Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 15:10:06 (3280)

     Guðrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur gert góða og skilmerkilega grein fyrir nál. minni hlutans og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka samstarfsmönnum mínum í minni hlutanum ágætt samstarf og raunar meiri hluta líka þó að allmikill ágreiningur hafi þar verið uppi eins og gefur að skilja.     Í Morgunblaðinu í dag er frétt á annarri síðu sem segir meira en nokkuð annað að það sem við höfum verið að halda fram undanfarið um fjárlagavinnuna var auðvitað hárrétt. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, og þetta er í Morgunblaðinu í dag:
    ,,Nýjar brtt. við fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir ríflega 250 millj. niðurskurði í lífeyris- og sjúkratryggingum. Þá hyggst heilbrrh. afla nærri 200 millj. í tekjur og félmrh. 100 millj. með Lánasjóði sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir 100 millj. niðurskurði í landbúnaði. Enn vantar 300 millj. til reksturs Hafrannsóknastofnunar. Önnur umr. fjárlaga fer fram í dag og segir fjmrh. líklegt að forsendur breytist á næstu dögum. Hann stefni áfram að því að halli ríkissjóðs verði ekki meiri en sex milljarðar.``
    Nú er alveg ljóst, virðulegi forseti, að hallinn eins og frv. liggur fyrir núna er í kringum 8 milljarðar og enn þá vitum við ekkert hvernig á að bregðast við eða hvar á að finna þá tvo milljarða sem vantar til þess að halli verði ekki nema sex milljarðar. Nokkuð er síðan tilkynnt var um niðurskurð upp á 1.240 millj. Af því höfum við einungis séð 250 millj. Því er auðvitað alveg ljóst að það er rétt sem stendur í fyrirsögn í

Morgunblaðinu í dag. ,,Fjárlagavinna ráðuneyta varla hálfnuð.`` Má segja að það sé hálfgerð tímaeyðsla að vera að eyða miklu púðri í umræðu þessa þar sem vinnan er hér öll eftir, bæði hvað varðar tekjur og gjöld.
    Fleira kemur til sem gerir þetta dálítið innihaldslaust eins og sakir standa. Það er ljóst að 175 millj. vantar til þess að búvörusamningur sé uppfylltur og af þeim 278 millj. sem þar eru ógreiddar eru um það bil 175 millj. hreint lögbrot verði það ekki greitt og er líklegast að það verði að finna það fé og koma því inn í fjáraukalög fyrir 1992.
    Þá ber að minnast á að það hlýtur að hafa allmikil áhrif að ekki verður úr EES-samningi eða samningnum um Evrópska efnahagssvæðið nú um áramót. Í þjóðhagsspá og forsendum fyrir fjárlagavinnunni var reiknað með 550--750 millj. þjóðhagsbata vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ég held að það hljóti þá a.m.k. að helmingast ef samningurinn tekur ekki gildi fyrr en á miðju næsta ári og er ljóst að það getur hann ekki gert.
    Þá er ljóst að í gjaldahlið frv. eru einhverjir tugir milljóna sem ætlaðir eru vegna gildistöku samningsins, þ.e. á útgjaldahlið. Má búast við að hægt verði að lækka það eitthvað þar sem ekki verður af samningi. Þá er ljóst að þar sem hagræðingarsjóðsmálið hefur ekki skilað því sem það átti að skila er rekstur Hafrannsóknastofnunar í uppnámi og þar vantar heilar 300 millj. Við erum því enn að tala um hundruð millj. til viðbótar því sem nú liggur fyrir. Síðan megum við ekki gleyma að kjarasamningar eru lausir hjá fjölmörgum stéttarfélögum um áramót og ég á ekki von á að þær stéttir sætti sig við að samningar þeirra verði óbreyttir. Ég veit ekki til að ein króna sé í þessu fjárlagafrv. fyrir launahækkunum. Því er ljóst að þarna eru svo margir lausir endar að ógerningur er að tala um þetta frv. af einhverju viti. Þó er rétt að benda á ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið eins og þær að nú skal taka af vegafé til að reka ferjur landsins og maður gæti spurt næst: Gæti komið til að tapið af innanlandsfluginu yrði næsti gjaldaþáttur frá Vegagerð ríkisins? Þarna má finna hina furðulegustu hluti sem auðvitað hlýtur að verða að taka alvarlega fyrir og móta einhverja stefnu til framtíðar. Ég sé ekki annað í fljótu bragði en það verði að byrja á því að taka upp þjóðhagsspá, það verði að taka upp bæði tekjuhlið og gjaldahlið þessa frv. og þá fyrst geti hafist einhver vitræn vinna við að deila þessu fé sem til verður til hinna ýmsu þátta samfélagsins.
    Við höfum þegar haldið um það allnokkrar ræður hvar menn virðast helst bera niður þegar spara skal og við minnihlutamenn í hv. fjárln. erum sammála um það og einhuga að það sé gert þar sem síst skyldi. Harkalegar árásir á heilbrigðiskerfið í landinu, fjölskyldumál, málefni barna, menningarmál, málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna og þannig mætti lengi telja, það eru þeir málaflokkar sem verða fyrir auk menningarmálaþáttarins ekki síður. Þetta er auðvitað alger stefnubreyting frá því sem verið hefur. Alllengi hefur verið þjóðarsátt um að reyna að reka hér gott skólakerfi, gott heilbrigðiskerfi, góðan háskóla, góðan lánasjóð og þetta hefur í stórum dráttum tekist. Nú skal víkja frá þeirri stefnu og svo langt er til seilst að um árabil hafa tannlækningar barna verið ókeypis og árangurinn af því liggur fyrir eins og allir vita að tannheilsa Íslendinga hefur auðvitað gerbreyst. Nú er næstum óhugsandi að hitta ungt fólk með gervitennur eins og gerðist hér fyrir nokkrum áratugum. Með því að tanneftirlit var ókeypis gátu foreldrar veitt börnum sínum þann munað að fylgst var með tönnum barnanna og þess vegna kom aldrei til svo alvarlegra tannskemmda að hætta væri á tannmissi. Með því að nú verða engar tannlækningar ókeypis, hvorki fyrir börn, gamalmenni né neinn annan er brotið blað í sögu þessara mála og því hlýtur auðvitað að verða alvarlega mótmælt. Í fyrsta lagi er það ekki sparnaður. Það getur hver manneskja sagt sér sjálf því að þetta breytir ekki öðru en því að tannviðgerðir verða þeim mun dýrari sem þær eru lengur trassaðar og auk þess sem þarna er snúið til baka frá svo margyfirlýstum stefnumiðum að það sætir furðu að menn skuli láta sér detta annað eins og það í hug. Það gefur alveg auga leið að peningalítið barnafólk fækkar auðvitað ferðum með börn sín til tannlækna þegar það er farið að kosta peninga. Það segir sig alveg sjálft.
    Auðvitað er hægt að taka hvern lið fyrir sig. Hér var mikil umræða í gærkvöldi um óskiljanlegt frv. hæstv. heilbrrh. þar sem verið er að flytja stuðning við barnafjölskyldur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna yfir á einstaklinga. Væri kannski að bera í bakkafullan lækinn að fara að endurtaka það sem ég sagði hér í ræðu minni seint í gærkvöldi, en það verður gert síðar og svo sannarlega við 3. umr. þegar í ljós kemur hvernig því máli lyktar vegna þess að það kom sem betur fer í ljós í umræðunni í gær að um þessi mál er ágreiningur milli stjórnarflokkanna og einstakra þingmanna.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði góða grein fyrir þætti heilbrigðis- og tryggingamála svo ég ætla ekki að endurtaka það, en þegar litið er til mennta- og menningarmála, þá heldur þessi ríkisstjórn sig enn þá við þá stefnu að færa fjármagn frá launafólki í landinu til fjármagnseigenda þannig að nú er svo komið að stór hluti af fjármagni landsmanna er á örfárra manna höndum. Á yfirstandandi fjárlagaári er grunnskólinn enn skorinn niður og þvert ofan í þau loforð sem höfð voru í frammi við afgreiðslu síðustu fjárlaga er haldið áfram að stytta skólatíma og fjölga í bekkjum. Á sama tíma og meiri og meiri vinna leggst á kennara, æ stærri þáttur sem foreldrar gátu áður sinnt er fluttur yfir í skólana, þá er fjölgað í bekkjum, skólatími styttur og laun kennara þarf ekki að ræða. Þau eru á allra vitorði og auðvitað til stórrar vansæmdar.
    Það er dagljóst að það er ógerningur að kenna svo nokkur mynd sé á 29 eða 30 börnum í bekk. Fyrir nokkrum árum varð nokkur umræða um hvernig komið væri fyrir verkmenntakennslu í skólum, handmenntakennslu, því að þegar farið var að kenna drengjum og stúlkum sömu handavinnuna var það ekki betur undirbúið en svo að tímum var ekki fjölgað. Það gerðist ekkert annað en hvor hópurinn um sig fékk helmingi færri tíma en hann hafði haft áður. Það er löngu ljóst að úr þessu hefur orðið að svo til engin

handmenntakennsla af nokkru viti er í grunnskólanum. Ég leyfi mér að halda þessu fram því að ég þekki það einfaldlega af reynslu. Stúlkur læra sáralítið fyrir sér í saumaskap og prjónlesi, eins og við gerðum á árum áður, og piltar sáralítið í smíðum. Sama gildir ef ég sneri því við og segði: Enn minna læra piltar í saumaskap og enn minna læra stúlkur í smíðum. Þetta er árangur þessarar breytingar því miður. Hugmyndin var sjálfsagt vel meint í anda jafnréttis milli kynjanna en stundum er farið af stað áður en hlutirnir er tilbúnir og verr farið af stað en heima setið.
    Hæstv. fyrrv. menntmrh., Svavar Gestsson, gerði ítrekaðar tilraunir til þess að bæta úr þessu, en því miður var hann ekki nógu lengi í ráðherrastól til þess að því verki yrði haldið áfram svo að úr yrði bætt.
    Þetta hef ég margsinnis talað um á hinu háa Alþingi vegna þess að það þýðir ekkert að vera að tala um íslenskan iðnað og íslenska hönnun ef ekki er byrjað þegar í grunnskólunum að kenna verkmennt og handmennt. Það hannar enginn klæðnað sem kann ekki að halda á nál eða prjóna sokkbol. Fólk verður að vita og þekkja hvaða efni það er að fást við og er að handfjalla. Þetta hangir auðvitað allt saman og er til stórskaða fyrir iðnaðinn í landinu og þar með þjóðarhag allan.
    Um það mætti margt segja og væri kannski ástæða til að hafa um það umræðu hvort við höfum verið á réttri leið með framhaldsskólakerfið okkar vegna þess að ég hef lengi haft þá skoðun að það hafi verið rangt að færa fjölbrautaskólana upp á menntaskólastig. Fjölbrautaskólar eru ágætir en menntaskóli er annað. Ég held að það sé kominn tími til að menn setjist niður og skoði þá reynslu sem af þessu kerfi er orðin. Ég held að menn eigi að horfast í augu við hvað þarna er að. Nú er ég ekki að segja að fjölbrautaskólar séu ekki komnir til að vera. Þeir eru af hinu góða en þeir eru ekki það sama og menntaskólar eins og þeir voru áður. Þar með er ég ekki að segja að þeir megi ekki líka breytast, en ég held að við verðum að hafa kjark til þess að setjast niður og skilja þarna á milli. En það er ekki tími til að rökstyðja það hér og nú og ég ætla heldur ekki að gera það.
    En ég ætla aðeins að segja að fátt er hættulegra einni þjóð en að hætta á að menntun í landinu rýrni. Það er undirstaða allra framfara í öllum samfélögum að landsmönnum sé séð fyrir góðri menntun og vísindarannsóknir efldar sem mest við megum því þá aðeins færumst við fram á veg og erum fær um að eiga samleið með öðrum menntuðum menningarþjóðum.
    Þau nýmæli er að finna í þessu fjárlagafrv. að í fyrsta skipti eru skólagjöld, sem leyfilegt hefur verið að innheimta í framhaldsskólunum, eyrnamerkt til reksturs skólanna að hluta. Hingað til hefur skólunum verið heimilað að innheimta hjá nemendum tiltölulega lág gjöld til þess að styðja við félagslíf í skólanum og annað slíkt, en nú skulu a.m.k. 3.000 kr. á nemanda fara í beinan rekstur skólans. Þetta er aðeins byrjun á því að hér verði tekið upp, ef þessi heillum horfna hæstv. ríkisstjórn fær að sitja nógu lengi, breska og ameríska kerfið að menn geri svo vel og borgi fyrir sína eigin menntun vegna þess að þessir menn hafa ekki enn þá skilið að menntun er ekki fjárfesting einstaklingsins. Hún er fjárfesting samfélagsins alls.
    Háskóli Íslands er í slíkri kreppu að yfir 160 námskeið hafa verið felld niður. Og svo er komið að það er erfitt að sjá til þess að nemandi geti skilað eðlilegri framvindu sem Lánasjóður ísl. námsmanna krefst til þess að næsta greiðsla komi vegna þess að námskeiðið sem nemandinn ætlaði að taka hefur verið fellt niður. Á sama tíma hefur stjórn lánasjóðsins stórlega hert kröfur um námsframvindu þannig að þarna er nemendum gert tvöfalt erfiðara að stunda nám sitt. Skólagjöld hafa verið tekin upp. 22 þús. kr. skulu menn greiða fyrir að fá að fá kennslu á hverju skólamissiri við Háskóla Íslands, enda hefur markmiðinu verið náð: innrituðum stúdentum hefur stórfækkað eða um 700 manns sem eru 8% á einu ári. Ég ætla að vona að ekki verði framhald á sömu prósentutölu því að þá fara menntunarmál í landinu að líta æðiilla út.
    Það er auðvitað ljóst að þeir sem hafa veikasta þjóðfélagstöðu, fólk sem er með framfærslu, kvæntir stúdentar með börn á framfæri og einstæðir foreldrar, eru auðvitað þeir sem hrökklast frá námi. Maður hlýtur að verða að spyrja þessa hæstv. ríkisstjórn öðru hverju hvort hún viti virkilega hvað hún er að gera og hvort hún vilji þetta. Ekki er hæstv. ríkisstjórn illa við einstæðar mæður. Ekki heldur hún að þær eigi verra með að læra en aðrir. Það er einu sinni svo í lífi okkar að við verðum stundum að vita til hvers við eru að gera það sem við erum að gera. Það verður einfaldlega að vera einhver tilgangur með því. Ég get ekki hugsað mér að nokkur Íslendingur vilji játa það upphátt að hann vilji mismuna fólki á þennan hátt aðgang að námi vegna fjölskyldustöðu eða framfærslu. Ég trúi því bara ekki.
    Um Lánasjóð ísl. námsmanna hafa verið haldnar svo margar og svo langar ræður að ég ætla ekki að endurtaka þær og vitna í mörg bindi af þingtíðindum, en þar eru einkennilegir hlutir að gerast. Frá því að sjóðurinn er skorinn niður um hálfan milljarð, þá situr þar stjórn sem ómögulegt er annað að sjá en vilji íslenskum námsmönnum allt ógagn gera. Fáránlegustu reglur sem þessir herrar semja koma námsmönnum í slíkan bobba að það er með hreinum ólíkindum. Ég þekki persónulega þó nokkur dæmi um fólk sem hefur hreinlega hrökklast heim frá námi erlendis vegna þess að það getur ekki staðið í þessu. Það getur ekki staðið í að stríða við þetta fólk. Ég geri ráð fyrir að hæstv. heilbrrh. fengi stjörnur í augun yfir dugnaði hv. varaþm. og virðulegs stjórnarformanns Lánasjóðsins. Honum hefur svo sannarlega tekist að spara. Það er ekkert lítið sem hann hefur sparað og sker og sker. Það eina sem hann hefur ekki sparað er að hann þurfti helmingi meira húsnæði þegar hann settist þarna upp eftir og hefur heila hæð á Laugavegi 77 og ekki illa búna, langt í frá, einhvers staðar fundust peningar til þess.
    Ætli það sé ekki einmitt svo að það megi víða finna peninga, það megi víða spara. Ég skyldi bjóðast til þess, hafandi verið opinber starfsmaður alla mína starfsævi þar til ég settist inn á hið háa Alþingi, að

hjálpa hæstv. ríkisstjórn að skera niður heilmikinn kostnað. Ég veit hvar hægt er af að taka. En því miður hefur bara enginn viljað þekkjast það góða boð. Það er ekki fylgst með tölvuæðinu sem fer eins og engisprettufaraldur yfir þetta land. Það er ekki orðinn sá eymdarkontór til að þar sé ekki tölvukerfi á borð við stórfyrirtæki. Það var dálítið skondið að vera á ferð í Bandaríkjunum ekki alls fyrir löngu og sjá tölvukostinn þar í landi. Þá munar ekkert um það hjá Sameinuðu þjóðunum, og er það enginn kotbúskapur, að þar er sáralítið um tölvur. Þar eru ekki einu sinni rafmagnsritvélar. Menn eru bara einfaldlega með gamlar ritvélar rétt eins og við vorum með fyrir svona 20--30 árum og þykir engum mikið. Þeir hafa einfaldlega sett peningana í annað. Grunur minn er sá að þeir hafi ekki farið í neitt betra en það er önnur saga. En það sýnir að það er vel hægt að reka fyrirtæki án þess að hægt sé að tala við hálfan heiminn án þess að standa upp úr stólnum og má nú öllu ofgera. Ég vildi gera það að tillögu minni að hæstv. ríkisstjórn léti rannsaka þau yfirgengilegu tölvukaup sem viðgangast í landinu. Þetta er orðið þannig að menn tala saman milli landa úr póstkassanum í einhverju horni í tölvunni sinni við vini og vandamenn út og suður. Þetta er hægt á hinu háa Alþingi ef menn vissu það ekki. Ættinginn í útlöndum þarf bara að kaupa sér eitthvað sem heitir módem held ég. ( SvG: Módem.) Módem, segir hv. 9. þm. Reykv. sem veit allt um þetta og mætti segja mér að hann ætti módem og þá getur hann spjallað við karla og kerlingar út um allar trissur. Halda menn að það sé eitthvert vit í þessu? Til hvers er þetta? Þetta gæti kannski gagnast hæstv. ráðherrum þegar þeir eru að spjalla saman yfir góðum mat og víni í útlöndum um Evrópska efnahagssvæðið. Það mætti kannski gera það í gegnum módem og kæmi kannski að meira gagni, en ég skal ekki hafa fleiri orð um það.
    Virðulegi forseti. Mér er ljóst að það bíða margir eftir að komast að. Ég ætla aðeins að víkja að menningarmálunum. Ekki opnar stjórnmálamaður á hátíðlegum stundum svo munninn að hann fari ekki að stæra sig af íslenskri menningu, sögu, menningu, þjóðtungu og öllu þessu. En það er afar erfitt að sjá þegar litið er á þetta fjárlagafrv. að hæstv. ríkisstjórn þyki óskaplega vænt um menningu, sögu og tungu því að nær allt er skorið niður sem hægt er að skera. Jafnvel hin heilaga kýr íslensku þjóðarinnar, bókin, fær ekki að vera í friði. Bókmenntaþjóðin má ekki lesa svona mikið. Hún á að fara að borga meira fyrir bækurnar sínar og auðvitað þarf að setja skatt á þær sem hafði þó tekist að létta af bókaútgáfu í landinu. Auðvitað á þetta eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar bæði fyrir bókritun og bókagerð.
    Hið ágæta fyrirtæki, Menningarsjóður, skyldi auðvitað niður lagður. Hann var svo dýr í rekstri sögðu menn. Menningarsjóður hefur gefið út bækur sem fæstir útgefendur hefðu lagt í að gefa út. Ég vil nefna bækur, sem menn hamast við að gefa þingmönnum sem ná virðulegum aldri, Íslenska sjávarhætti eftir Lúðvík Kristjánsson sem er stórvirki og tók áratugi að vinna. Það er ekki auðvelt fyrir nokkurn bókaútgefanda í landinu að halda uppi slíku verki án þess að það skili einni krónu fyrr en 20--30 árum seinna. Slík verk, orðabækur og annað slíkt hefur Menningarsjóður annast. Þá kom þetta fólk eins og skriðdrekar inn í það fyrirtæki og án þess náttúrlega að tala við kóng eða prest lagði það niður. Formenn slógust þarna í nokkra mánuði og voru formenn í ráðinu til skiptis og að lokum var sjóðurinn lagður niður. Þ.e., það hefur ekki verið gert því að það er ekki búið að gera það með lögum sem nauðsynlegt er að gera.
    En var fyrirtækið svona illa statt? Nei, það var það ekki. Þegar búið var að selja bara það sem til var af bókum og réttindum til bókaútgáfu voru 17 millj. kr. eftir. Þær eiga raunar að vera uppistaðan í einhverjum nýjum sjóði sem nýtt frv. á að koma fram um. Það er að vísu ekki heldur farið að sjá dagsins ljós en komi það er það einfaldlega með arðinn af Menningarsjóði í farteskinu. Allt er þetta því eins, illa unnið, vanhugsað og heimskulegt.
    Þess skal geta sem gott er að Þjóðleikhús Íslendinga hefur nokkurn veginn fengið að halda sínu og er það vel og sýnir einhvern vinskap í sambandi við leiklistina í landinu. Sama má segja um áhugaleikhús og Bandalag ísl. leikfélaga. Það er illmögulegt að horfa fram hjá því að leiklist er sú listgrein í þessu landi sem langflestir landsmenn fást við og njóta. Það er satt að segja aðdáunarvert hversu blómlegt leiklistarlíf þrífst úti um allt land á smæstu stöðum og menn láta sig ekki muna um að færa upp verk sem eru oftar sýnd í stórum atvinnuleikhúsum og svo sannarlega hefur þetta vakið athygli á erlendri grund. Er það vel og ber að fagna því að þetta hefur verið virt og reynt að halda einhverju sómasamlegu fjármagni í þennan rekstur.
    Það er ekki langt síðan hið háa Alþingi setti ný þjóðminjalög og skyldi nú bæta úr þeim trassaskap sem því miður hefur ríkt allt of lengi varðandi vörslu og vernd menningarminja í landinu. Húsafriðunarsjóður átti að sjá um að vernda gömul hús sem nær engin eru orðin hér á landi vegna þess að um þau hefur verið gengið af fullkominni villimennsku. Sá sjóður er auðvitað skorinn niður við trog þannig að það er ekki að sjá að mikill vilji sé til þess að fara að hinum nýju lögum. Þetta ber að harma og það er kannski dæmi um þjóðrembuna í Íslendingum, sem er annað en þjóðarmetnaður og raunar andhverfa hans, að sjálft Þjóðminjasafn Íslendinga heldur hvorki vindi né vatni. Þær fáu gersemar sem við eigum úr menningarsögu þjóðarinnar liggja undir stórskemmdum. Starfsmenn eru hlaupandi með þetta undan roki og rigningu þegar verst viðrar hér í borg. Það er ömurlegt til þess að hugsa að ekki skuli vera gert myndarlegt átak til þess að bæta hér úr.
    Framlög til lista almennt eru í fullkominni óvissu. Hæstv. menntmrh. leggur á það mikla áherslu að fá að deila út úr svokölluðum safnlið sjálfur og vill ekki að hv. þm. séu að skipta sér af því. Umtalsvert fé rennur þannig óráðstafað til ráðherra og hinar ýmsu listgreinar eiga það nokkuð undir honum hvernig skipt verður og fá hv. þm. þar ekki öllu ráðið en þó nokkru. Mér er það mikið gleðiefni að geta upplýst að einu okkar indælasta tónskáldi, Árna Björnssyni, sem hefur verið gallaður á heilsu allt sitt líf svo að segja frá því að hann var ungur maður, hafa verið veittar 300 þús. kr. til útgáfu á verkum sínum, en kona hans, frú Helga Þorsteinsdóttir, hefur unnið ótrúlegt starf við að skrá og halda saman verkum manns síns. Sú er von mín að ríkisvaldið hætti ekki fyrr en þessi verk hafa verið að fullu búin til prentunar því að Tónverkamiðstöðin ræður auðvitað ekki við nema mjög takmarkaða útgáfu íslenskra tónverka þar sem illa er að henni búið í alla staði.
    Þannig mætti lengi telja og skal ekki tíundað hvað sem er en maður hlýtur að staldra við stærstu stofnanir eins og Listasafn Íslands. Þar var beðið um fullkominn hégóma til þess að geta ráðið, ég man ekki hvort það var einn starfsmaður eða í eitt og hálft starf, en ekki var hægt að verða við því, a.m.k. ekki fyrir þessa umræðu en ég vona svo sannarlega að hægt verði að bæta úr því þegar þetta frv. kemur til 3. umr.
    Ég á von á að hv. 6. þm. Vestf., sem er fulltrúi Kvennalistans í fjárln., muni gera grein fyrir samgöngumálum og ferðamálum og síðan eru tillögur frá einstökum þingmönnum sem þeir munu tala fyrir, þar á meðal fjölmargar tillögur frá hv. þm. Alþb. og ég ætla að láta þeim eftir að tala fyrir þeim tillögum sjálfir svo að ekki verði á fólk lagt að hlusta of lengi á sama fólkið hér.
    En að lokum, virðulegur forseti. Það er tímaeyðsla á þessu stigi máls að fara í hvern einasta lið. Þetta verk er óunnið. Það liggur engin stefna fyrir. Ríkisstjórnin veit ekki hvað hún er að gera vegna þess að ég trúi því ekki að hún sé svona slæm. Það getur ekki verið að hæstv. ríkisstjórn sé illa við smábörn. Það er ekki mögulegt. Ég get ekki trúað því. Það getur ekki heldur verið að vel menntaðir hv. stjórnarþingmenn sjái ekki gildi þess að viðhalda, verja og vernda íslenska menningu. Það getur heldur ekki verið ( GunnS: Menningin blómstrar.) að hæstv. ríkisstjórn með heilagan mann sér til styrktar, séra hv. 5. þm. Austurl. ( ÖS: Hann er ekki heilagur.) Hann er sannheilagur. ( ÓÞÞ: Þetta er orðið ágreiningsefni.) Það getur ekki verið að þessu fólki sé í nöp við íslensku fjölskylduna. Það getur ekki verið að þeir vilji ekki mennta litlu börnin okkar. Það getur ekki verið að þeir vilji ekki mennta unga námsfólkið okkar hér heima og erlendis. Það er eitthvað annað. Þetta er eitthvert ráðleysi, fum og fát. Menn þurfa að setjast niður og reyna að átta sig á hvert þeir eru að fara. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa lesið Lísu í Undralandi. Lísa villtist í völundarhúsi og hún hitti kött og spurði hann: Hvernig á ég að komast út? Kötturinn spurði eins og skynugum ketti bar: Hvert ertu að fara? Ég veit það ekki, sagði Lísa. Þá er alveg sama hvaða leið þú ferð, sagði kötturinn.