Íslandi. Ég dró aldrei úr hlut Alþfl. í hinni merku löggjöf sem sett var árið 1936. Ég hélt að enginn deildi

um mikilvægi almannatrygginga. Meira að segja maður að nafni Bismarck gerði sér það ljóst endur fyrir löngu að það borgaði sig líklega að halda þjóð heilbrigðri og sæmilega haldinni af almannafé.
    Ég kom í Tryggingastofnun ríkisins þegar sá ráðherra tók við sem e.t.v. tók næsta stóra skrefið í almannatryggingamálum sem var þáv. hæstv. heilbrrh., Magnús Kjartansson. Ég man þá gleði og þá hamingju sem því fylgdi að sjá þá stökkbreytingu sem kjör aldraðra, öryrkja og barnafjölskyldna tóku þegar löggjöfin frá 1971 tók gildi. Það er þess vegna átakanlegt að þurfa að horfa á hæstv. heilbrrh. Alþfl. rótast um í þessu kerfi, án þess að líta til hægri eða vinstri, án þess að horfa á nokkurn skapaðan hlut annað en dálka fjmrn. Það er nefnilega ekki sama hvar er skorið niður, það er ekki einu sinni sama hvar er sparað. Þeim mun undarlegra er að sjá það að hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki látið sjá sig í þinginu vikum saman og ekki undir þessari umræðu. Því segi ég það að sú var tíðin að sú sem hér stendur og hún unnu saman eins og ein manneskja að því að bæta almannatryggingakerfið. Við eigum raunar heiðurinn af ýmsum umbótum. Það er vart að ég þori að segja hæstv. heilbrrh. frá dæmum vegna þess að ég veit ekki nema hann réðist samstundis á þau. En ég get ekki stillt mig um að segja að t.d. fluttum við frv. og fengum það lögleitt að tekjur maka hættu að hafa áhrif á rétt kvenna og karla til atvinnuleysisbóta. Það er kannski ekki viturlegt að láta ráðherrann heyra um þessa matarholu. Það er aldrei að vita nema hann tæki sig til og afnæmi hana eða tæki hana til sín.
    Ég verð að segja eins og hv. 9. þm. Reykv.: Til hvers eru menn að eyða ævi sinni í stjórnmál? Til hvers eru stjórnmál? Það er kannski dæmalaus barnaskapur að játa það á sig að langa til að eiga hlut að því að hér sé rekið velferðarsamfélag þar sem séð er til að enginn líði skort, hvort sem hann er sjúkur, atvinnulaus eða á einhvern hátt illa settur í þjóðfélaginu. Það eru satt að segja mikil tíðindi ef um þetta er ekki eining á hinu háa Alþingi. Það hefur verið stolt okkar að á þessum 50 árum sem við höfum verið sjálfstæð þjóð, þó að við séum fátæk og smá eins og segir í frægu kvæði, hefur okkur tekist með vinnusemi, mikilli vinnu vissulega, að halda uppi mannsæmandi skólakerfi, heilbrigðiskerfi og húsnæðiskerfi. Þessi grundvallaratriði, til þess að hægt sé að tala um samfélag sem mannsæmandi, hafa verið í sæmilegu lagi þrátt fyrir allt. Það er erfitt að sjá eða skilja hvað hefur komið fyrir Alþfl., að standa fyrir því að rífa þetta allt saman niður. Ég skil svo sem vel að hæstv. félmrh. veigri sér við að taka þátt í þessu í þingsölum. Ég ætla að vona að hún sé þrátt fyrir allt að fylgjast með umræðunni. Í mestu alvöru verð ég að lýsa því yfir að það fer að líða að því að allt vinsamlegt sem ég hef sagt um hana sem stjórnmálamann taki ég aftur. Þetta getur ekki hafa verið nein alvara. Þetta var almennur inngangur sem ég held að sé mál til komið að menn hugleiði aðeins.
    Hér fer fram á morgun 2. umr. um fjárlög ríkisins fyrir árið 1993. Ég mun geyma mér að ræða um heildarstöðu þeirra mála sem í stuttu máli eru í fullkomnu uppnámi eins og hér hefur reyndar sýnt sig á síðasta hálftímanum, þegar hundruð milljóna fjúka hér til og frá þó að um sé að ræða forsendur þeirra fjárlaga sem verða kynnt í 2. umr. á morgun. Þess vegna skal ég ekki lengja mál mitt með því. Ég ætla heldur ekki að endurtaka það sem hv. 9. þm. Reykv. og 10. þm. Reykv. hafa sagt hér í kvöld og ég tek undir það. Ég virði hv. 13. þm. Reykv., Láru Margréti Ragnarsdóttur, fyrir að hafa uppburði til þess að segja skoðun sína á þeim greinum frv. sem varða heilsugæslu, tilvísanir til sérfræðinga, málefni sem ég því miður er komin allfjarri frá vegna þess að ég hef ekki fylgst með samningum við lækna alllengi. En það er önnur saga. Það er vissulega manndómsmerki að gera þó athugasemd við það sem ekki er unnt að sætta sig við. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. þm. hafa sagt. Ég ætla að benda á nokkur atriði sem ég held að menn hafi ekki minnst á. Ég hef reynt að fylgjast með umræðunni en mér hefur þá skotist yfir það ef það er rangt hjá mér.
    Þá er fyrst til að taka 2. gr. frv. sem fjallar um mæðra- og feðralaun. Fyrsta efnismgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa tvö börn sín eða fleiri undir 18 ára aldri á framfæri sínu og eiga lögheimili hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna.`` Síðan segir: ,,Þar er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur.``
    Það er ekki einungis að mæðra- og feðralaun séu tekin af með fyrsta barni. Það má einnig búa til reglugerð þar sem tekjur fara að hafa veruleg áhrif. Það er auðvitað grundvallarstefnubreyting sem öll þessi grein ber í sér en hún er sú að þjóðfélagið afsalar sér ábyrgð sem var viðurkennd í greinargerð með frv. laganna frá 1971, en það er það stefnumið að við berum öll ábyrgð á því að öllum börnum í þjóðfélaginu líði sæmilega. Við viljum og vildum taka á okkur þá sameiginlegu ábyrgð sem það er að ala upp börn í landinu. Hækkun á meðlagi hefur alltaf verið mikið vafaatriði í mínum huga og ég mótmælti því eða lagði fram efasemdir um það þegar hv. 10. þm. Reykv. flutti frv. sitt á síðasta þingi. Ég held að það sé töluvert erfitt fyrir hvern þann sem ekki ber gæfu til að búa með sínu barni að greiða svo háa upphæð þó að auðvelt sé að segja að miklu meira kosti að ala barnið upp en upphæðin gefur til kynna. Við verðum líka að sjá til þess að þeir sem þannig eru staddir geti jafnframt stofnað til annarrar fjölskyldu og lifað sæmilegu lifi þrátt fyrir það að um sé að ræða framfærslu á barni sem ekki býr á heimilinu. Ég hefði viljað í stað þess að lækka mæðra- og feðralaun hækka þau og auka hlut ríkisins en ekki draga úr honum varðandi uppeldi barna. En það er auðvitað grundvallarmunur á sjónarmiðum sem óþarft er að rekja frekar.
    Annað er það að í síðustu mgr. 2. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Mæðra- og feðralaun falla niður einu ári eftir að viðtakandi launanna skráir sig í þjóðskrá í óvígða sambúð með öðrum en foreldri barnsins eða barnanna, sbr. og 52. gr.`` Þar er talað um bætur eftir látinn sambýlisaðila.
    Ég hef löngum sagt að ég dreg í efa að þessi ákvæði um niðurfellingu mæðralauna eftir sjálfkrafa skráningu sambúðar standist fyrir lögum. Sannleikurinn er nefnilega sá að sambýlisaðili eða sambýlismaður eða kona, þeir sem búa saman í óvígðri sambúð hafa ekki gagnkvæma framfærsluskyldu enda erfa þau ekki einu sinni hvort annað. Þó að móðir sem býr með barni sínu taki upp búskap, sem er auðvitað einkamál hennar hvernig þeirri sambúð er varið, tel ég að það sé algert einkamál sem ríkinu geti ekki komið nokkurn skapaðan hlut við. Hægt er að hugsa sér að sá sambýlisaðili greiði fyrir sitt eigið uppihald. Honum ber engin skylda til að framfæra barn sambýlismaka síns eða hvað sem við viljum kalla það. Þannig er nú einu sinni í pottinn búið að um sambýlisfólk og sambýlisform eru engin lög til í landinu. Ég hef margbeðið ýmsa hæstv. heilbrh. að fara ofan í þetta atriði og kanna það vegna þess að ég tel næstum víst að auðvelt væri að vinna slíkt mál fyrir dómi.
    Ég ætla að láta 6. gr. frv. kyrra liggja vegna þess að ég tel að þar hafi farið fram lærðari umræða en ég er fær um, eins og ég sagði áðan, þar sem ég hef ekki fylgst mikið með samningum lækna. Heldur þykir mér það ógeðfellt þegar rætt er um heimsóknir til lækna eins og þar sé um að ræða uppmælingu og erfitt að skilja í raun og veru eftir hverju er farið. Sú var tíðin að menn gátu farið til læknis síns án þess að hugsa um hversu margar einingar færu í það. Eins og hv. 13. þm. Reykv. talaði um, að fara hóflega í það að leita læknis, þykir mér þarfnast frekari skýringar. Það fer líklega að verða matsatriði hvenær fólki líður nógu illa til þess að verjandi sé að fara til læknis. Ég kann illa svona tali og hef talið það lengst af mikinn sóma fyrir okkar samfélag að fólk hefur getað farið hiklaust til læknis hafi eitthvað verið að án þess að efnahag þess væri ógnað á nokkurn hátt. Nú er auðvitað svo komið að ekki þarf annað en að barn meiðist, þá er það orðinn töluverður útgjaldaliður. Mér er kunnugt um að foreldrar barns sem handleggsbrotnar og þarf að fara í gifs verða að greiða 3.000 kr. fyrir fyrstu heimsókn. Síðan þarf að líta á handlegginn á barninu, það kostar 1.500 kr. og að lokum þarf að klippa gifsið af og það kostar líka 1.500 kr. Þetta eru orðnar 6.000 kr. Þegar hugsað er til að mæðralaun með einu barni voru tæpar 5.000 kr. er auðvelt að sjá að um þessa upphæð gat munað. Svo er komið að fólk hugsar sig kannski um og það er kannski rétt sem hv. 13. þm. Reykv. sagði. Kannski fara menn að fara hóflega til læknis, kannski fara menn að klippa gifsið af börnunum sínum sjálfir til að losna við að borga 1.500 kr. fyrir það. Er þetta virkilega það sem við viljum? Ég trúi því ekki. Ég trúi ekki að nokkur lifandi maður vilji þetta, ekki einu sinni hæstv. heilbrrh.
    Það sem mér finnst kannski alvarlegast af öllu sem í frv. stendur eru tannlæknamálin. Sú þróun hefur orðið á síðustu árum hér í landi að tannskemmdir barna hafa eðlilega farið minnkandi eins og hér var rakið í kvöld. Það er vegna þess að tannlæknaþjónusta við börn hefur verið ókeypis og börn hafa fengið gott veganesti. Við könnumst við það sem ólumst upp í smábæjum þessa lands þar sem kannski var enginn tannlæknir hvernig það fór með okkur að við fengum ekki þessa þjónustu þegar frá barnsaldri. Ég spyr: Heldur hæstv. heilbrrh. að foreldrar margra lítilla barna fari eins oft og reglulega með börn sín til tannlæknis ef greiða þarf fyrir það í hvert skipti? Ég get svarað því alveg strax: Þeir gera það ekki. Eftir nokkur ár er ég sannfærð um að það fer aftur að síga á ógæfuhliðina í tannheilsu unglinganna. Ef einhver heldur að þetta sé sparnaður, þá er það rangt. Það er rangt. Auðvitað hefur tannheilsu Íslendinga farið mjög fram og vitaskuld kemur að því að tannlæknaþjónusta verður mun ódýrari vegna þess að ástand í þeim málum er miklu betra. Þetta tekur auðvitað tíma en það er orðið harla sjaldgæft eins og það var á mínum æskuárum að sjá fólk á ungum aldri með gervitennur. Þetta sést ekki lengur, auðvitað ekki. Ég veit ekki hvert við erum að stefna í þessum málum og ég hef af þessu miklar áhyggjur. Ég held að mér sé kannski farið eins og öðrum foreldrum margra barna að við höfum lagt á það mikla áherslu og samviskusemi að sjá um að með tannheilsu barnanna væri fylgst. Það hefur verið auðvelt vegna þess að við höfum borgað úr sameiginlegum sjóðum. En það er eins og mönnum sé ekki sjálfrátt. Þegar á að spara er ráðist á það sem í bestu lagi er, menntakerfið og heilbrigðiskerfið og ætli húsnæðiskerfið verði ekki næst? Hvers vegna ekki að leita þar sem allt er í ólestri? Leita peninga þar sem þeim er sóað og sukkað er með fé? Hvernig væri t.d. að fara ofan í tölvukerfi landsmanna? Ég hef bent á það í þessum ræðustól að án þess að nokkur fylgist með er hundruðum milljóna sóað í tölvukerfi sem enginn hefur not fyrir og væri hægt að nýta önnur tölvukerfi án þess að nokkur tæki eftir því. Ekki er leitað að þessum dauðu peningum. Það er nefnilega leitað í þá peninga sem lifa einhverjum til gagns. Er mönnum sjálfrátt? Ég ætla ekki að endurtaka brandarana um fæðingarorlofið þar sem það frv. hefur sem betur fer ekki sýnt sig. En það er svo komið að þessi kalda reiknilist, sem notuð er, veldur því að maður þorir ekki að hitta starfsmenn ráðuneytanna hér á göngum. Maður veit ekki nema verandi nokkuð við aldur að þeir reikni í mann barn! Þessum mönnum er ekkert ómögulegt úr því að fólk á besta aldri og við góða heilsu ætti helst ekki lengur að vera að leggjast í barneignir eins og við gerðum okkur sek um hér á árum áður. Nei, þetta gengur ekki.
    Hér gengur á móti mér hv. 17. þm. Reykv. og formaður þingflokks Alþfl. Ég ítreka bón mína. Ég veit ekki hvort hann var hér inni þegar ég hóf ræðu mína. Ég ítreka bón mína um að hann fari fram á það við forseta sinn og forseti verði við bón minni um það að þessir stjórnarflokkar ræði saman og reyni að komast að þeirri niðurstöðu hvort verið sé að gera hluti sem menn geta staðið við. Þegar hefur komið í ljós

að hvorugur hluti þessa frv., sem hér liggur fyrir, sýnist hafa fullan stuðning stjórnarflokkanna. Auðvitað er ekki boðlegt að ræða svona endileysu á miðnætti eftir langa vinnudaga.
    Eitt lítið atriði, sem ég minnist ekki að menn hafi gert að umtalsefni, er 3. gr. sem leynir á sér og er ekki víst að þeir sem ekki þekkja vel til átti sig á, en greinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eftirtaldar breytingar verða á 27. gr.:
    a. Í 1. málsl. 1. mgr. falla niður orðin: ,,og stjórnun aflvéla og ökutækja.``
    Þetta er svokölluð bílatrygging en þetta er líka annað og meira. Þetta eru vinnuvélar, þetta eru dráttarvélar og aðrar slíkar sem mikið eru notaðar í sveitum landsins og tryggja börn frá 16 ára aldri. Þessi börn eru ótryggð þegar þetta er tekið út og ég held að við vitum harla vel að því miður kemur allt of oft að fyrir unglingar, sem vinna við sveitastörf, slasast á þessum vélum. Mér er ekki kunnugt um að þessi börn greiði neins staðar til neins vátryggingarfélags. Falli greinin út þá eru þessir aðilar ótryggðir. Ég vildi nú biðja þá sem bera hag bænda fyrir brjósti að fara aðeins ofan í þessi mál.
    Annað er það að síðari málsl. í 3. gr. er svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,2. málsl. 1. mgr. fellur niður.`` Og hvað er það? Þessi setning fellur út og ég bið menn að taka eftir: ,,Það jafngildir slysi við stjórnun aflvélar eða ökutækis ef stjórnandi verður fyrir slysi í beinu sambandi við viðhald eða aðra meðhöndlun tækisins.`` Þetta skiptir töluverðu máli. Það eru ekki bara bifreiðastjórar eða þeir, sem bifreið aka, sem eru felldir þarna út, heldur allir þeir sem vinna við hvers kyns ökutæki hvort sem það eru svokölluð bifhjól, dráttarvélar, sláttuvélar, allar slíkar vélar. Það kæmi mér á óvart ef menn eru sáttir við þetta.
    Um II. kafla þessa frv. er lítið að segja. Einhvern tíma í sumar sagði stjórnarmaður Hitaveitu Reykjavíkur að hitaveitan hefði gefið Reykvíkingum Perluna. Ég gerði smáathugasemd við það, ég taldi þar verið að gefa það sem menn ekki ættu. Hér er verið að selja það sem menn ekki eiga og það er auðvitað hárrétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að áður en maður selur eignir þarf maður að ganga úr skugga um hvort maður á þær. Þetta sýnir auðvitað þann flumbrugang, sem er á undirbúningi þingmála, að þetta er ekki boðlegt auk þess sem það er heldur ekki boðlegt að þessi tvö mál séu í einu og sama frv. Hvers vegna í ósköpunum var þetta ekki borið fram í tveimur frumvörpum? Ég spurði að þessu áður og þá svaraði hæstv. ráðherra því til að fólk þyrfti að sjá í einu frv. þann niðurskurð sem væri verið að gera. En það var ekki ónýtt því mér sýnist að niðurskurðurinn sé meira en vafasamur og sennilega orðinn mikið deiluefni milli stjórnarflokkanna.
    Frú forseti. Herra forseti. Þar kom vel á vondan. Svo oft hefur sú sem hér stendur verið kölluð herra forseti. Virðulegi forseti. Ég skal ekki taka mikinn tíma í þetta meira, en ég held að hér sé alveg nauðsynlegt að staldra við og ljúka ekki umræðunni hér áður en gengið er úr skugga um hvern stuðning þessi tvö mál, því ég leyfi mér að kalla þetta tvö mál, hafa hér í þinginu áður en menn fara að setja hér á ræður fram undir morgun um það sem e.t.v. er ekki nokkur minnsta hætta á að verði samþykkt.