Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 13:08:29 (3278)

     Frsm. meiri hluta fjárln. (Karl Steinar Guðnason) :
    Frú forseti. Ég hafði á orði í ræðu minni við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins í fyrra að einn helsti vandi íslensku þjóðarinnar væri ístöðuleysi þeirra sem með fjármuni hennar fara. Það hefði alltaf verið látið undan. Þegar okkur vanhagaði um eitthvað væru hiklaust slegin ný lán fremur en að láta kaupin bíða eða spara fyrir þeim. Af þessari braut yrði hins vegar að snúa og það yrði ekki gert án stórfelldrar uppstokkunar í ríkisfjármálunum. Það væri hin einfalda og sársaukafulla staðreynd sem Alþingi og þjóðin stæði frammi fyrir.
    Þegar litið er til baka og reynt að leggja mat á þann árangur sem náðst hefur í glímunni við að koma böndum á ríkisútgjöldin verður ekki fram hjá því litið að eitt og annað hefur áunnist þó svo að þeim markmiðum sem að var stefnt í upphafi árs hafi ekki verið náð.
    Í fjárlögum líðandi árs var stefnt að eftirfarandi meginmarkmiðum:
    1. Að lánsfjárþörf opinberra aðila yrði innan við 24 milljarðar króna.
    2. Að lánsfjárþörf ríkissjóðs yrði minni en 6 milljarðar króna.
    3. Að rekstrarhalli ríkissjóðs yrði minni en 4 milljarðar króna, að jafngildi 4,5% samdrætti útgjalda að raungildi.
    4. Að ofangreindum markmiðum yrði náð án þess að hækka skatta.
    Viðvarandi halli á ríkissjóði á liðnum árum hefur m.a. leitt til hinna miklu skulda þjóðarbúsins. Af þeim sökum var í fjárlögum yfirstandandi árs stefnt að því að draga verulega úr halla ríkissjóðs og eyða honum á árinu 1993 án almennra skattahækkana. Löngu er ljóst að þessi markmið munu ekki nást. Kemur þar einkum til að samdráttur í atvinnustarfsemi, verslun og viðskiptum hefur dregið verulega úr skatttekjum ríkissjóðs. Fyrstu níu mánuði ársins hafa þær dregist saman um rúman 1,1 milljarð kr. Þá eiga sjálfvirkni í sumum þáttum ríkisútgjaldanna og grundvallarbreytingar í landbúnaði sinn þátt í að skýra það að halli ríkissjóðs á þessu ári verður meiri en áformað var.
    Þegar litið er á afkomu ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins kemur í ljós að hrein lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs hefur lækkað um 3 milljarða kr. þegar mælt er á föstu verðlagi. Þá hefur sú eftirtektarverða breyting átt sér stað að til þess að svara þessari lánsfjárþörf hefur ríkissjóður ekki dregið svo neinu nemur á viðskiptareikning sinn í Seðlabanka Íslands heldur hefur tekist að fjármagna þetta á innlendum og erlendum lánamarkaði.
    Þrátt fyrir það sem að framan segir er vert að undirstrika að margar þeirra sparnaðaraðgerða sem ákveðnar voru á árinu hafa ýmist skilað sér eða munu gera það á komandi mánuðum og árum. Án þeirra er deginum ljósara að hallinn hefði orðið geigvænlegur. Þá er og vert að hafa í huga að rekstrarhalli A-hluta ríkissjóðs er tveim milljörðum kr. lægri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en hann var á sama tímabili í fyrra.
    Eins og ég sagði áðan eru ýmsar vísbendingar uppi um að þær sparnaðaraðgerðir sem gripið hefur verið til á þessu ári muni skila umtalsverðum árangri þó ekki verði þau í samræmi við þau markmið sem að var stefnt. Svo sem þingheimi er kunnugt gerðu fjárlög ársins ráð fyrir því að heildarsparnaðurinn í ár samanborið við árið 1991 yrði um 5,5 milljarðar króna. Þrátt fyrir mjög versnandi ytri skilyrði og áföll í þjóðarbúskapnum höfðu 2 milljarðar hins áformaða sparnaðar náðst í lok september sl.
    Í þessu sambandi er rétt að gefa því gaum að í ár hefur tekist að draga úr starfsmannafjölda og launakostnaði A-hluta ríkissjóðs en ýmsir voru farnir að halda að það væri nánast náttúrulögmál að útgjaldaliðir þessir hækkuðu ár frá ári. Hér er því um nokkur tímamót að ræða sem ég tel rétt að gera nánari grein fyrir.
    Fjárlög líðandi árs gerðu ráð fyrir því að ársverkum A-hluta fjárlaga mundi fjölga um 100 á árinu og mátti einkum rekja fjölgunina til málefna fatlaðra og aðskilnaðar dóms- og umboðsvalds í héraði. Niðurstaðan er hins vegar sú að loknum fyrstu níu mánuðum ársins að ársverkum hafði fækkað um 208 eða um 1,1%. Á þessu tímabili lækkuðu launaútgjöld A-hluta ríkissjóðs um tæpar 300 milljónir króna, eða um 1,4%. Eflaust muna elstu menn ekki að það hafi gerst áður. Tveggja þriðju hluta lækkunarinnar er að leita í minni yfirvinnu en eins þriðja í dagvinnu.
    Sé lækkun útgjalda skoðuð nánar kemur í ljós að rekstrarútgjöld A-hluta ríkissjóðs og rekstrartilfærslur hafa lækkað um 1,2 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Útgjöld æðstu stjórnar ríkisins og allra ráðuneytanna að Hagstofunni og umhvrn. undanskildu hafa lækkað. Í krónum talið er lækkunin mest hjá heilbr.- og trmrn. eða tæpar 400 milljónir kr. sem svarar til 1,2% af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Mestur er sparnaðurinn hlutfallslega hjá iðnrn. en útgjöld þess lækkuðu um 211 milljónir kr. á fyrstu níu mánuðunum eða um 23,8%.
    Af framansögðu má ráða að tekist hefur að stöðva vöxt í starfsmannahaldi og almennum rekstrarútgjöldum hjá ríkinu. Vöxtur þessara útgjalda er með öðrum orðum ekkert óviðráðanlegt náttúrulögmál. Það er hægt að spara ef einlægur vilji er til staðar og markmiðin sem að er stefnt eru raunhæf.
    Ljóst er að dagar hins flata niðurskurðar eru liðnir. Lengra verður ekki gengið á þeirri braut. Sú leið sem fyrirliggjandi fjárlagafrv. hefur markað á því sviði er einkum að hagræða sem mest í ríkisrekstri, rjúfa sjálfvirkni útgjalda á ýmsum sviðum og að ætla notendum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, aukna þátttöku í kostnaði. Áhersla verður engu að síður lögð á það að þjónusta ríkisins minnki hvorki né versni.
    Þannig hefur nú tekist að rjúfa sjálfvirkni útgjalda til landbúnaðar. Samkvæmt nýjum búvörusamningi er ábyrgð á sölu landbúnaðarafurða flutt frá ríkinu til framleiðenda og vinnslustöðva. Af þessum sökum munu útgjöld ríkissjóðs væntanlega lækka um a.m.k. 3 milljarða á árinu 1993 frá því sem þau voru í ár.
    Á sama hátt er í frv. að finna margvíslega viðleitni til þess að draga úr þeim útgjöldum almannatrygginga sem hafa á sér blæ sjálfvirkninnar. Í því efni nægir að nefna ýmsar sérbætur og tekjutryggingar. Þá má nefna að áform eru uppi um að lækka útgjöld lífeyristrygginga með því að eignatengja lífeyrisgreiðslur en ekki er gert ráð fyrir að útgjöld þessa málaflokks hækki að raungildi milli ára.
    Jafnframt þessu verður lögð rík áhersla á öflugt skatteftirlit en nú er unnið að tillögugerð í því sambandi á vegum fjmrn. og skattayfirvalda.
    Á sviði hagræðingar er það að segja að á sama hátt og í ár verður á næsta ári gerð krafa um að stofnanir ríkisins hagræði í rekstri sínum. Á því sviði er af ýmsu að taka. Nýlega kom t.d. út skýrsla Ríkisendurskoðunar um bifreiðamál ríkisins. Þar kemur fram að heildarkostnaður vegna bifreiðanotkunar og bifreiðaeignar ríkisins á árinu 1991 er talinn hafa numið 1,8 milljörðum kr. að meðtöldum afskriftum og svarar það til um 1,5% af heildarútgjöldum A-hluta ríkissjóðs á því ári.
    Útgjöld vegna bifreiðanotkunar starfsmanna námu 954 milljónum króna á árinu 1991. Þar af námu útgjöld ríkisins vegna leigðra starfsmannabifreiða rúmum 600 hundruð milljónum kr. Á síðustu tíu árum hefur kostnaður þessi aukist um rúmlega 40% á föstu verðlagi. Þriðja hverjum starfsmanni ríkisins var greitt fyrir akstur eigin bifreiðar á árinu 1991 eða um 6.000 starfsmönnum. Heildarakstur þeirra er talinn hafa numið næstum 22 milljónum kílómetra og að mati Ríkisendurskoðunar fóru um 170 ársverk í þennan akstur.
    Mér segir svo hugur um að á þessu sviði sem á svo mörgum öðrum megi taka til hendi í hagræðingar- og sparnaðarskyni. Nægir í þessu efni að vísa til þeirrar niðurstöðu í nefndri skýrslu að launauppbætur séu oft dulbúnar í formi bílastyrks, eftirliti með greiðslum þessum sé á margan hátt ábótavant og reglur um ákvörðun þeirra sniðgengnar. Á hinn bóginn er og greint frá því að vel virðist staðið að bifreiðarekstri hjá stærstu stofnunum ríkisins, t.d. Pósti og síma, Vegagerð ríkisins og Rafmagnsveitum ríkisins. Það bendir eindregið til þess að almennt sé hægt að spara og hagræða á þessu sviði hjá ríkinu ef ákveðin stefna er mörkuð varðandi bifreiðamálin.
    Töluverð óvissa ríkir um horfur í alþjóðaefnahagsmálum á næstu missirum og hefur óróleikinn á alþjóðagjaldeyrismörkuðum aukið þar á. Sá bati í heimsbúskapnum sem vænst hefur verið um nokkra hríð hefur látið á sér standa. Hagspár efnahagsstofnana eru þó flestar á þann veg að hagvöxtur muni aukast smám saman á næstu missirum. Á næsta ári er talið að hagvöxtur OECD-ríkjanna verði rúmlega 2% samanborið við 1,5% á yfirstandandi ári.
    Horfur eru á að atvinnuleysið í OECD-ríkjunum muni aukast lítillega fram á næsta ár og verði um 8,3%

að meðaltali samanborið við 7,9% í ár. Hins vegar er talið að draga muni úr atvinnuleysi með auknum hagvexti á árinu 1994 eða allt að 1 / 4 úr prósenti á því ári.
    Spáð er að verðbólga í OECD-ríkjunum haldi áfram að lækka og nái sögulegu lágmarki í árslok 1994 er hún verður 2,5% að meðaltali samkvæmt spám sem er lægsta verðbólga síðan 1960.
    Þó svo að menn sjái nokkur batamerki á ytri skilyrðum þjóðarbúsins fer ekki á milli mála að sá ytri samdráttur sem hefur verið viðvarandi um nokkurt árabil hefur haft áhrif á þjóðarbúskap okkar Íslendinga. Nægir í þeim efnum að nefna áform um byggingu álvers á Keilisnesi og tilheyrandi virkjunum var slegið á frest um óákveðinn tíma sl. haust vegna erfiðleika á álmörkuðum og fjármögnun þeirra verkefna.
    Þegar horft er til helstu þátta efnahagsmála hér á landi gætir sömu vandamála og víða erlendis. Sé þjóðarbúskapurinn skoðaður yfir lengra tímabil kemur í ljós að frá árinu 1987 hefur ríkt hér algjör stöðnun. Landsframleiðslan hefur dregist saman um rúmlega 1% á þessu fimm ára tímabili eða um 4 milljarða kr. á verðlagi þessa árs. Á síðasta ári jókst landsframleiðsla um 1,5% en á yfirstandandi ári hefur efnahagsþróun snúist til hins verra. Gert er ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 2,7% og þjóðartekjur um 3,8% sem stafar að mestu af rýrnun viðskiptakjara og minni sjávarafla. Á næsta ári er spáð enn frekari samdrætti í landsframleiðslu eða allt að 1,5%.
    Atvinnuleysi hér á landi hefur tekið miklum breytingum til hins verra á undanförnum árum og þá í náinni samsvörun við slakt gengi framleiðslu og atvinnurekstrar. Á síðasta áratug mældist atvinnuleysi langtímum saman innan við 1%. Á síðasta ári mældist atvinnuleysi hér á landi 1,5% en í ár er talið að atvinnuleysi sé um 3% og er gert ráð fyrir að það aukist enn frekar á næsta ári eða a.m.k. um 0,5% frá árinu í ár.
    Þó eru ekki bara dökkar hliðar á efnahagsþróun undanfarinna missira. Þannig hefur náðst mikilsverður árangur í viðureigninni við verðbólguna. Það er kunnara en frá þurfi að segja að verðbólgan hefur verið með erfiðustu viðfangsefnum hagstjórnar hér á landi um langt skeið. Verðbólgan er nú minni en í flestum viðskiptalöndum okkar en gert er ráð fyrir að meðalhækkun framfærslukostnaðar milli áranna 1991 og 1992 verði um 2,5--4% og milli áranna 1992 og 1993 svipuð. Til samanburðar var verðbólgan um 7% árið 1991 og um 5% 1990.
    Áður en ég læt lokið umfjöllun minni um helstu þætti efnahagsmála vil ég minnast á gífurlega skuldaaukningu þjóðarinnar erlendis en á síðustu tíu árum hafa erlendar skuldir þjóðarinnar ríflega tvöfaldast í erlendri mynt. Að raungildi hafa þær aukist um 50%. Hlutfall erlendra skulda af útflutningstekjum hefur hækkað úr 119% árið 1982 í 155% á næsta ári samkvæmt áætlun. Það gefur auga leið að svona getur þetta ekki haldið áfram því þá verður efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar stefnt í tvísýnu. Í nýlegri skýrslu Seðlabanka Íslands er skýrt frá skuldsetningu heimilanna í landinu. Þar segir að á árinu 1980 svöruðu skuldir heimilanna við lánakerfið tæp 14% af landsframleiðslu en í árslok var þetta hlutfall komið í 53,5%. Skuldir heimilanna höfðu því tæplega fjórfaldast á þessu tímabili, með tilliti til landsframleiðslu. Þessar staðreyndir hljóta að vera öllum landsmönnum mikið áhyggjuefni en skemmst er að minnast þeirra atburða sem hentu frændur okkar Færeyinga en segja má að þeir hafi um sinn glatað fjárhagslegu sjálfstæði sínu.
    Nú nýverið greip ríkisstjórnin til efnahagsaðgerða til að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs og sporna gegn auknu atvinnuleysi. Aðgerðir þessar komu í kjölfar viðræðna ríkisstjórnar, aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaga. Áhrif aðgerðanna felast einkum í þrennu: Í fyrsta lagi er gripið til fjölmargra aðgerða til að styrkja stöðu atvinnufyrirtækja í landinu. Má þar nefna lækkun á gengi íslensku krónunnar, lækkun tekjuskattshlutfalls fyrirtækja og afnám aðstöðugjalds. Í öðru lagi eru gerðar ráðstafanir til að minnka viðskiptahallann gagnvart útlöndum og í þriðja lagi að bæta afkomu ríkissjóðs þegar fram í sækir, sérstaklega á árunum 1994 og 1995. Þá er ekki síður mikilvægt í þessum ráðstöfunum að lögð er sérstök áhersla á nýsköpun í íslensku atvinnulífi með öflugu rannsókna- og þróunarstarfi í þágu atvinnulífs. Þetta atriði er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þeirrar stöðnunar sem ríkt hefur í íslenskum þjóðarbúskap á liðnum árum. Eitt brýnasta verkefni okkar er að stækka þjóðarkökuna til þess að skapa betri lífsafkomu fólksins og ekki síður til að ná þjóðinni og heimilum í landinu úr þeirri hrikalegu skuldasúpu sem hún er komin í.
    Þá miða þessar aðgerðir að því að varðveita lægstu laun og ekki síður að fyrirbyggja að atvinnuleysi aukist frá því sem nú er. Mikilvægast í þessum efnum að mínu áliti er að bægja frá atvinnuleysisvofunni því ekkert er hrikalegra fyrir einstaklinga en að búa við atvinnuleysi og þau félagslegu vandamál sem því er samfara.
    Lönd í Evrópu, þar sem lífskjör eru einna best, hafa um áratuga skeið búið við litla sem enga verðbólgu. Sem dæmi má nefna Þýskaland og Sviss. Fyrir bragðið hafa einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera í löndum þessum lifað við stöðugt og heilbrigt ástand í peningamálum og til dæmis búið við þann lúxus að geta gert raunhæfar framtíðaráætlanir og hámarkað nýtingu þeirra fjármuna, sem til ráðstöfunar eru. Lítum nú í eigin barm.
    Frá miðju ári 1970 fram til ársins 1990 ríkti óðaverðbólga á Íslandi. Rýrnun krónunnar okkar varð það hröð að fyrir þá peninga sem árið 1970 hefði mátt kaupa þriggja herbergja íbúð væri í dag aðeins hægt að fá fimm manna tjald af ódýrri gerð. Við þessar aðstæður breyttist hegðun manna. Virðing manna fyrir peningum minnkaði og í stað skipulagðra vinnubragða og ráðdeildar var höfuðáherslan lögð á eyðslu. Menn voru farnir að trúa því að því fyrr sem menn eyddu peningunum, því betra. Eyðslustefnan var það sem réði ferðinni hjá einstaklingum, fyrirtækjum og hinu opinbera.

    Afleiðing eyðslustefnunnar birtist í risastórum einbýlishúsum, sem nú má fá fyrir brot af því sem kostaði að byggja þau, offjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði, vatnsvirkjunum sem engin þörf er fyrir, laxeldisstöðvum, refabúum og að ekki sé minnst á blessaðan sjávarútveginn og landbúnaðinn.
    En afleiðing eyðslustefnunnar birtist í öðru. Einstaklingar, fyrirtæki, bankar, sveitarfélög og ríkissjóður þurfa að endurgreiða lán, greiða verðbætur og vexti, og sitja auk þess uppi með tapið af því sem margir þeirra sem hvað harðast iðkuðu eyðslustefnuna, geta nú ekki endurgreitt lánin.
    Afleiðing eyðslustefnunnar kemur fram í skertum lífskjörum og atvinnuleysi. Allir landsmenn vita það vel að maður fæðir hvorki börnin sín fyrir vexti né verðbætur. Því vaknar sú spurning hvort áhrif óðaverðbólgunnar á íslenskt samfélag hafi ekki verið það slæm að við séum beinlínis orðin skemmd og öll þjóðin þurfi að fara í endurhæfingu til þess að geta þrifist við stöðugt verðlag.
    Ég segi þetta meðal annars vegna þess að fjölmargir sjá einungis eina leið til þess að leysa vandann en það er að taka fleiri lán. Menn virðast ekki skilja það enn þá að ríkissjóður, sameign okkar allra, þarf að endurgreiða lánin og borga vexti og verðbætur. Að taka fleiri lán er að mínum dómi svipuð lausn og sú að hressa timbraðan alkóhólista með því að hella ofan í hann brennivíni.
    Ef halda á uppi fullri atvinnu í landinu og bæta lífskjörin þá verðum við að hætta eyðslunni og taka upp gjörbreytta stefnu, stefnu sem gerir okkur hæf til þess að lifa við stöðugt verðlag. Þessa stefnu vil ég kalla nýtingarstefnu. Hún felst meðal annars í því að peningum þeim sem ríkissjóður ráðstafar, t.d. í opinberar framkvæmdir og endurbyggingu, verði einungis veitt til arðbærra verkefna, þ.e. að arðsemi framkvæmdanna verði höfð að leiðarljósi að viðbættu því að þegar gert er upp á milli hinna arðsömu verkefna þá hafi þau verkefni forgang sem útvega sem flestum vinnu.
    Með nýtingarstefnunni eins og hún er skilgreind hér ávinnst margt. Störfum eins og til dæmis í byggingariðnaði fjölgar þá í fyrsta skipti í langan tíma og það sem meira er, þau skila arði til þjóðfélagsins.
    Skoðum aðeins betur þetta með arðsemina. Hinn vinnandi Íslendingur hefur aldrei viljað eða gert þá kröfu að vera þurfalingur eða sá sem þiggur eitthvað frá öðrum. Hann vill gera gagn í þjóðfélaginu, láta gott af sér leiða og halda fullri reisn og bera virðingu fyrir sjálfum sér. Hann verður að hafa tilgang í lífinu. Fólk verður að hafa hlutverki að gegna.
    Nýtingarstefna í stað eyðslustefnu hefur fjölmarga kosti eins og arðsemi í stað afborgana og vaxta, atvinnu í stað atvinnuleysis og sjálfstraust í stað þunglyndis.
    Í bók Halldórs Laxness, Barni náttúrunnar, ráfar sveinninn Randver í glímu við sjálfan sig þar sem í vitund hans togast á andstæðar hugsanir. Gamall sveitamaður verður á vegi hans og segir:
    ,,Þú stendur á krossgötum lífsins. Við þér blasa tvær leiðir. Önnur er vegurinn niður í Helvíti eigingirninnar og sjálfselskunnar --- hins versta í sjálfum þér, og þar ber sál þín úr býtum óróleika og lífsleiða. Hinn er vegurinn í Paradís göfginnar og ósérhlífninnar, vegurinn til hins sanna, guðdómlega eðlis mannsins, og þar fyllist sál þín gleði og sælu yfir vitundinni um, að þú sért að vinna heiminum gagn.``
    Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur vissulega náð árangri eins og ég hef tíundað hér að framan. Það blasir hins vegar við að þau markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér hafa ekki öll náð fram að ganga. Margt hefur gengið vel og menn mættu til leiks í fyrra reiðubúnir til að taka á vandamálunum. Menn voru bjartsýnir á að árangur mundi nást. Við höfum trúað því og trúum því enn að okkur takist ætlunarverkið, að leysa íslensku þjóðina, atvinnulífið, launþegana úr viðjum efnahagssamdráttar og eyðslustefnu fyrri ára. Þessar aðgerðir hafa hins vegar mætt mikilli mótspyrnu, einkum þeirra sem láta sig efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar litlu varða.
    Íslenska þjóðin stendur á svipuðum krossgötum og Randver. Skuldir þjóðarinnar vaxa ár frá ári og er nú svo komið að það tekur ekki nema nokkur ár að komast í sömu stöðu og frændur okkar í Færeyjum, sem í raun misstu fjárhagslegt sjálfstæði sitt fyrr í vetur. Nú er sú þjóð ofurseld ákvörðunum útlendinga, sem hlýtur að vera áfall hverjum sómakærum Færeyingi, að ekki sé talað um þá lífskjaraskerðingu sem nú blasir við launþegum þess samfélags.
    Það blasir við þjóðinni að enn verði ríkissjóður að una við tekjufall. Fiskurinn, undirstaða lífskjaranna, þverr ár frá ári og ytri aðstæður eru okkur það óhagstæðar að fyrirheit um fjárfestingar útlendinga láta á sér standa og tilhlökkunin um efnahagslegan ábata í þeim efnum lætur á sér standa, að minnsta kosti um sinn.
    Verkefnið sem við blasir er tröllslegt. Fyrri ríkisstjórnir hafa ekki haft burði til að taka á vandanum heldur haldið áfram eyðslustefnunni, haldið áfram að sökkva þjóðinni í kviksyndi skulda og óarðbærra fjárfestinga.
    Ekki er nokkur vafi á því að allur almenningur skilur að aðgerða er þörf. Fólkið, sem tengist sjávarútveginum, fiskverkafólkið og sjómennirnir, skilja það reyndar betur en talsmenn stjórnarandstöðunnar að þegar vertíðin brestur, þegar minna fiskast koma minni tekjur, ekki aðeins til fólksins heldur og fyrir allt þjóðarbúið. Þeir sem alla ævina sitja í hlýju umhverfi og njóta starfsöryggis, jafnvel æviráðningar, eiga erfiðara með að skilja hver er undirstaða lífskjaranna.
    Það er ekkert skemmtiverk fyrir ráðherra eða þingmenn stjórnarflokkanna að standa að erfiðum og sársaukafullum aðgerðum. Við gerum það samt því að við vitum að annars stæðum við uppi með atvinnuleysi nær 10 þúsund manna en 3--4 þúsund manns. Þeim breytingum, sem gerðar hafa verið, fylgir vissulega kjaraskerðing. Við teljum það fórn fyrir betri framtíð. Sú kjaraskerðing, sem við blasir, verður ekki

til við ákvarðanir þeirra stjórnmálamanna sem nú ráða. Kjaraskerðingin varð til vegna óstjórnar fyrri ára, vegna óstjórnar þeirra stjórnmálamanna sem nú ganga hvað lengst í því að gagnrýna, rangfæra og skrökva til um þann veruleika sem við okkur blasir. Veruleika minnkandi þjóðartekna, þverrandi fiskimiða.
    Í þjóðfélaginu hefur víða heyrst að sjálfsagt sé að spara, sýna ráðdeild og aðhaldssemi. Í reynd taka allir undir það tal. Það er hins vegar reglan að þeir sömu eru yfirleitt sannfærðir um að sparnaðurinn og ráðdeildin eigi að vera annars staðar en hjá þeim sjálfum.
    Stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum þykir greinilega vænst um þá hagfræði eina, sem kemur svo glöggt fram í þekktri kennslubók, sem nefnd er ,,Litla gula hænan``. Þar sagði kötturinn: Ekki ég. Þar sagði hundurinn: Ekki ég. Flest sögðu þau: Ekki ég.
    Eru þetta ekki einkenni þess sem Nóbelsskáldið nefnir helvíti eigingirninnar og sjálfselskunnar. Hvernig búum við með slíku hugarþeli í haginn fyrir þá sem landið erfa?
    Meginforsendur fjárlagafrv. voru byggðar á þjóðhagsáætlun sem lögð var fram í byrjun októbermánaðar sl. Þar var m.a. gert ráð fyrir því meginmarkmiði ríkisstjórnarinnar að stuðla að áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum, þannig að verðbólgan verði áfram lægri en í helstu viðskiptalöndum. Eftir að fjárlagafrv. var lagt fram hafa ytri aðstæður þjóðarbúsins versnað sem m.a. kemur fram í miklum óróa á alþjóðagjaldeyrismörkuðum sem hefur veruleg áhrif á gengi gjaldmiðla sem skipta máli fyrir útflutningsafurðir okkar. Ríkisstjórnin hefur brugðist við þessum vanda eins og ég gat um hér að framan.
    Fjárlaganefnd hóf undirbúning að afgreiðslu fjárlagafrv. 9. október með viðræðum við sveitarstjórnarmenn. Eins og áður auglýsti nefndin viðtalstíma þar sem þeim aðilum er þess óskuðu var gefinn kostur á að bera upp erindi sín við nefndina. Þá kallaði nefndin fyrir sig forsvarsmenn helstu stofnana ríkisins til viðræðna um starfsemi þeirra og fjárframlög. Þá voru samskipti fjárlaganefndar við einstök ráðuneyti og ráðherra umtalsverð. Þessi vinnutilhögun kemur í kjölfar þeirrar áherslu sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt á að einstök ráðuneyti séu ábyrg fyrir þeim fjárlagaramma sem tilheyrir einstökum ráðuneytum.
    Nefndin hefur haldið 44 sameiginlega fundi og til nefndarinnar hefur komið fjöldi aðila. Þá hafa einstök ráðuneyti og svo fjmrn. veitt nefndinni aðstoð við upplýsingaöflun við úrvinnslu fjárlagafrv. Ég vil fyrir hönd nefndarinnar þakka öllum aðilum fyrir gott samstarf.
    Eins og á liðnum árum fengu fastanefndir Alþingis til umsagnar þann þátt fjárlagafrv. sem fjallaði um málefnasvið þeirra. Nefndirnar hafa skilað áliti sínu. Þó ekki sé komin löng reynsla á þessa tilhögun er ég ekki í vafa um að þessi nýbreytni er til bóta fyrir störf fjárlaganefndar. Eigi að síður tek ég undir þau sjónarmið fram fram komu hjá nokkrum fastanefndanna að nauðsynlegt væri að koma á fastri skipan á þetta fyrirkomulag í framtíðinni í ljósi þeirrar reynslu sem er fengin.
    Er nefndin hafði lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem til hennar bárust lá fyrir að brtt. sem nefndin hafði sameiginlega unnið að leiddi til hækkunar á 4. gr. um 228,9 milljónir króna.
    Í heild gera brtt. meiri hluta nefndarinnar við 2. umræðu ráð fyrir 21,1 milljón króna lækkun útgjalda frá frv.
        Eins og venja er bíða til 3. umr. afgreiðsla á tekjuhlið frv., B-hluta og heimildir skv. 6. gr. Þá á eftir að færa ýmsa liði, einkum rekstrarliði, upp til verðlags vegna þeirra gengisbreytinga sem átt hafa sér stað frá því að fjárlagafrv. var lagt fram.
    Auk þessa eru ýmis viðfangsefni sem bíða 3. umr., bæði stærri og smærri, sem fjárlaganefnd hefur til umfjöllunar. Í því sambandi má nefna Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, Vegagerð ríkisins, veiðistjóra og varðar það framlag vegna veiða á ref og mink, sérstakar greiðslur í landbúnaði, greiðslur vegna búvöruframleiðslu, sjúkrahús í Reykjavík, þá er sérstaklega átt við útdeilingu sparnaðar, Ríkisspítalar og í því eru Gunnarsholt og Vífilsstaðir.
    Í gær fór fram á Alþingi utandagskrárumræða að beiðni oddvita stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd, hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundar Bjarnasonar. ( GB: Forseti, er þetta rétt?) Þingskapaumræða. Tilgangur umræðunnar virðist fyrst og fremst hafa verið sá að koma því á framfæri við fjölmiðla að rekstrarhalli ríkissjóðs á næsta ári yrði á bilinu 7--8 milljarðar kr. en ekki 5--6 milljarðar kr. eins og stjórnarflokkarnir stefndu að. Enn fremur var að því vikið að þau vinnubrögð meiri hluta fjárlaganefndar að hafa ekki tilbúnar við 2. umr. fjárlaga allar tillögur er varða gjaldahlið fjárlagafrv. væru einsdæmi. Væri nánast ómögulegt fyrir minni hlutann að taka frv. til 2. umr. af þessum sökum. Af þessu tilefni er rétt að rifja upp að ekki eru meira en tvo ár síðan að hv. 1. þm. Norðurl. e. átti sæti í ríkisstjórn sem lagði fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1991. Hvernig skyldi hafa verið háttað með afgreiðslu þáv. meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. í desembermánuði 1990 vegna ýmissa mála sem þá voru óafgreidd af þáv. ríkisstjórn? Ekki væri úr vegi og ég sakna þess að hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, er ekki staddur hér en hann hefði þurft að leggja við hlustir.
    Í nál. meiri hluta fjárveitinganefndar við frv. til fjárlaga fyrir árið 1991 segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nokkur fleiri mál bíða því 3. umr. nú en vanalegt er og eru skýringarnar á því eins og áður sagði annars vegar að ýmis álitamál eru enn ófrágengin og hins vegar að ríkisstjórnin boðaði með fjárlagafrv. ýmsar breytingar sem hafa áhrif á bæði útgjalda- og tekjuhlið frv. en hafa enn ekki verið sýndar með flutningi frumvarpa á Alþingi.``
    Við 3. umr. fjárlagafrv. fyrir árið 1991 voru útgjöld hækkuð um 1,7 milljarða kr. Meðal þeirra viðbótarútgjalda var framlag til Tryggingastofnunar ríkisins að fjárhæð 133 milljónir kr. en eins og þingheimi er kunnugt var hv. 1. þm. Norðurl. e. þá heilbrrh.
    Eins og af framansögðu má ráða hafa ýmis mál á liðnum árum, bæði á tekna- og gjaldahlið fjárlagafrv. verið afgreidd við 3. umr. Að svo skuli gert nú er því alls ekki einsdæmi eins og gefið hefur verið í skyn. Þess vegna var alls ekkert tilefni til uppákomu af því tagi sem sett var á svið í þinginu í gær varðandi fjárlagadæmið fyrir næsta ár. Eins og endranær verður að spyrja að leikslokum um endanlega niðurstöðu. Menn geta svo reiknað og spáð hver hallinn verður endanlega ef þeir vilja en niðurstaða fæst auðvitað ekki fyrr en Alþingi hefur endanlega afgreitt og lagfært fjárlagafrv.
    Meiri hluti nefndarinnar stendur að flestum brtt. en mun skila séráliti og hefur nú þegar gert það.
    Mér láðist að geta þess áðan í því er tekið verður til 3. umr. að nefndin hefur ekki fjallað um skiptingu á viðhaldsfé sem ríkisstjórnin hefur gert tillögu um en það verður gert við 3. um.
    Vil ég nú víkja að einstökum þáttum þeirra tillagna sem gerðar hafa verið og flytja skýringar við þær.
    Fyrsta tillagan á þskj. 437 varðar Alþingi. Þar er lagt til að Alþingiskostnaður hækki um 31,3 millj. kr. en stór hluti þessarar hækkunar er vegna verkefna sem Alþingi hefur tekið að sér fyrir aðrar stofnanir. Fjárln. samþykkti að fara að tillögu forsætisnefndar um útgjöld Alþingis. Forsætisnefnd er skipuð fulltrúum allra stjórnmálaafla á Alþingi og var samþykkt forsætisnefndar einróma.
    Hvað varðar umboðsmann Alþingis er lagt til að önnur rekstrargjöld embættisins verði hækkuð um 0,9 millj. kr.
    Gerð er tillaga um að framlag til Ríkisendurskoðunar hækki um 3 millj. kr. Launagjöld hækki um 1,4 millj. kr. en sértekjur lækki um 1,6 millj. kr. en í athugasemd við frv. til fjárlaga segir m.a.:
    ,,Þá er gert ráð fyrir að embættið afli sértekna fyrir sérstök verkefni sem það vinnur að fyrir aðila innan stjórnkerfisins og ekki falla undir almennan verkahring þess.``
    Ríkisendurskoðun hefur ekki og áformar ekki að vinna að öðrum verkefnum en lög um stofnunina gera ráð fyrir. Þar kemur til að stofnunin telur að nokkuð vanti á að hún geti sinnt þessum verkefnum nægilega vel og því ekki svigrúm miðað við starfsmannafjölda að sinna öðrum verkefnum.
    Þá er komið að brtt. er varða menntmrn.
    Í frv. til fjárlaga eru 40 millj. kr. ætlaðar til kostnaðar við framkvæmd EES-samninga. Í brtt. fjárln. er stærstum hluta þeirra dreift á aðalskrifstofur ráðuneytanna. Nánar er gerð grein fyrir þessu í umfjöllun um fjmrn. hér á eftir.
    Hvað varðar Háskóla Íslands er lagt er til að framlag til skólans hækki um 35,2 millj. kr. Til vinnumatssjóðs háskólans eru ætlaðar 30 millj. kr. en það er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að styðja við rannsóknir og þróunarstarf. Einnig er gerð tillaga um 2 millj. kr. framlag til bættrar stjórnunar innan háskólans. Lagt er til að veittar verði 3,2 millj. kr. til tveggja nýrra stöðugilda, prófessors í fiskifræði og prófessors í heimilislæknisfræði. Aðrar breytingar sem gerðar eru á viðfangsefnum háskólans eru millifærslur milli viðfangsefna eins og fram kemur í nál. fjárln. Breytingar þessar eru gerðar í samráði við háskólaritara og hafa ekki áhrif til hækkunar eða lækkunar.
    Af sama toga eru brtt. varðandi Tilraunastöðina að Keldum. Um er að ræða tilfærslur milli viðfangsefna stöðvarinnar og eru þær gerðar í samráði við fjármálastjóra Keldna.
    Hvað varðar Raunvísindastofnun Háskólans þá hækkar fjárveiting alls um 5,4 millj. kr. Til kostnaðar við öflun styrkja frá útlöndum og tækniflutnings innan lands eru ætlaðar 1,4 millj. kr. Hefð er fyrir samskiptum milli stofnunarinnar og útlanda og eru nú milli 120 og 150 verkefni í gangi. Efling þessara samskipta er á góðri leið til þess að afla sértekna að utan. En það kostar fjármagn og herkostnað að afla hins útlenda fjár og því er hér lagt til að veita 1,4 millj. kr. til þess að standa straum af kostnaði við eflingu erlendra vísindasamskipta. Fjárveitingin er einnig ætluð til að efla tækniflutning innan lands en samskipti eru við fyrirtæki víða á landinu þar sem þekking og reynsla Raunvísindastofnunar er aflvaki atvinnutækifæra á landsbyggðinni. Lagt er til að veita 3,2 millj. kr. til rekstrar- og efniskostnaðar á rannsóknastofum stofnunarinnar en rannsóknir á sviði raunvísinda krefjast grunnkostnaðar sem er óumflýjanlegur.
    Að lokum eru lagðar til 0,8 millj. kr. til hálfrar stöðu sérfræðings við kjarnarófstækið, NMR, fullkomnasta efnagreiningatæki landsins, sem krefst mikillar sérfræðiþekkingar og fasts starfsmanns til þess að nýtast eins og til er ætlast.
    Hvað varðar Tækniskóla Íslands þá er gerð er tillaga um 9 millj. kr. hækkun fjárveitingar til tækjakaupa og að fullgera tölvuteikniver hjá skólanum. Í könnun sem gerð var fyrr á þessu ári meðal aðila sem hafa tæknifræðinga í vinnu kom fram það álit að nýútskrifaða tæknifræðinga skorti tilfinnanlega kunnáttu í tölvuvæddri teikningu og hönnun. Undanfarin ár hefur verið reynt að kenna þessa hluti, en sú kennsla hefur að mestu verið í skötulíki vegna vöntunar á tækjabúnaði.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á að tengslum tækni- og verkmenntaskóla við atvinnulífið. Tengslin eru hættulega lítil og brýnt er að þessir aðilar í sameiningu finni leiðir til aukins samstarfs. Það á að vera hagur atvinnulífsins að þessir skólar séu vel búnir tækjum og til þess að svo geti orðið þarf fjárstuðning frá fyrirtækjum.
    Hvað varðar almenna framhaldsskóla, viðhald og stofnkostnað, þá er framlag til byggingarframkvæmda hækkað um 7 millj. kr. Heildarframlag til viðhalds og byggingarframkvæmda er þá 533,7 millj. kr. og er sundurliðun sýnd í brtt. fjárln. á þskj. 437.

    Hvað varðar Námsgagnastofnun er gerð er tillaga um hækkun fjárveitingar til Námsgagnastofnunar um 8 millj. kr. til að mæta álagningu virðisaukaskatts á innlendar bækur. Á árinu 1992 mun stofnunin framleiða og dreifa til grunnskóla náms- og kennslugögnum fyrir 220 millj. kr. Þar af eru um 195 millj. kr. undanþegnar virðisaukaskatti. Með tilkomu 14% virðisaukaskatts á innlendar bækur mun stofnunin þurfa að skila skatti af áður óskattlagðri framleiðslu sinni.
    Hvað varðar Vélskóla Íslands er framlag til tækjakaupa skólans er hækkað um 2 millj. kr. en það er ætlað til að hefjast handa við hönnun og smíði á kennslukælikerfi á næsta ári. Samkvæmt alþjóðasamþykktum sem Ísland er aðili að þurfa að eiga sér stað gagngerar breytingar á kælikerfum vegna ósoneyðandi áhrifa freon-kælimiðla. Íslendingar eru fyrst og fremst matvælaframleiðsluþjóð þar sem kælitækni skiptir gífurlega miklu máli og mikil aukning hefur orðið á kælitækjum til sjós með tilkomu frystitogaranna. Góð menntun vélstjóra á þessu sviði skiptir því miklu máli varðandi rekstraröryggi og rekstrarhagkvæmni.
    Hvað varðar grunnskóla almennt þá er framlag til Hlíðardalsskóla, Ölfusi, sem starfræktur er af Sjöunda dags aðventistum á Íslandi, hækkað um 0,9 millj. kr. Skólinn sendi fjárln. beiðni um nær tvöföldun framlags til að geta lækkað skólagjöld en þau eru nú 325 þús. kr. yfir veturinn fyrir hvern nemanda. Fjárln. taldi ekki unnt að koma að fullu til móts við óskir skólans en leggur til að framlag til skólans í fjárlögum 1993 verði 6 millj. kr.
    Í frv. til fjárlaga var gerð sú breyting á framsetningu svokallaðra safnliða menntmrn. að í stað þess að sundurgreina framlög til einstakra verkefna var gerð tillaga um heildarfjárveitingu til tiltekinna málaflokka. Í brtt. fjárln. gengur þessi ráðstöfun að nokkru leyti til baka en teknir eru inn nokkrir nýir liðir.
    Þá er komið að brtt. er lúta að utanrrn. Gerð er tillaga um að framlag hækki um 15,5 millj. kr. vegna kostnaðar við EES-samninga. Kostnaðurinn er þríþættur. Í fyrsta lagi eru 10 millj. kr. til að standa straum af kostnaði við húsnæði í Brussel þar sem fastafulltrúum einstakra ráðuneyta er ætlað að hafa aðstöðu. Í öðru lagi er gert ráð fyrir 3 millj. kr. tilfærslu til íslenskra hagsmunasamtaka til að gera þeim kleift að fylgjast með starfi EFTA og EB, m.a. gegnum ráðgjafarnefnd EFTA. Loks er gert ráð fyrir 2,5 millj. kr. hækkun til að bæta við starfi í Brussel til að sinna auknu álagi. Þá er gerð tillaga um 2 millj. kr. framlag til Útflutningsráðs Íslands en framlag til ráðsins í fjárlögum 1992 nemur 10 millj. kr.
    Næst eru brtt. er lúta að landbrn. Hvað varðar Búnaðarfélag Íslands er gerð tillaga um 3 millj. kr. hækkun á framlagi til Búnaðarfélags Íslands til að mæta greiðslu uppbóta á lífeyri frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, LSR, til fyrrverandi héraðsráðunauta og frjótækna. Ríkissjóður hefur um langan tíma greitt sem nemur 65% af launum héraðsráðunauta og frjótækna. Fram til ársins 1986 voru þessir embættismenn aðilar að LSR, en frá 1987 hafa þeir verið aðilar að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Þeir starfsmenn sem höfðu aðild að LSR og hafa náð eftirlaunaaldri hafa fengið greiddan lífeyri frá LSR til samræmis við áunnin réttindi. Fjmrn. hefur hins vegar ekki fallist á að þeir væru skilgreindir sem ríkisstarfsmenn og því ekki greitt sjóðnum uppbætur á lífeyri þeirra. Uppbæturnar hafa þannig safnast upp sem skuld héraðsbúnaðarsambanda við LSR og nemur nú um 14 millj. kr. Fjárln. hyggst gera tillögu við 2. umr. fjáraukalaga fyrir árið 1992 um viðbótarframlag til Búnaðarfélags Íslands vegna þessarar skuldar. Á árinu 1993 eru þessar uppbætur áætlaðar 3 millj. kr.
    Hvað varðar Hagþjónusta landbúnaðarins er lagt til að framlag til hennar hækki um 0,4 millj. kr. Horfið er frá skipulagsbreytingum sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. en við það var miðað að stefna að sameiningu eða náinni samvinnu Hagþjónustunnar og búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri.
    Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Eins og fram kemur í nál. fjárln. er hækkun til RALA ætluð til afborgana af lánum vegna framkvæmda við tilraunastöðina á Stóra-Ármóti. Nú eru liðin fimm ár frá því að tilraunastöðin tók til starfa og á þessum tíma hefur átt sér stað mikil uppbygging. Gert er ráð fyrir að búið standi undir öllum breytilegum og hálfföstum kostnaði en tryggja þarf fjármagn utan bús til fjárfestinga og afborgana af lánum. Alls hvíla rúmar 25 millj. kr. á búinu og greiðslubyrði er í kringum 3 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir að ríkið komi að hálfu inn í afborganir á móti sunnlenskum bændum.
    Skógrækt og landgræðsla. Framlag til skógræktarátaks á Fljótsdalshéraði, svokallaðrar Héraðsskógaáætlunar, hækkar um 3,4 millj. kr. Í fjárlagafrv. er það allnokkru lægra en í fjárlögum yfirstandandi árs. Gerðir hafa verið 50 bindandi samningar sem taka til 3.900 hektara lands næstu tíu árin. Stefnt er að því að gróðursetja um 1,5 milljón plöntur árlega á þessu landsvæði. Þessi starfsemi hefur m.a. skapað skólafólki atvinnu yfir sumartímann. Í ljósi slæmra horfa í atvinnumálum telur fjárln. rétt að hækka framlag ríkisins til átaksins um 3,4 millj. kr. á næsta ári, enda verði sú fjárhæð til að halda upp svipaðri starfsemi og í ár.
    Gerð er tillaga um 1,5 millj. kr. hækkun til Veiðimálastofnunar. Á síðastliðnu sumri var gert mikilvægt átak í veiðieftirliti á sjó með ströndum landsins. Þar kom til samstarf veiðieftirlitsmanna á vegum hins opinbera, á vegum veiðifélaga og einstakra hafbeitarstöðva auk landhelgisgæslu. Eftirlitið var samræmt af nefnd áðurnefndra aðila og fulltrúa stangaveiðimanna undir forsæti veiðimálastjóra. Hér er gert ráð fyrir að verkefni þessu verði haldið áfram og að ríkið greiði hluta kostnaðar á móti hagsmunaaðilum. Veiðiréttareigendur greiða hins vegar alfarið kostnað vegna veiðieftirlits í eigin ám.
    Bændaskólinn á Hvanneyri. Gerð er tillaga um 2 millj. kr. hækkun til að hefja uppbyggingu framtíðartölvukerfis fyrir skólann. Starfsemi hans fer fram í allmörgum húsum sem mynda kjarna byggðarinnar á Hvanneyri. Hagsýsla ríkisins var fengin til að gera tillögur að samræmdu kerfi sem gæti tengt saman þessa vinnustaði. Í tillögum Hagsýslunnar er gert ráð fyrir svokölluðu staðarneti fyrir tölvur sem rúmað getur alla

starfsemina. Gert er ráð fyrir að nýta öflugustu vélarnar í eigu skólans en meginhluti af núverandi tölvukosti er í raun úreltur. Að mati Hagsýslunnar er heildarkostnaður við uppsetningu netstöðvar og kaup á nauðsynlegum búnaði um 9 millj. kr.
    Þá er komið að brtt. er heyra undir sjútvrn. Hvað varðar Hafrannsóknastofnun þá er gerð tillaga um 2 millj. kr. hækkun á framlagi til stofnunarinnar vegna alþjóðlegrar ráðstefnu um áhrif umhverfisbreytinga á þorskstofna sem haldin verður hér á landi næsta sumar.
    Sjávarútvegsmál, ýmis starfsemi. Lögð er til 1,6 millj. kr. hækkun framlags til sjóvinnukennslu og er þá til ráðstöfunar 2,8 millj. kr. Fjárln. vill með þessari fjárveitingu tryggja að áfram starfi í tengslum við ráðuneytið maður sem hafi umsjón með sjóvinnukennslu í skólum landsins. Til þessa hefur viðkomandi umsjónarmaður starfað hjá Fiskifélaginu og er það hugmynd nefndarinnar að svo verði áfram.
    Brtt. er heyra undir dóms- og kirkjumrn. eru eftirfarandi:
    Undir liðunum dómsmál, ýmis kostnaður og ýmis löggæslukostnaður, er um að ræða tilfærslur á fjárveitingu milli fjárlagaliða vegna biðlauna nokkurra starfsmanna dómsmálastofnana eins og gerð er grein fyrir í nál.
    Hvað varðar prestaköll og prófastsdæmi er lögð til 3 millj. kr. hækkun á launagjöldum vegna tveggja stöðugilda presta. Annars vegar er um að ræða stöðu farprests en ekki er tekin afstaða til hvar á landinu hann verði ráðinn. Hins vegar er um að ræða stöðu aðstoðarprests í Vestmannaeyjum en laun aðstoðarprests í hlutastarfi er nú greidd af sóknargjöldum en þörf er fyrir aukið fé vegna umfangsmikils og stöðugt vaxandi starfs.
    Kirkjumál, ýmis kostnaður. Lagt er til að taka upp nýjan lið og veita 1,4 millj. kr. til Kirkjumiðstöðvar Austurlands en liður þessi hefur fengið fjárveitingu af safnlið undir dóms- og kirkjumrn. sem hefur verið skipt með bréfi frá fjárln. Kirkjumiðstöðin er samstarfsverkefni 50 safnaða á Austurlandi. Að auki er lögð til 2 millj. kr. hækkun til Hóladómkirkju og 1 millj. kr. hækkun til Snorrastofu.
    Þá er komið að tillögum er lúta að félmrn.
    Tjaldanesheimilið, Mosfellsbæ. Framlag til heimilisins er hækkað um 2 millj. kr. Heimilið var gefið íslenska ríkinu árið 1976 og óskuðu gefendur að heimilið yrði í umsjón heilbrrn. þó svo að eðli starfseminnar heyrði undir félmrn. Það kom í hlut Ríkisspítala að annast rekstur þess. Tillögur Ríkisspítala um fjárframlög til heimilisins hafa á síðustu árum ekki fengið nægan stuðning hjá félmrn. sem m.a. hefur leitt til fjárhagsvanda heimilisins. Málefni vistheimilisins hafa þannig lent á milli tveggja ráðuneyta sem vísa hvort á annað. Fjárln. leggur áherslu á að komið verði á betri skikkan á þessi stjórnunarmál, þannig að sama ráðuneyti beri fjárhagslega og faglega ábyrgð á heimilinu í framtíðinni.
    Vinnueftirlit ríkisins. Lögð er til 0,5 millj. kr. hækkun á launagjöldum vegna hálfrar stöðu fulltrúa til að geta lokið tilflutningi verkefna frá Reykjavík til umdæmisskrifstofa. Á móti hækka sértekjur um 0,2 millj. kr. þannig að framlag hækkar alls um 0,3 millj. kr.
    Vinnumál. Lagt er til að framlag til Alþýðusambands Íslands verði 13 millj. kr. Er það gert í ljósi þeirra umfangsmiklu starfsemi sem þessi heildarsamtök verkalýðshreyfingarinnar inna af höndum í almannaþágu.
    Félagsmál, ýmis starfsemi. Lögð er til hækkun á framlagi til Kvennaathvarfs í Reykjavík um 1 millj. kr. og Stígamóta um 0,5 millj. kr. Framlag til þessara málefna hafa hækkað verulega umfram almennar verðlagshækkanir enda hefur mönnum orðið æ betur ljós nauðsyn þess að styðja við bakið á starfsemi sem þessari.
    Þá er komið að brtt. er varða heilbr.- og trmrn.
    Tryggingastofnun ríkisins. Fyrst er að greina frá tillögum til breytinga á framlögum til almannatrygginga. Framlög til lífeyristrygginga breytast bæði til lækkunar og hækkunar. Samkvæmt stjfrv. til breytinga á lögum um almannatryggingar er gert ráð fyrir að mæðra- og feðralaun verði lækkuð í þeim mæli að þau falli niður með fyrsta barni og lækki samsvarandi með tveimur börnum og fleiri. Talið er að útgjöld ríkisins lækki vegna þessa um 605 millj. kr. og til viðbótar við 75 millj. kr. lækkun á þessum launum sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Á móti lækkun mæðra- og feðralauna kemur 60% hækkun á barnalífeyri og meðlögum. Sú hækkun er talin auka útgjöld ríkisins um 180 millj. kr. Nánari skýringar vegna þessara breytinga er að finna í grg. með áðurnefndu stjfrv.
    Í fjárlagafrv. er ráðgert að ná fram 200 millj. kr. lækkun á útgjöldum ríkisins vegna fæðingarorlofs. Ljóst er að sú lækkun næst ekki fram nema að hluta og er því lögð til hækkun á framlagi til þessa þáttar um 150 millj. kr. Talið er að það sem upp á vantar náist með því að herða á framkvæmd greiðslna í fæðingarorlofi.
    Af hálfu ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að eignatengja lífeyrisgreiðslur, enda nái fram að ganga áform um fjármagnseignarskatt. Ekkert hefur orðið úr þeim áformum enn og því er lagt til að lífeyrisgreiðslur hækki um 200 millj. kr. vegna þessa. Loks er talið að áformuð endurskoðun á ýmsum félagslegum sérbótum lífeyristrygginga skili 75 millj. kr. en ekki 100 millj. kr. eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Að öllu samanlögðu munu útgjöld ríkisins til lífeyristrygginga lækka um 50 millj. kr. og er það tillaga meiri hluta fjárln.
    Næsti liður almannatrygginga eru sjúkratryggingar. Lögð er til 250 millj. kr. lækkun á þessum lið. Á vegum heilbrrn. eru í undirbúningi víðtækar aðgerðir til að hemja útgjöld sjúkratrygginga. Þær aðgerðir munu beinast að því að ná fram betri nýtingu á því fé sem ríkissjóður leggur til þessara þátta almannatrygginga.

Áhersla verður lögð á að auka kostnaðarvitund þeirra sem veita þjónustuna og þeirra er njóta hennar.
    Að því er stefnt að ná fram lækkun á lækniskostnaði sjúkratrygginga um allt að 300 millj. kr. á ársgrundvelli þannig að sá kostnaður verði 120 millj. kr. lægri en áætlað er í fjárlagafrv. Talið er að þessi kostnaður nemi allt að 1.500 millj. kr. á árinu 1992. Þar af verði greiðslur til sérfræðinga 1.100 millj. kr. og greiðslur til heimilislækna 400 millj. kr. Í annan stað eru í undirbúningi í heilbrrn. tillögur sem ætlaðar eru til að lækka lyfjaútgjöld ríkisins um rúmlega 500 millj. kr. á næsta ári frá því sem stefnir í ella. Stefnt er að því að framlag ríkisins til lyfjakaupa verði eigi hærra en 2.500 millj. kr. eða 30 millj. kr. lægri en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlagfrv. Áðurnefnt stjfrv. um breytingar á almannatryggingum hefur m.a. að geyma ákvæði sem tryggja eiga betri nýtingu á því fé sem varið er til lyfjakaupa.
    Sama frv. tekur enn fremur á tannlæknakostnaði. Greiðsluhlutdeild sjúkratryggðra í tannlæknakostnaði er samræmd og verður hvergi núll en algengast er að hún verði 25%. Talið var að tannlæknakostnaður á þessu ári mundi lækka um 150 millj. kr. frá árinu 1991 vegna lægri greiðsluhlutdeildar ríkisins í vissum viðgerðum og samninga við tannlækna. Í reynd er lækkunin óveruleg og í ljós hefur komið að í þeim tilvikum sem greiðsluþátttaka ríkisins er algjör hefur kostnaðurinn vaxið verulega. Kostnaður ríkisins í tannlæknakostnaði er áætlaður 764 millj. kr. eða 100 millj. kr. lægri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Þriðji flokkur almannatrygginga eru slysatryggingar. Gerð er tillaga um 50 millj. kr. hækkun á þeim lið. Í frv. til fjárlaga var gert ráð fyrir að færa slysatryggingar að hluta eða öllu leyti til almennra tryggingafélaga á árinu 1993, enda bjóða þau upp á svipaðar tryggingar. Áformað var að ná fram 100 millj. kr. sparnaði með þeirri breytingu. Fyrsta skrefið í þessa átt verður stigið á næsta ári með því að fella niður slysatryggingu ökumanns úr ákvæðum laga um almannatryggingar. Það mun hins vegar einungis leiða til 50 millj. kr. sparnaðar fyrir ríkissjóð.
    Hvað varðar landlækni er lögð til 10 millj. kr. hækkun sem er ætluð Krýsuvíkursamtökunum til reksturs meðferðarheimilis í Krýsuvík. Heimilið tekur við vímuefnaneytendum 18 ára og eldri sem aðrar meðferðarstofnanir hafa gefist upp á. Þessir sjúklingar þarfnast langtímameðferðar, endurhæfingar, grunnskólamenntunar og þjálfunar í mannlegum samskiptum.
    Hvað varðar Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er gerð er tillaga um 5 millj. kr. hækkun vegna innréttinga og húsbúnaðar í viðbótarhúsnæði stöðvarinnar. Húsnæðismál stofnunarinnar hafa verið í skoðun í langan tíma, en stöðin hefur búið við mjög þröngan húsakost. Til stóð að stöðin yrði flutt í nýtt húsnæði en nú hefur fengist leigt viðbótarhúsnæði á núverandi stað sem nægja mun rekstrinum. Þetta er mun ódýrari lausn á húsnæðisvanda stofnunarinnar en þær lausnir sem hafa verið til skoðunar. Gerður hefur verið leigusamningur til 10 ára og talið er að núverandi rekstrarfjárveiting dugi til að standa undir viðbótarleigu.
    Hvað varðar málefni fatlaðra er þáttur sem lýtur að hjarta- og lungnasjúklingum en lagt er til að framlag til endurhæfingarstöðvar hjarta- og lungnasjúklinga verði hækkað um 2,4 millj. kr. Stöðin tók til starfa á árinu 1989. Við afgreiðslu fjárlaga 1991 var þess óskað að framlag ríkisins yrði hækkað svo unnt yrði að hafa tvo hópa í frumendurhæfingu á göngudeild í stað eins og bæta við einum hópi lungnasjúklinga. Alþingi féllst á nokkra hækkun framlags eða 1,5 millj. kr. Þessi þjónusta stöðvarinnar er talinn ódýrari kostur fyrir ríkið en annars staðar væri völ á. Hækkun á framlagi nú stuðlar að því að þessi rekstur geti starfað með óbreyttu fyrirkomulagi á árinu 1993.
    Hvað varðar sjúkrahús og læknisbústaði þá er lagt er til að taka upp tvo nýja liði, Hlaðgerðarkot 6 millj. kr. og Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands sem gerð er tillaga um að fái 12,5 millj. kr. Um er að ræða framlag til endurbóta á húsnæði.
    Hvað varðar heilbrigðismál og ýmsa starfsemi þá er gerð er tillaga um tvo nýja liði. Annars vegar er lagt til að veittar verði 5 millj. kr. til fræðilegra rannsókna á greiningu fósturgalla með það að markmiði að auka nákvæmni í mælingu slíkra galla. Hins vegar er lögð til 10 millj. kr. fjárveiting til Bláalónsnefndar en í fjárlögum 1992 er fjárveiting 7 millj. kr.
    Hvað varðar Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið er lagt er til að framlag til starfsemi sjúkrastofnana SÁÁ hækki um 15 millj. kr. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir 35 millj. kr. lækkun á framlagi til starfsemi sjúkrastofnana SÁÁ. Að undanförnu hafa átt sér stað viðræður milli stofnunarinnar og heilbrrn. um framtíðarskipan þessara mála. Nú hefur heilbrrh. kynnt fyrir fjárln. samkomulag sem hann hefur gert við forsvarsmenn SÁÁ um að undirbúinn verði samningur milli heilbrrn. og SÁÁ um þjónustu þá sem ríkissjóður kaupir af SÁÁ vegna meðferðar áfengissjúkra. Stefnt er að því að slíkur samningur geti tekið gildi í ársbyrjun 1994 og yrði frá og með þeim tíma rekstur meðferðarstofnana SÁÁ alfarið á ábyrgð samtakanna sjálfra, en ríkið greiddi tiltekna fjárhæð fyrir umsamda þjónustu.
    Hvað varðar heilsugæslu í Reykjavík þá er hér um að ræða tilfærslur milli heilsugæslustöðva í Reykjavík og er nánar gerð grein fyrir þeim í nefndaráliti. Millifærslurnar eru gerðar að beiðni samstarfsráðs heilsugæslustöðva í Reykjavík og styður heilbr.- og trmrn. þá beiðni.
    Hvað varðar Heilsugæslustöð Suðurnesja þá er lögð er til 1,8 millj. kr. hækkun launagjalda vegna stöðu heilsugæslulæknis, en stöður heilsugæslulækna á Suðurnesjum eru óeðlilega fáar miðað við íbúafjölda.
    Næst eru breytingartillögur er varða fjmrn. Í fjárlagafrv. eru 40 millj. kr. ætlaðar til kostnaðar við framkvæmd EES-samninga. Á grundvelli beiðna ráðuneyta um fjárveitingar til að standa straum af viðbótarkostnaði vegna þátttöku í væntanlegu EES-samstarfi lagði fjmrn. fyrir fjárln. tillögu að skiptingu á þessu fé á aðalskrifstofur ráðuneytanna. Skipting meiri hluta fjárln. sem birtist í breytingatillögum meiri hlutans

er eftirfarandi:
    Menntmrn. 2,5 millj. kr., utanrrn. 15,5 millj. kr., landbrn. 0,5 millj. kr., sjútvrn. 1 millj. kr., dóms- og kirkjumrn. 0,5 millj. kr., félmrn. 1,5 millj. kr., heilbrrn. 5 millj. kr., fjmrn. 1,1 millj. kr., samgrn. 0,5 millj. kr., iðnrn. 1 millj. kr., viðskrn. 1 millj. kr., Hagstofa Íslands 1 millj. kr. og umhvrn. 2 millj. kr.
Alls eru þetta 33,1 millj. kr. þannig að eftir standa 6,9 millj. kr. til síðari ráðstöfunar.
    Auðsýnt er að ekki verður gerlegt að sinna öllum þeim nefndum og sérfræðingahópum sem boðið er upp á að Ísland taki þátt í. Sú venja hefur þegar myndast í öllum samskiptum Íslands við alþjóðastofnanir að tekið sé þátt í starfi mikilvægustu nefnda og ráða með þátttöku manna er koma héðan að heiman. Að baki tillögu fjárln. að skiptingu þessa fjár liggur sú stefnumörkun að fastafulltrúar Íslands í Genf og Brussel fylgist með og sinni sem mest störfum einstakra nefnda fyrir hönd einstakra ráðuneyta. Fundir verði því aðeins sóttir í helstu nefndum og þá í þeim tilfellum þar sem beinlínis er verið að fjalla um hagsmuni Íslands eða semja um ákveðin mikilvæg málefni. Kjósi einstök ráðuneyti að sækja fundi því til viðbótar verði þau að kosta slíkt af almennum fjárveitingum sínum.
    Þá er komið að brtt. er lúta að samgrn. Lagt er til að viðfangsefni 1.31 Flugbjörgunarsveitir fái nýtt heiti, Landsbjörg. Á síðasta ári sameinuðust Landssamband flugbjörgunarsveita og Landssamband hjálparsveita skáta í ein samtök sem nefnast Landsbjörg. Í fjárlögum 1992 er gert ráð fyrir framlagi til samtakanna sem sameinuðust undir sitt hvoru ráðuneytinu, þ.e. samgrn. og menntmrn. Eftir áðurnefnda sameiningu þykir meiri hluta fjárln. rétt að sameina framlögin undir eitt ráðuneyti, samgrn., enda er starfsemi þeirra háttað með líkum hætti og Slysavarnafélag Íslands en framlög til starfsemi á vegum félagsins eru vistuð hjá samgrn. Í fjárlagafrv. eru 2 millj. kr. ætlaðar til starfsemi flugbjörgunarsveita líkt og í fjárlögum yfirstandandi árs. Lagt er til að framlagið verði hækkað um 4 millj. kr.
    Hafnamál. Lagt er til að framlag til ferjubryggja hækki um 2 millj. kr. og að tekinn verði inn nýr liður, Hafnarmannvirki, Sandgerði, og er framlag 25,1 millj. kr. Á móti þessum hækkunum lækkar framlag til hafnamannvirkja um sömu fjárhæð og verður 781,9 millj. kr. Sundurliðun á fjárveitingum til hafnamannvirkja, ferjubryggja og sjóvarnagarða er sýnd á þingskjali 437.
    Hvað varðar Ferðamálaráð er hækkun sem hér er lögð til er sérstaklega ætluð ferðamálasamtökum landshlutanna. Mikil gróska hefur verið í ferðamálum um land allt og hafa ferðamálasamtök landshlutanna átt þar stóran hlut að máli. Fjárln. vill með þessari fjárveitingu stuðla að frekari uppbyggingu samtakanna. Ferðamálaráði er ætlað að skipta fjárhæðinni.
    Að lokum eru breytingartillögur er varða umhvrn. Gerð er tillaga um að framlag til yfirstjórnar ráðuneytisins hækki um 3 millj. kr., þar af eru 2 millj. kr. vegna kostnaðar við framkvæmd EES-samninga. Til stöðu húsvarðar eru ætluð 1 millj. kr.
    Hvað varðar ýmis verkefni þá er lögð er til 1 millj. kr. hækkun vegna svokallaðrar Montreal-bókunar. Árgjald Íslands vegna þessarar bókunar verður 27.000 dollarar en ekki 25.000 dollarar eins og gert var ráð fyrir í vinnslu fjárlagafrv.
    Þá hef ég lokið yfirferð yfir breytingartillögur fjárln. og meiri hluta fjárln. á þskj. 437 og 438. Til viðbótar við það sem ég hef sagt um einstakar tillögur vil ég taka eftirfarandi fram:
    Sýslumannsembætti. Rétt er að benda á breytingar á heitum sýslumannsembætta sem hafa ekki verið settar fram sem breytingartillögur. Um er að ræða hreint formsatriði og er gert í samræmi við reglugerð nr. 57/1992, um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Nöfnum hefur verið breytt á þá leið að forsetningu er bætt inn í nöfnin. Dæmi: Sýslumaðurinn Reykjavík verður Sýslumaðurinn í Reykjavík, Sýslumaðurinn Akranesi verður Sýslumaðurinn á Akranesi o.s.frv. Sú breyting sem er kannski sjáanlegust er undir utanríkisráðuneyti en lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli fær nú heitið sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli.
    Hvað varðar Háskólann á Akureyri er þetta að segja. Menntmrh. hefur kynnt í ríkisstjórn fyrirætlanir sínar um að stofnuð verði kennaradeild við Háskólann á Akureyri og lagt til að 5 millj. kr. verði varið til deildarinnar á fjárlögum 1993. Fjárln. mun taka afstöðu til tillögu menntmrh. milli 2. og 3. fjárlagaumræðu.
    Hvað varðar Landhelgisgæsluna þá er það að segja að þrátt fyrir 7% lækkun fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar miðað við fjárlög þessa árs, mun reynt að halda úti öllum þremur varðskipunum í stað þess að leggja einu þeirra allt árið. Reynsla Landhelgisgæslunnar er sú að það sé ódýrara að draga úr rekstri allra skipanna, með því að leggja hverju þeirra fyrir sig meðan áhafnir þeirra taka út sumarleyfi sín og áunna frídaga, en að leggja einu skipi alveg, sem leiðir til uppsagna fjölda starfsmanna með mikla þjálfun og reynslu. Jafnframt verður dregið úr flugrekstri Landhelgisgæslunnar til að ná endum saman. Það er því skoðun meiri hluta fjárln. að hyggilegt sé að áðurgreindum 7% niðurskurði verði mætt á framangreindan hátt, þ.e. með sama skipakosti og á þessu ári.
    Frú forseti. Þær tillögur sem ég hef skýrt, kalla á minni breytingar en hefðbundið er hjá fjárln. sem áður hét fjárveitinganefnd. Þessar tillögur bera þess vitni að reynt er svo sem kostur er að sýna aðhald, láta ekki undan nema brýnt tilefni sé til. Sjálfsagt verða margir sárir og leiðir yfir því að hafa ekki fengið óskum sínum fullnægt, en efnahagslegur veruleiki leyfir ekki meira.
    Ég vil fyrir hönd nefndarinnar þakka starfsmanni nefndarinnar, Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, fyrir frábært starf og mikinn dugnað. Einnig þakka ég Halldóri Árnasyni, starfsmanni fjmrn., sérstaklega gott starf. Þá hefur nefndin notið góðrar aðstoðar starfsfólks Ríkisendurskoðunar og fjmrn. Einnig viljum við færa

starfsfólki Alþingis þakkir bæði hér og þá ekki síður fólkinu í Austurstræti 14, sem lagt hefur sig fram um að greiða götu okkar.
    Ég flyt og öllum samstarfsnefndarmönnum mínum, bæði stjórnarsinnum og stjórnarandstæðingum, þakkir fyrir mjög gott samstarf og umburðarlyndi í minn garð, en allir hafa þeir lagt sig fram um að starf nefndarinnar gæti gengið sem greiðast.
    Eins og ég gat um áðan er ýmsum málum vísað til 3. umr., reyndar ekki fleirum en oft áður. Fyrir 3. umr. verður að taka ákvarðanir sem styrkja fjárlagafrv. verulega. Það verða sjálfsagt óvinsælar ákvarðanir. Við þær aðstæður sem við búum er nauðsynlegt að gera fleira en gott þykir.
    Ég vík enn að krossgötum þeim er Randver Halldórs Laxness stóð á. Líkt og hann þurfum við að velja næsta skref. Velja um það hvort við ætlum að vera ætlunarverki okkar trú eða láta það ógert. Velja hvort við viljum standa við þau fyrirheit að hafa hér lága verðbólgu, lága vexti og berjast gegn atvinnuleysi, sem knúið hefur dyra þúsunda manna eða fara sömu leið og fyrri ríkisstjórnir, leið ráðleysis og sóunar.
    Okkur mun takast að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Leiðin að markinu er grýtt og ill yfirferðar, en þá leið verðum við að fara til að ná árangri. Það er leið Randvers, sem ég vitnaði í áðan, ,,sælu yfir vitundinni um að þú sért að vinna heiminum gagn``.