Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:18:14 (3256)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
    Frú forseti. Vegna ummæla hv. fyrirspyrjanda og hv. 9. þm. Reykv. er rétt að taka fram að fsp. var svarað í fullu samræmi við gildandi lög. Þeir embættismenn sem hér eiga hlut að máli hafa tekið þessar ákvarðanir á grundvelli gildandi laga. Hitt er svo atriði sem ég vil varpa fram til forseta, hvort það telst eðlilegt að leyfa hv. þm. að koma fram með fyrirspurnir á þeim tíma umræðunnar þar sem viðkomandi ráðherra er útilokað samkvæmt þingsköpum að svara. Ég tel það fullkomlega óeðlilegt að leyfa slíkar fyrirspurnir þegar ráðherra hefur ekki heimild samkvæmt þingsköpum til að svara og rétt að benda viðkomandi hv. þm. á að bera slíkar fyrirspurnir þá fram með þinglegum hætti.