Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 15:49:14 (3281)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hv. formaður fjárln. lýsti dæmisögu áðan og tók söguna um litlu gulu hænuna sem dæmi um muninn á þeim sem vinna verkin og hinum sem ekki vildu vinna þau. Það er að vísu rétt hjá honum að þegar litla gula hænan fann fræ sem þurfti að vaxa og dafna og vinna úr þar til það yrði að afurð sem hægt væri að leggja sér til munns, þá sagði karlkynið, bæði hundurinn, kötturinn og fleiri: Ekki ég, ekki ég og það var hún sem vann öll verkin með góðum árangri. Mér finnst hann ætti að beina þessari athugasemd til hæstv. ríkisstjórnar að í ríkisstjórninni væri betur að málum unnið ef kvenkynið réði þar meiru en einum tíunda.
    Frú forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka gott samstarf í nefndinni. Sérstaklega þakka ég starfsfólkinu í Austurstræti fyrir mikla þolinmæði við okkur fjárlaganefndarfólk. Þó veit ég að lokaspretturinn er enn þá eftir enda margt óljóst enn í fjárlagafrv. því sem við erum hér að fást við. Fyrst vil ég taka það fram að ég harma að ekki skyldi nást sú samstaða sem stefnt var að með stjórn og stjórnarandstöðu um að leita lausna í því erfiða efnahagsástandi sem við óneitanlega búum við. Viðræður voru í gangi bæði meðal stjórnmálamanna og aðila vinnumarkaðarins og vitanlega tóku þær sinn tíma. Því miður var á þær klippt af hálfu

stjórnarliða með því að tilkynna 23. nóv. sl. um gengisfellingu og nýjar efnahagsráðstafanir sem áttu að lækka útgjöld ríkissjóðs um 1.240 millj. Þó er ekki enn hægt að sjá að þau markmið náist. Allt frá því að tilkynning ríkisstjórnarinnar var gefin út hefur verið beðið eftir því að þessar tillögur ásamt öðrum niðurskurðartillögum stjórnarinnar litu dagsins ljós í frumvarpsformi.
    Sl. laugardag var dreift þrem frv. sem öll tengjast afgreiðslu fjárlaga. Aðeins eitt þeirra kemur þó inn á gjaldahlið fjárlaga. Það eru breytingar á mæðra- og feðralaunum og barnalífeyrir sem eiga að skila í heildina 250 millj. kr. sparnaði fyrir ríkissjóð. Auðvitað er hér ekki um raunverulegan sparnað útgjalda að ræða því að verið er að skerða mæðra- og feðralaun um 680 millj. en hækkun barnalífeyris kemur á móti þannig að heildarskerðingin verður 500 millj.
    Enn er verið að bæta álögum á barnafjölskyldur þessa lands. Það er hörmulegt til þess að vita að ríkisstjórnin skuli ekki finna aðrar leiðir til niðurskurðar í ríkisfjármálum en þær að skerða tekjur barnafjölskyldna. Fjármagnseigendur sleppa eina ferðina enn og barnlausar fjölskyldur geta hrósað happi yfir því að hafa ekki farið í það að eiga börn, jafnvel þó að um hraust fólk á besta aldri sé að ræða. En það er sá þjóðfélagshópur að mati hæstv. heilbrrh. sem ekki á að vera að standa því að eiga börn og sækja sín réttindi eins og fæðingarorlofsgreiðslur sem eru þó lögboðin réttindi. Þess er líklega ekki langt að bíða að hæstv. heilbrrh. vaði í þann lagabálk sem heitir fæðingarorlof og skeri niður með einum eða öðrum hætti þau réttindi sem hafa gert konum á vinnumarkaði kleift að standa í að eignast börn og hafa þannig stuðlað að atvinnuþátttöku íslenskra kvenna. Það hefur haft í för með sér að konur hafa getað verið heima og sinnt börnum sínu á fyrstu mánuðunum. Það gleymist alveg að það er einmitt hin vaxandi atvinnuþátttaka kvenna sem hefur átt drýgstan þátt í þeim hagvexti sem orðið hefur hin síðari ár í íslenskum þjóðarbúskap.
    Þegar fjárlagafrv. var lagt fram var ekki mikil umræða um það. Það var vitað að það ætti eftir að taka miklum breytingum í meðförum þingsins og ekki síst vegna þess að sjálfur fjmrh. viðurkenndi að það væri þá þegar orðið úrelt plagg sem ekki fengi staðist. Svo margar breytingar væru fyrirhugaðar bæði á tekju- og gjaldahlið. Helst var deilt á þau áform að breyta lögum um virðisaukaskatt í þá veru að skattleggja húshitun, bækur, blöð, tímarit, útvarp og sjónvarp, svo eitthvað sé nefnt, einnig að draga úr endurgreiðslum virðisauka af vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði, svo og snjómokstur og sorphreinsun hjá sveitarfélögum.
    Nú er útfærslan hins vegar á þann veg að taka upp tveggja þrepa virðisaukaskatt og skal lægra skattþrepið leggjast á húshitun hinn 1. jan. nk., síðan á bækur, blöð og fjölmiðla aðra þann 1. júlí á næsta ári og ferðaþjónustu 1. jan. 1994. En fallið er frá skattlagningu á sveitarfélögin, enda beittu þau öllum þeim þrýstingi sem tiltækur var, m.a. að neita að halda áfram umræðum í sameiningarnefndinni svokölluðu fyrr en fallið væri frá þessum áformum.
    Það vafðist lengi fyrir stjórnarþingmönnum að samþykkja virðisauka á húshitun og ekki að undra þar sem það var eitt af stórum markmiðum þessarar ríkisstjórnar að jafna húshitunarkostnað í landinu. Það var eitt af fyrstu verkum hennar að leggja 35 millj. til jöfnunar á húshitunarkostnaði. Þær aðgerðir hófust hinn 1. júní 1991 og er rétt að rifja upp ummæli hæstv. iðnrh. um það mál sem hann lét falla í umræðum 21. nóv. 1991. Þar sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Markmiðið með tillögum orkuverðsjöfnunarnefndar var að kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis í vísitölufjölskyldu lækki í þremur áföngum á næstu tveimur til þremur árum úr um það bil 7.500 kr. á mánuði í 5.000 þús. kr. á mánuði eða um þriðjung. Með aukinni niðurgreiðslu frá 1. júní sl. má því segja að fyrsta áfanganum hafi verið náð. Í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár``, segir hæstv. iðnrh., ,,er gert ráð fyrir því að við höldum þessu niðurgreiðslustigi allt það ár.`` Síðar í þessari sömu ræðu segir hann: ,,Markmiðið er alveg skýrt. Þennan mun ætlum við að jafna.``
    Í hvítbók ríkisstjórnarinnar svokölluðu er þetta einnig eitt af aðalstefnumálunum. Það er því augljóst að þetta var markmið ríkisstjórnarinnar. Það er hins vegar ekki í samræmi við þær aðgerðir sem nú eru áformaðar, að skattleggja húshitunarkostnað. Þó að ég þykist vita að þingmenn frá þeim kjördæmum þar sem þessi kostnaður er mörgum sinnum hærri en þar sem hann lægstur á landinu hafi reynt að koma í veg fyrir þessa skattlagningu, þá tókst það ekki. Við höfum enn ekki séð þá útfærslu sem kemur í veg fyrir að þetta leiði til hækkunar, hvað þá heldur að áform séu um að halda áfram þeirri jöfnun sem lofað var fyrir ári. Þegar skattlagning er einu sinni komin á einhvern póst hefur hún tilhneigingu til að festast í sessi. Niðurgreiðslur eða jöfnunaraðgerðir liggja hins vegar vel við höggi og hægt um vik að draga úr þeim með einfaldri samþykkt eða reglugerðarbreytingu.
    Þær línur sem ríkisstjórnin leggur í gegnum markmið fjárlaga er ekki bara að draga úr útgjöldum til að minnka halla ríkissjóðs. Það er mjög virðingarvert markmið að draga úr halla til að minnka skuldasöfnun þjóðarinnar. Það er vissulega erfitt þegar við þurfum að horfa upp á það að einn tíundi hluti af fjárlögum ríkisins fer í að greiða vexti af skuldum. Við viljum öll sjá að hægt sé að draga úr skuldasöfnun og helst að við gætum greitt niður skuldirnar. En það eru leiðirnar sem ríkisstjórnin velur til að ná markmiðum sínum sem við gagnrýnum harkalega.
    Með þeim aðgerðum sem nú á að grípa til og eru boðaðar eru ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna skertar um 1,5 milljarða kr. á þessu ári og því næsta. Í fjárlögum sl. árs voru barnabætur skertar um 500 millj. kr. Nú eru mæðralaunin skert um 500 millj. kr. og skerða á barnabætur aftur um 500 millj. Hvenær er mál að linni? Ég bara spyr.

    Það er heldur ekki látið staðar numið hér. Tannlæknakostnaður er aukinn og lyfjakostnaður er aukinn og það kemur vitanlega þyngst niður á þeim sem eru að ala upp börn. Börn eiga það nefnilega til að verða oftar veik en fullorðið fólk og það er líka nauðsynlegt að huga að tannheilsu þeirra þegar í bernsku. Í þessa liði er sóttur niðurskurður fjárlaga að miklu leyti, a.m.k. þær tillögur sem nú eru komnar fram. Og nú boðar ráðherrann að næst eigi að taka fyrir fæðingarorlofið. Þessi ríkisstjórn mun fá þau eftirmæli í sögunni ef svona heldur áfram að hafa verið barnfjandsamleg.
    En hvar á þá að skera niður? spyrja stjórnarliðar. Komið þið með tillögur ef þið hafið einhverjar. Til þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálum þarf annað tveggja að minnka útgjöld eða auka tekjur nema hvort tveggja sé. Það hefur verið hætt við að setja á fjármagnsskatt. Með því hefði verið hægt að auka tekjur ríkisins um allt að 1 milljarð kr. Sumir halda því fram að þar sé hægt að ná í 2 milljarða kr. Tæpa 2 milljarða á að taka að láni til að fara í auknar vegaframkvæmdir. Þarna eru a.m.k. 3 milljarðar kr., helmingur af áætluðum halla frv. eins og það liggur fyrir núna.
    Er það raunhæft markmið til atvinnuskapandi aðgerða, eins og það heitir, að fara í auknar vegaframkvæmdir fyrir 1.800 millj. kr. lánsfé? Auðvitað viljum við öll sjá auknar vegaframkvæmdir. Við viljum betri vegi og það er víða um land þörf á úrbótum. En er það svo brýnt ef við ætlum að spara í ríkisútgjöldum að það geti ekki beðið í eitt ár? Þó að ég búi á því landsvæði þar sem menn bíða með óþreyju eftir betri samgöngum á ýmsum sviðum, þá verð ég að svara þessari spurningu neitandi. Ég efast mjög um að þessar framkvæmdir leysi stóran vanda í atvinnumálum eins og til er ætlast, að ekki sé talað um allan þann feluleik sem stundaður er í sambandi við þessar 1.800 millj. því að í raun er hér aðeins um viðbót upp á 1 milljarð kr. og tæplega það ef tekjustofnar Vegasjóðs væru nýttir eins og til er ætlast í lögum.
    Það höfum við í minni hluta fjárln. reyndar rakið í okkar nál. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í vegamálum er fyrst skorið niður um 344 millj. kr. og til viðbótar er kostnaður á flóabáta og ferjur færður á Vegagerðina. Sá kostnaður er í fjárlögum 1992 304 millj. kr. Nýleg úttekt Vegagerðar ríkisins á fjármálum ferja og flóabáta bendir til að þær 330 millj. kr., sem ætlaðar eru til þess verkefnis í fjárlagafrv., dugi ekki. Þar segir að áætlaður rekstur árið 1993 kosti 389 millj. kr. og er þá eftir að gera upp gamlar skuldir`` --- frá síðustu áramótum eða jafnvel frá því að síðasta úttekt var gerð --- ,,að upphæð 94,5 millj. kr. Vegagerðin hefur sett það skilyrði fyrir því að taka við þessum rekstri að dæmið verði gert upp og þeir taki við hreinu ,,borði``.`` --- Þarna er fjárvöntun upp á rúmlega 150 millj. kr. --- ,,Ekki eru þó öll kurl til grafar komin þar sem enn er óvíst um hvað hugsanlegar breytingar á hinu nýja skipi, Herjólfi, muni kosta.``
    Þá hefur Félag ísl. bifreiðaeigenda sent frá sér harðorð mótmæli vegna hækkunar á bensíngjaldi umfram hækkun vegna gengisfellingar. Sú hækkun sem þegar er komin til framkvæmda, þ.e. 1,50 kr. á lítra, mun koma fram í 10 millj. kr. tekjum á þessu ári fyrir Vegasjóð því að samkvæmt lögum á það að renna í Vegasjóð, og á næsta ári verða það um 120 millj. kr. Fyrirhugaðar hækkanir um áramót er áætlað að gefi 150 millj. kr. Það mál er reyndar í skoðun í ráðuneytinu enn þá og verður líklega enn meira þegar upp er staðið. Þarna eru tekjur upp á 370 millj. kr. á næsta ári sem nú þegar er búið að ákveða til viðbótar á núverandi tekjustofnum til Vegagerðar. Þetta eru markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar samkvæmt lögum og eiga að renna til vegagerðar. Það kemur því enn betur í ljós ef við tökum allar þesar upphæðir saman, 344 millj kr. skerðinguna, sem á að renna í ríkissjóð, 330 millj. vegna kostnaðar við ferjur og flóabáta, 370 millj. í hækkuðu bensíngjaldi og síðan var heimild til lántöku vegna jarðgangagerðar á Vestfjörðum á þessu ári upp á 250 millj. kr. Þetta allt gerir samtals 1.300 millj. kr. Svo eru menn að ræða um nýtt fjármagn upp á 1.800 millj. Ef við tækjum með í reikninginn þá skerðingu sem sett var á Vegasjóð á yfirstandandi ári væri talan komin í mínus og vel það.
    Ef ég vík frekar að umfjöllun okkar í minni hluta fjárln. um þetta fjárlagafrv. þá segir þar að þeir málaflokkar sem helst verða fyrir barðinu á niðurskurðarhníf ríkisstjórnarinnar séu heilbrigðismál, menntamál og landbúnaðarmál. Í viðbót við það sem ég hef rakið hér á undan um árásir á barnafólk á enn að spara í rekstri sjúkrastofnana með því að draga úr framlögum til áfengismeðferðar og jafnvel loka stofnunum. Þó eru ekki enn neinar heildstæðar tillögur í þeim efnum á borðinu, enda margt óljóst enn um það hvernig ná á áætluðum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu upp á 2,6 milljarða kr.
    Samdráttur er einnig boðaður í rekstri Kristneshælis en líklega þó fallið frá lokun eins og í fyrstu var áætlað. Mikil mótmæli hafa borist við þessu, ekki síst frá norðanmönnum sem sjá fram á það að endurhæfingarstarf sem á Kristnesi er hafið mun fara minnkandi og ekki takist að efla það eins og fyrirhugað var.
    Það mætti nefna það í framhjáhlaupi að mér heyrðist á hv. formanni áðan að það mundi ekki veita af endurhæfingarstofnunum í landinu.
    Þá á það að skila sértekjum að selja þvottahús Ríkisspítala og mætti fara mörgum orðum um þá fyrirætlun. Ég hef vitanlega enga trú á því að sú aðgerð skili einhverju sparnaði eins og ætlast er til. Þvert á móti mun verða kostnaðarauki af þessari aðgerð. Ef hún tekst, þá verður það kostnaðarauki fyrir spítalana.
    Atvinnuleysistryggingasjóður mun þarfnast aukinna framlaga miðað við allar spár um atvinnuleysi á næsta ári og það er illa í samræmi við hlutverk hans að fyrirhuguð er endurskoðun á sjóðnum með það að markmiði að draga úr fjárþörf hans. Ég get ekki séð neitt samhengi í slíkum áætlunum á sama tíma og aukin eftirspurn er eftir atvinnuleysisbótum.

    Hvað varðar mennta- og menningarmál er enn haldið uppteknum hætti að þrengja að skólakerfinu á flestöllum stigum. Í fyrra var þó látið í veðri vaka að sá niðurskurður sem harðast var deilt á í grunnskólum, þ.e. fækkun kennslustunda og fjölgun í bekkjum, yrði aðeins til eins árs. Nú hefur komið á daginn að sá niðurskurður er áfram inni á fjárlögum þeim sem við erum að ræða nú. Er það í samræmi við annað hjá þessari ríkisstjórn að ekkert er að marka það sem á þeim bæ er sagt eða fullyrt í dag því að á morgun er það gleymt eða svikið. Þannig eru loforð menntmrh. í þessum efnum nú að engu orðin.
    Í framhaldsskólum er enn verið að reyna að koma á skólagjöldum. Nú eru þau dulbúin og talað um samræmingu á því sem sé í skólunum. Öllum skólum er gert að innheimta a.m.k. 3 þús. kr. á nemanda og það sett inn í rekstraráætlanir skólans. Vísað er í það að skólarnir hafi innheimt fyrir efniskostnaði og nú séu þeir að taka þetta inn í bókhaldið. Þetta er auðvitað ekki rétt því að í flestum tilfellum hefur þetta verið til starfsemi nemendafélaganna, til að standa að sérverkefnum og efniskostnaði vegna þeirra, en alls ekki fyrir almennum rekstrarkostnaði skólanna.
    Niðurskurður til háskólans í frv. er þó eitt alvarlegasta málið að þessu sinni og hefur verið mikil umræða um það í haust meðal skólamanna. Rektor Háskóla Íslands hefur varað alvarlega við niðurskurðinum og bent á afleiðingarnar sem það muni hafa fyrir menntastig þjóðarinnar og framtíðarhorfur. Því miður hefur hann talað fyrir daufum eyrum. Þó komu inn lítils háttar lagfæringar til Háskóla Íslands og ber að þakka það. Þær eru í þeim brtt. sem fjárln. stendur að og það styðjum við að sjálfsögðu í minni hlutanum. En við hörmum að ekki hefur verið reynt að koma meira til móts við óskir háskólans í þessum efnum.
    Framlag til vísinda og rannsókna í frv. þessu er algerlega háð því að það takist að selja eignir en ákvæði eru um að 20% af greiddu andvirði seldra eigna renni til þeirra mála. Á þessu ári hefur ekki tekist að selja eignir ríkisins eins og að var stefnt. Þær áttu að skila 1 milljarði kr. en skila tæplega 500 millj. eftir síðustu upplýsingum. Á næsta ári er talað um 1,5 milljarða eignasölu sem ekki er frekar útlit fyrir að takist ásamt því að ekki er allt söluverð greitt út í hönd. Það verður því ekki há tala sem þessi 20% af greiddu andvirði seldra eigna eiga að skila til rannsóknastarfa.
    Á sama tíma og skýrsla OECD gefur það út að Íslendingar hafi algerlega vanrækt að leggja fé til þessara mála og nauðsynlegt sé að byggja á rannsóknum og nýsköpun til að efla atvinnustarfsemi er þessi málaflokkur mjög mikið vanræktur. Það má líka minna á að verði af aðild okkar að EES verðum við að leggja meira fjármagn til þessara mála til þess einfaldlega að geta fylgst með því sem þar er að gerast.
    Það kemur einnig fram í framlögum til rannsókna í sjávarútvegi en þeir liðir lækka mikið á milli ára. Í nál. okkar í minni hluta fjárln. segir:
    ,,Niðurskurður í sjávarútvegsmálum er umtalsverður í þessu frv. Munar þar mestu um rannsókna- og eftirlitsþáttinn. Þar er lækkun milli áranna 1991`` --- þ.e. miðað við reikning 1991 --- ,,og 1993 50% þegar á heildina er litið. Mikil lækkun er á lið sem merktur er Gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir í sjávarútvegi, en hann lækkar úr 51 millj. kr. í 21 millj. kr. á milli ára. T.d. er ekki útlit fyrir að hægt verði að halda áfram þeim tilraunum með þorskklak sem byrjað var á og áttu að standa í nokkur ár. Þá á Hagræðingarsjóður að standa undir rekstri Hafrannsóknastofnunar þrátt fyrir að á yfirstandandi ári hafi þær tekjur brugðist í meginatriðum. Útlit er fyrir að allt að 300 millj. kr. vanti til að áætlanir standist í ár. Í nál. sjútvn. kemur fram að nefndinni í heild þykir of langt gengið í niðurskurði til rannsókna.``
    Einn er sá málaflokkur sem sætir mestum niðurskurði milli ára í fjarlagafrv. og það eru landbúnaðarmál. Heildarniðurskurður er þar 3,3 milljarðar kr. og ekki þykir Alþfl. nóg að gert samanber ummæli hæstv. utanrrh. á dögunum. Enn á að skera og ekki á að standa við gerða samninga þar frekar en annars staðar. Það virðist sem ríkisstjórnin þurfi að fá á sig hæstaréttardóma til þess að standa við gerða samninga. Verður það kannski næsta skref hjá landbn. Alþingis að leita til dómstóla en ekki bara eftir áliti Ríkisendurskoðunar um það hvort fjárlög séu í samræmi við gerða samninga við bændasamtökin? Ég ætla ekki að sundurliða frekar allar þær lækkanir sem eru á framlagi til landbúnaðarmála. En ég vil nefna sérstaklega að í búvörusamningnum er gert ráð fyrir auknu framlagi til landgræðslu og skógræktar í sambandi við áformaða fækkun sauðfjár en við það er ekki staðið.
    Ferðamál eru einn sá málaflokkur sem hefur verið mest atvinnuskapandi á undanförnum árum. Enn er þó haldið uppi sama hætti gagnvart Ferðamálaráði og markaður tekjustofn ráðsins skertur svo að það fær aðeins 1 / 3 hluta af því sem lögboðið er. Framlag til reksturs skrifstofunnar er einnig lækkað og henni er ætlað að afla talsverðra sértekna eins og flestum öðrum stofnunum. Í viðtölum fjárln. við þær stofnanir sem gert er að afla aukinna sértekna kom yfirleitt fram að það væri með öllu óraunhæft. Þessi skerðing til Ferðamálaráðs er ekki síst alvarleg í ljósi þess að í ferðamálum er helsti vaxtarbroddur nýrrar atvinnustarfsemi.
    Árið 1991 námu gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu nær 12,5 milljörðum kr. Það er skoðun Ferðamálaráðs að án mikilla fjárfestinga annarra en í markaðssetningu sé unnt að tvöfalda gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu á næstu átta árum og skapa þar 2.200 ný ársverk sem tækju þá við fjórða hverjum nýliða á vinnumarkaði. Ferðamálaráð hefur samkvæmt þessu mótað stefnu í ferðamálum til aldamóta sem lofar góðu en það er ljóst að það verður lítið úr framkvæmdum ef fjárveiting verður ekki aukin. Til upplýsinga ætla ég að geta þess að Ferðamálaráð hefur fengið 800 millj. kr. minna en lög áætla frá árinu 1976, 800 millj. kr. minna.
    Umhverfismál eru stór og vaxandi málaflokkur um allan heim. Hér á landi er alveg sýnt að svo mun

einnig verða. Umhvrn. er yngsta ráðuneytið sem hér er starfandi. En þrátt fyrir að umhverfismál séu sífellt að fá meira vægi í allri umræðu þjóðmála um allan heim erum við ekki þar í takt við tímann. Það ber fjárlagafrv. með sér. Enda sá ráðherra umhverfismála ástæðu til að koma á fund fjárln. sérstaklega og benda á nauðsyn þess að auka fé til þessara mála um rúmar 20 millj. kr. í fjárlagafrv. m.a. vegna mengunarmælinga í sjó. Eins og ráðherrann benti réttilega á er okkur mikil nauðsyn á að fylgjast vel með efnainnihaldi sjávar, svo mjög sem við byggjum afkomu okkar á hvers kyns sjávarafurðum.
    Þá eru sorp- og fráveitumál sveitarfélaga víða í miklum ólestri og flest sveitarfélög hafa óskað eftir aðstoð umhvrn. við stefnumörkun í þeim málum.
    Náttúruverndarráð hefur einnig í mörg ár verið í fjársvelti og þrátt fyrir nokkra aukningu í frv. frá fjárlögunum sem gilda í ár, þá er hér um algera lágmarksupphæð að ræða að mínu mati. Ég vil minna á hversu mikilvægt það er að hugsa um náttúruvernd í sambandi við hvers kyns landkynningu og ferðaþjónustu. Það er alveg sýnt að verkefni Náttúruverndarráðs munu fara vaxandi á næstu árum.
    Þá er dálitið sérkennilegt að Veðurstofunni er gert að afla sértekna af þjónustu við innanlandsflugið. Þar fylgir viss hætta á því að flugfélögin reyni þá að spara í þeim kostnaði með því að leita ekki eins oft til Veðurstofunnar um veðurathuganir. Þau eiga kannski að nota sömu veðurspána oftar en einu sinni til þess að vinna að nýtingarstefnu hv. formanns fjárln. Ekki tel ég þetta til bóta í landi sem okkar þar sem veðurfar og landfræðilegar aðstæður eru erfiðari en víða annars staðar og mjög áríðandi að fylgst sé með veðurathugunum hjá þeim sem stunda innanlandsflugið.
    Að lokum vil ég taka það fram vegna þeirra brtt. sem hér eru fram lagðar af fjárln. allri að undanfarnar vikur hefur nefndin unnið sameiginlega að þeim tillögum í góðu samstarfi. Hér er um ýmsar lagfæringar að ræða milli liða, skiptingu fjár af safnliðum, skiptingu á fé til hafnamála, sjóvarnagarða, sjúkrahúsa, heilsugæslustofnana, framhaldsskóla, stofnkostnaðar og fleira. Leitast hefur verið við að styðjast sem mest við ramma fjárlaga og unnið málefnalega að því að útdeila því fjármagni sem ætlað var til þeirra verkefna. Við í minni hlutanum stöndum því að þeim brtt. með meiri hluta nefndarinnar.
    Við höfum hins vegar ekki komið nálægt því að móta þær tillögur sem eru á þskj. 438 og lýsum allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og þeim sem kjósa að styðja hana í þeim tillögum. Mér heyrðist raunar á umræðunni í gærkvöldi að ekki væri samstaða innan beggja stjórnarflokkanna um þær tillögur. Við vorum ekki spurð álits á þeim niðurskurði sem brtt. meiri hlutans gera ráð fyrir áður en þær voru lagðar fram. Þær komu tilbúnar frá hæstv. heilbrrh. og ég efast raunar um að meiri hluti fjárln. sé neitt ánægður með þær þó hann neyðist til að leggja þær fram. En það kemur væntanlega í ljós í atkvæðagreiðslu síðar.
    Ég vil svo að lokum ítreka það enn einu sinni að í raun er þetta fjárlagafrv. enn mjög ófullburða þar sem þær tillögur sem skipta sköpum í gerð þessa eru enn ekki fram komnar. Tekjuhliðin er öll í óvissu og niðurskurður á gjaldahlið upp á 250 millj. það eina sem enn hefur komið inn í frv. Það eru tillögur sem felast í því frv. sem hér var rætt í gær um breytingar á almannatryggingalögum. Það var hér til 1. umr. og engin samstaða um það í flokkum stjórnarliða. Það er því ekki á þessu stigi hægt að segja fyrir um afdrif þess í þinginu.
    Að öðru leyti þakka ég öðrum fjárlaganefndarmönnum fyrir gott samstarf. Ég er sannfærð um að ef nefndin sem heild hefði meira með það að gera að móta fjárlögin, þá væru þau ásættanlegri en nú er útlit fyrir að þau verði.