Almannatryggingar

76. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 00:27:19 (3228)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ráðherra sagði hér áðan þegar hann var að bera saman barnabætur, barnabótaauka, mæðralaun og meðlag að menn yrðu að skoða heildarmyndina. Ég held að ráðherrann ætti sjálfur að hafa þessa reglu til viðmiðunar þegar hann er að fjalla um þessi mál og hafa heildarmyndina inni því þegar hann var að tala um bein útgjöld fjölskyldunnar, aukin útgjöld á þessu ári í heilbrigðisþjónustu, þá sagði hann að þau væru aðeins 2,5% og bar það saman við áfengisútgjöld vísitölufjölskyldunnar, ef ég tók rétt eftir. Ég held að ráðherrann verði að hafa heildarmyndina inni vegna þess að það var auðvitað svo margt annað, margs konar aðrar álögur sem lögðust á fjölskylduna þá. Það var ekki bara í heilbrigðismálum. Þá varð líka skerðing á barnabótum og öðru slíku.
    Maður vandist því hér á árum áður og hefur vanist því hingað til að allar kostnaðarhækkanir opinberra aðila væru réttlættar með sígarettupakkanum sem fólk er náttúrlega löngu hætt að leyfa sér að reykja en þegar það þrýtur, þá er komið með áfengisútgjöldin. Þetta eru náttúrlega vægast sagt dálítið sérkennilegar samlíkingar hjá heilbr.- og trmrh. En af því að hann var að tala um þessa hluti og hann segir hér að meðalkostnaður í tannlæknaþjónustu á hvert barn á næsta ári verði að líkindum 1.300--1.900 kr. á ári á hvert barn, þá dreg ég þær tölur í efa og ég ætla bara að benda honum á bréf, sem skólabörn í Reykjavík komu með heim til sín frá skólatannlæknum Reykjavíkur þar sem talað er um að innheimta 906 kr. af barni fyrir viðgerð sem felur í sér deyfingu, tvær silfurfyllingar og gúmmídúk, eins og segir hér, fyrir þetta verða innheimtar 906 kr. Ég verð að segja að þetta finnst mér ansi háar 15%, hæstv. ráðherra, því að mér telst svo til að upphæðin sem allt þetta kostar, sé um 10.650 kr. og ef það á að fara að borga 25% af þessu, þá eru það 2.662 kr. Þar til viðbótar bætist svo kostnaður vegna allra forvarna og þær eru bara nokkuð dýrar, virðulegi ráðherra. Ég er því ansi hrædd um að þetta eigi eftir að verða hærri tölur heldur en hér hafa heyrst í kvöld.