Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:31:52 (3270)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað alrangt sem fram kom í máli hv. þm. Svavars Gestssonar að ég vilji að það gildi tvenn lög í landinu. Það var alls ekki þannig, það dettur mér auðvitað ekki í hug. Ég var hins vegar í þeirri trú sem fram kom í máli hæstv. dómsmrh. að þetta mál væri þannig vaxið að það væri á valdi lögreglustjóra í hverju umdæmi að annast um framkvæmdina. Ég var einfaldlega að benda á það að það væri þar með á valdi lögreglustjórans í Reykjavík og annarra þeirra umdæma þar sem ekki væru innheimt slík gjöld að taka upp þá innheimtu ef þeim þætti það eðlilegt og sjálfsagt. Það var ekki annað sem ég var að vekja athygli á en erindi mitt til að ræða þingsköp var auðvitað að vekja athygli á því að það væri hægt að ljúka umræðunni vegna þess að þetta hefði verið upplýst.