Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 16:48:51 (3283)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. og varaformanns fjárln., Sturlu Böðvarssonar, hér áðan um það að nál. minni hluta sé með þeim hætti að það ætti að senda inn á hvert heimili, þá vil ég taka undir það því ef það yrði sent inn á hvert heimili mundu menn sjá hvaða áherslur minni hlutinn hefur lagt í sínu nál.
    Hins vegar vil ég mótmæla því að minni hlutinn sé að koma með brtt. til hækkunar. Það er tekið fram í lokin á nál. minni hlutans að hann muni ekki koma með brtt. til hækkunar og flytur ekki sameiginlegar brtt. við frv., eins og segir hér með leyfi forseta, en vitaskuld áskilja einstakir nefndarmenn sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. innan sinna þingflokka ef þeir svo kjósa.