Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:30:22 (3268)

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Í þingskaparæðu áðan komu fram fullyrðingar frá hæstv. dómsmrh. sem er óhjákvæmilegt að bera til baka og ég vil skora á hæstv. dómsmrh. að lesa þá reglugerð sem um þetta mál gildir sem er nr. 587/1987. Þar kemur skýrt fram að þessir hlutir eru ekki á mati hvers lögreglustjóra því að tiltekin viðmiðun er gefin og allur kostnaður sem er umfram þessa tilteknu viðmiðun sem upp er gefin í 8. gr. reglugerðarinnar skal greiddur af þeim sem stendur fyrir skemmtun. Enn fremur kemur fram í sömu grein að dómsmrh. skal láta lögreglustjórum í té gjaldskrá vegna endurgreiðslu launa þannig að greinin frá þáv. dómsmrh., núv. hæstv. iðnrh., er alveg skýr. Það er framkvæmdin sem er óskýr og það er það sem ég vil fá samræmi í. Það gengur ekki að á stórum og dýrum löggæsluumdæmum sé almenningur látinn borga þennan kostnað að fullu en á öðrum og fámennum stöðum ekki.