Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:05:28 (3247)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
    Frú forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. vék hér að því í athugasemd sinni að honum fyndist að á hafi skort að skattar væru lagðir á þá sem hafa hærri tekjur. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá honum að það er einmitt hluti af áformum ríkisstjórnarinnar nú að setja skatt á þá sem hafa hærri tekjur.
    Hitt er svo fagnaðarefni að í ummælum þeirra tveggja hv. þm. sem tóku ummæli mín miður vel kemur fram að þeir lýsa skilningi á því að það verði að vera nokkurt jafnvægi á milli tekjuöflunar ríkisins og útgjaldanna. Því eru takmörk sett að sjálfsögðu hvað hægt er að leggja miklar byrðar á skattborgarana og um leið eru því takmörk sett hvað hægt er að koma góðum áformum okkar hv. þm. til framkvæmda. Sum þeirra verða að bíða og stundum verða menn að fella niður verkefni sem menn hafa ákveðið. Ég fagna því að úr ræðum hv. þm. megi lesa þessa skynsamlegu hugsun og skynsamlegu pólitík og vænti þess að hún komi þá fram í störfum flokka þeirra hér á hinu háa Alþingi nú í lokaönnum við afgreiðslu fjárlaga og skattalaga síðustu daga fyrir jól.