Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 16:53:03 (3286)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Þeir hv. formaður fjárln. og hv. varaformaður hafa nú farið yfir fjárlagafrv. við 2. umr. í nokkru máli. Þeir virðast vera alveg hissa á því að minni hluti fjárln. skuli ekki segja já og amen við þessu frv. og þykja það harla gott. Ég styð ekki þetta frv. og mun koma að því í nokkru máli, ekkert of löngu að vísu því að þeir hv. fjárlaganefndarmenn í minni hlutanum hafa farið í gegnum nokkur atriði og hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur rakið álit minni hlutans og farið yfir ýmsa þætti, en ég mun víkja nánar að nokkrum atriðum.
    Ég vil í fyrsta lagi þakka samstarfsmönnum mínum í nefndinni, bæði í meiri hluta og minni hluta því að þar hafa menn setið að verkum í góðu samstarfi og vinnan þar gengið eðlilega fyrir sig miðað við aðstæður. Ég segi að það er ekkert við fjárlaganefndarmenn í sjálfu sér að sakast um þann hringlandahátt sem

verið hefur um ýmis atriði sem varðar frv. Það er ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir sem heild sem eiga þar sök á. Ég vil minnast sérstaklega á þá embættismenn sem hafa unnið með nefndinni og eins það starfsfólk þingsins sem vakir yfir okkur við þessa vinnu daga og nætur. Það á þakkir skilið og rétt að nefna það.
    Það er ekki langt síðan 1. umr. fjárlaga fór fram en margt hefur breyst á þeim tíma. Þann 20. okt. sl. var 1. umr. fjárlaga og þá lét hæstv. fjmrh. þessi orð falla, með leyfi forseta:
    ,,Í framsöguræðu minni fyrir fjárlagafrv. yfirstandandi árs fjallaði ég um helstu vandamál í íslensku efnahagslífi og nauðsyn róttækrar stefnubreytingar í efnahagsmálum. Núverandi ríkisstjórn markað þegar í upphafi ferils síns nýja stefnu í efnahagsmálum, stefnu sem hafnaði gömlu aðferðunum;`` --- og takið nú eftir --- ,,gengisfellingum, óhóflegri sjóðafyrirgreiðslu, skattahækkunum og stórfelldum ríkisafskiptum sem ætlað var að leysa hvers manns vanda.``
    Mánuði seinna tók hæstv. forsrh. til máls og tilkynnti aðgerðir í efnahagsmálum sem reyndar var búið að bíða eftir í heilt ár þjóðinni til stórtjóns auðvitað. Þar segir hann, ég vitna í eina setningu, með leyfi forseta:
    ,,Með efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er afkoma ríkissjóðs styrkt um rúmlega 2 milljarða á næstu tveim árum sem nemur um það bil þriðjungi rekstrarhallans.``
    Þetta er ein setning úr tilkynning forsrh. með yfirlýsingu sem ríkisstjórnin birti þann 23. nóv. sl., fyrir þremur vikum síðan, um aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs og sporna gegn auknu atvinnuleysi. Í ljósi ummæla fjmrh. hefði mátt halda að hér væri um tímamótayfirlýsingu að ræða með nýjum úrræðum þar sem gömlu aðferðunum væri hafnað og ný og fersk úrræði leidd til vegs. En viti menn. Innihaldið var gengisfelling og stórfelldar skattahækkanir, beinar og óbeinar, svo miklar að fjmrh. Sjálfstfl. á nú Íslandsmetið í skattheimtu. Öllu sjóðasukkinu var með þessum aðgerðum steypt saman í einn sjóð með nýju nafni en vinnubrögðin við þá samsteypu voru slík að enginn vissi hvað sjóðurinn ætti að borga eða hvað hann ætti að gera eða hverjir ættu að borga í hann.
    Hins vegar var veigamikill þáttur þessarar yfirlýsingar 23. nóv. um ríkisfjármál og raunar varðaði þungamiðjan í þessum efnahagsaðgerðum afkomu ríkissjóðs, bæði tekju- og gjaldahlið fjárlagafrv. Þótt gjaldahliðin bíði til 3. umr. og nánari umfjöllun um hana sömuleiðis, sem byggir á endurmati Þjóðhagsstofnunar á efnahagshorfum eins og venjulega, þá blandast hún óhjákvæmilega inn í 2. umr. fjárlaga vegna þess að hún verður ekki aðskilin frá útgjaldahliðinni að sjálfsögðu.
    Í efnahagsráðstöfununum var gert ráð fyrir því að nota ríkissjóð til þess að færa byrðar af atvinnuvegunum yfir á einstaklingana í landinu. Í yfirliti fjmrn. yfir þessar aðgerðir frá 24. nóv. kemur fram að áætlað var að gera breytingar frá fjárlagafrv. sem eru raktar í 12 liðum í yfirlitinu. Þar á meðal var ætlunin að auka framlög til viðhaldsverkefna, til atvinnuaukningar, upp á 500 millj. kr., sem er mjög jákvæð aðgerð. Þar var einnig ætlunin að spara útgjaldahlið fjárlaga 1.240 millj. kr. Þar voru ákvæði um niðurfellingu aðstöðugjalds sem er einnig jákvæð aðgerð og ég hef lýst stuðningi við. Þar voru ákvæði um skattlagningu í stað þessarar niðurfellingar og þar voru einnig ákvæði um tímabundinn skatt á háar tekjur. Þess er gætt þó að setja fyrirvara um þessa skattlagningu, einu skattlagninguna eða gjaldtökuna sem er settur fyrirvari við og sagt að hún sé tímabundin. Það er augljóst hverra hagsmuna ríkisstjórnin er að gæta. Eini liðurinn sem gefnar eru vonir um að verði felldur fljótt niður aftur er þessi 5% skattur á þá sem hafa breiðu bökin.
    Styrking fjárlaga, eins og hæstv. fjmrh. og forsrh. og aðrir stjórnarliðar hafa kallað það, átti að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta og vera eitt lykilatriðið í styrkingu atvinnulífsins í landinu. Því var niðurskurðurinn upp á 1.240 millj. kr. eitt lykilatriði þessara aðgerða sem reyndar hefur verið beðið eftir í heilt ár eins og ég sagði áðan. Fjárln. beið þess í hálfan mánuð að fá sundurliðun á þessum 1.240 millj. kr. Á meðan var tíminn notaður til að taka á móti ýmsum aðilum til viðtals við nefndina og farið yfir ýmsa þætti frv. eftir því sem tök voru á. Ég spurði hv. formann fjárln. samviskusamlega eftir því í lok hvers fundar hvort við ættum ekki von á lista yfir þennan niðurskurð en hann varðist fimlega framan af, fullyrti að þessi listi kæmi og ég held að hann hafi a.m.k. framan af trúað því að svo yrði. Hins vegar kom það smám saman í ljós og fullkomlega um síðustu helgi að ekkert samkomulag var um efnahagsaðgerðirnar eða niðurskurðinn í ríkisstjórninni. Félmrh. sagði nei. Landbrh. sagði nei. Af einhverjum ástæðum voru menntamálin ekki ofarlega á baugi í þessari umræðu enda var allt flakandi þar eftir síðustu fjárlagagerð sem frv. nú er að festa í sessi í menntakerfinu. Það var ekki furða þó að formaður fjárln. vitnaði í Litlu gulu hænuna áðan því þar sögðu flestir: Ekki ég. En það var einn í ríkisstjórninni sem sagði: Ég vil gera hlutina. Hann er að vísu ekki lítill sá. Það var hæstv. heilbrrh. Hann var ekki feiminn við að taka á sig nokkuð af niðurskurðinum, 650 millj. kr. var sögn. Það komu fréttir um það um síðustu helgi að þessar 1.240 millj. væru orðnar að 800 millj. og það stóð einn dag. Sl. mánudag sendi svo heilbrrh., sem var svo kotroskinn á sunnudag þegar hann kom til fundar við nefndina, embættismann sinn til viðtals með minnisblað sem sýndi að þessi sparnaður var kominn niður í 250 millj. kr. Annað höfum við ekki handfast. Við komumst ekki einu sinni til þessarar umræðu án þess að fá enn nýjar fréttir um að ekkert samkomulag sé í stjórnarliðinu um tilvísanakerfi og Samábyrgð Íslands á fiskiskipum sem voru til umræðu í gær. Tilvísanakerfið átti að gefa um 130 millj. kr. sparnað og Samábyrgðin eða sala hennar um 170 millj. kr. í tekjur. Það er ekkert orðið eftir af þessum niðurskurði og öll þessi sparnaðaráform fokinn út í veður og vind. Hins vegar heldur hv. formaður fjárln. enn þá í vonina um að þessar 500 millj. til atvinnuskapandi aðgerða í viðhaldi mannvirkja standi og ég vona að svo verði. Hann tók það fram í ræðu sinni áðan. Hins vegar ganga hótanir út og suður um niðurskurð og m.a. á að skera niður vegaframkvæmdir sem ákveðnar voru fyrir tveimur mánuðum eða svo og þegar er byrjað á í sumum tilfellum til þess að fullkomna þessa flugeldasýningu.
    Það er ljóst að það eina sem stendur eftir af þessum efnahagsaðgerðum er gengisfelling, skattahækkanir og stórfelld kjararýrnun í breytingum á tryggingabótum almannatrygginga. Fyrir þessar aðfarir er búið að slíta í sundur friðinn við verkalýðshreyfinguna í landinu og það er vel. Auðvitað er þetta eitt hið mesta klúður í stjórnmálum sem verið hefur seinni árin og það er illa farið.
    Svo ég víki að fjárlagafrv., sem hér er til umræðu og einstökum liðum þess, þá er það versta við þetta fjárlagafrv. að þar skortir samhengi við efnahagslífið og þær aðstæður sem eru í landinu. Stefna stjórnvalda er greinilega sú að niðurskurður á öllum sviðum ríkisútgjalda sé ráðið til að ná niður vöxtum og þá muni atvinnulífið koma til af sjálfu sér. Þetta er góð og gild hagfræðikenning sem ég get tekið undir og það er einn þátturinn. Hins vegar gengur hún ekki upp ein sér. Fjármál ríkissjóðs verða aldrei skilin frá því þjóðfélagsástandi sem er, þeirri veltu og þeim umsvifum sem eru í þjóðfélaginu. Niðurskurður í einni grein ríkisútgjalda getur leitt af sér stórtap fyrir ríkissjóð á öðrum sviðum. Við núverandi aðstæður, þegar samdráttur í efnahagslífi, brestur í meginauðlindinni og erfiðleikar steðja að atvinnulífinu, er mjög áraíðandi að vanda fjárlagagerð, raða í forgangsröð og reyna að gera sér grein fyrir því hvað skilar árangri, reyna að efla þá starfsemi sem eykur fólkinu í landinu kjark, kunnáttu og heilbrigði og hafa yfirsýn yfir hlutina. Það er ekki víst að það sé náttúrulögmál að til bóta sé að skera niður hvern einasta lið fjárlaga við þessar aðstæður þó að hart sé í ári. Það er t.d. ekki skynsamlegt við þessar aðstæður að svelta skólakerfið í landinu, draga úr þeim kjark sem stunda nám og leggja hvorki fé til námsgagnagerðar, svo að viðunandi sé, né tækjabúnaðar og viðhalds í skólum. Námsgagnanefnd hefur sent fjárln. vel rökstutt erindi á mörgum blaðsíðum um stöðu þeirrar stofnunar. Ég ætla ekki að vitna nema í eina setningu í því erindi sem kom til fjárln. þann 13. okt. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í fjárlagatillögum þeim sem nú liggja fyrir Alþingi er niðurskurður milli ára 25 millj. kr. Ef þessi niðurskurður verður að veruleika er ljóst að stofnunin lendir í ógöngum með að sjá öllum nemendum fyrir námsefni næsta skólaár sem henni er skylt samkvæmt lögum. Þá hefur stjórnin miklar áhyggjur af því hvaða áhrif hugsanlegar breytingar á tilhögun virðisaukaskatts gætu haft á fjárhag stofnunarinnar.``
    Það er tekin sú ákvörðun í fjárln. og er það vel að bæta stofnuninni virðisaukaskattinn en annar vandi er skilinn eftir.
    Það hefur verið rakið og ég skil það vel að hv. formaður og hv. varaformaður fjárln. reki það sem jákvætt er við þessa fjárlagagerð. Það hefur verið reynt að sýna svolítinn lit við tækjakaup í skólum, m.a. í Tækniskólanum eins og hefur verið rakið hér. Hins vegar eru mjög margir skólar illa staddir í tækjakaupum, m.a. Sjómannaskólinn, Iðnskólinn og Vélskólinn. Í erindi Vélskóla Íslands segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég vil vera hógvær í þessu máli og fer því einungis fram á að fjárveiting til tækjakaupa verði aukin um 2 millj. sem mundi gera okkur kleift að hefjast handa við hönnun og smíði á góðu kennslukælikerfi á næsta ári.``
    Þessi hækkun sem og hækkun til Iðnskólans bíður og ég tel það rangt hjá þjóð sem ætlar sér að vera tæknivædd, ætlar sér nýsköpun í atvinnulífi að láta ekki þessa hluti hafa forgang. Ég tel að nú þegar við höfum verið í miklum fjárfestingum á undanförnum árum, ég dreg enga fjöður yfir það að ýmsir hafa verið afar fjárfestingarglaðir síðasta áratuginn, eigi að fara í hönd sá tími sem menn halda við því sem þeir eru með í höndunum. Því vil ég svo sannarlega að vona að það verði staðið við áform um að viðhalda opinberum mannvirkjum. Það er atvinnuskapandi í fyrsta lagi. Það skapar betra umhverfi og það sparar fé fyrir framtíðina af því að við erum að reyna að ná saman fjárlögum með sem minnstum halla.
    Það er ekki neinn ágreiningur í sjálfu sér um að þessi vandi er mikill en það eru einmitt ýmsar aðgerðir, sem kosta peninga í augnablikinu, sem spara peninga þegar fram í sækir. Við höfum séð þess hörmuleg dæmi á síðustu árum hvað trassaskapur í viðhaldi getur kostað. Það nægir að nefna Þjóðleikhúsið sem dæmi um það sem kostaði hvorki meira né minna en 1 milljarð kr. Annað hús stendur vestur á Melum sem er Þjóðminjasafnið. Það er annað álíka dæmi. Allir héraðsskólarnir hringinn í kringum landið eru að grotna niður.
    Það er talað um að flytja eigi út íslenskt hugvit. Þar held ég að fylgi varla hugur máli því rannsóknir og þróunarstarfsemi í landinu hafa verið afgangsstærðir en nú telja stjórnarliðar sig hafa bætt þar úr og eru með áform um, eftir því sem þeir segja sjálfir, stórfelld fjárframlög til þessara þátta, 330 millj. kr. ef ég man rétt. En þar fylgir nokkur böggull skammrifi. Þessi framlög til rannsókna og þróunarstarfsemi eru skilyrt því að það takist að selja eigur ríkisins og hafa af því 1,5 milljarða kr. í tekjur á næsta ári a.m.k. Þessi framlög eru sem sagt til þess að vera andlitslyfting á einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar. Þessi einkavæðingaráform ganga auðvitað ekki upp því stjórnarliðar eru ekki sammála um þau. Hv. 2. þm. Norðurl. v. var að skjóta á eitt slíkt áform í gærkvöldi í umræðum og reyna að skjóta það niður. ( Gripið fram í: Hvað var það?) Það var sala á hlutabréfum í Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Hv. 5. þm. Austurl. er ekki sammála því að selja bankastofnanir til að afla þessasra tekna. Þessi framlög til rannsókna og þróunarstarfsemi eru tómt blöff, þau eru blekking. ( Gripið fram í: Hvað er blekking?) (Gripið fram í.) Nú erum við Skagfirðingar bæði austan og vestan vatna sammála, þetta er blekking. Hins vegar ætti að efla þessa

starfsemi án skilyrða og gera átak í því efni. Ég er sammála því. Það skilar sér auðvitað í auknum tekjum til ríkissjóðs en hv. meirihlutamenn í fjárln. virðast ekki hafa tíma til að bíða eftir því að einn hlutur skili sér eða horfa í heild á hlutina. Við höfum ekki eytt nógu miklum tíma í nefndinni í það og við höfum eytt of miklum tíma í að setja okkur inn í það hvort hægt er að skera niður einstaka fjárlagaliði án þess að gera okkur nógu vel grein fyrir afleiðingunum. Þetta er ekkert nýtt en þetta hefur verið svona á síðasta ári. Þetta hefur verið svona á síðasta ári og er svona nú og ég er ekki viss nema þetta hafi verið svona áður. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið neitt betra í gegnum árin. Það þarf að breyta þessum vinnubrögðum.
    Ég fæ heldur ekki séð að við þessar aðstæður sé skynsamlegt að taka upp virðisaukaskatt, t.d. á bókum, blöðum og tímaritum. Ég held að sú aðgerð sé röng eins og á stendur og geti beinlínis orðið til þess að fjöldi fólks missi atvinnu sína. Hér hefur öllum þingmönnum að ég held borist vel rökstutt erindi frá stærstu tímaritaútgáfu hérlendis. Innan þess fyrirtækis eru um 100 ársstörf. Þar segir að vegna þessarar aðgerðar sé raunveruleg hætta á því að fjöldi þessara starfa leggist niður eða hverfi úr landi. Það er vel rökstutt í erindinu að kostnaður ríkissjóðs af þessari aðgerð í atvinnuleysisbótum gæti orðið um 45 millj. kr. fyrir utan atvinnuleysi fjölda manna.
    Það segir líka varðandi þetta mál í erindi frá Blaðamannafélagi Íslands, dags. 7. des., sem þingmönnum hefur borist að fjárhagsstaða margra útgáfufyrirtækja sé mjög erfið um þessar mundir. Með leyfi forseta, vil ég vitna í þetta bréf:
    ,,Umtalsvert atvinnuleysi er meðal blaðamanna í fyrsta sinni í 95 ára sögu Blaðamannafélagsins. Í stað þess að treysta og styrkja stöðu íslenskra fjölmiðla og efla þá í stóraukinni samkeppni við erlenda aðila hvort heldur er í blaðaútgáfu eða ljósvakamiðlun, þá virðast stjórnvöld stefna markvisst að því að draga sem mest úr innlendri fjömiðlun.``
    Þetta er eitt lýsandi dæmi um það hvernig ein aðgerð getur verið gersamlega misheppnuð og haft þveröfug áhrif við það sem henni er ætlað.
    Ég tel að við þessar aðstæður sé heldur ekki skynsamlegt að lækka framlög til íþróttahreyfingarinnar í landinu. Íþróttahreyfingin vinnur mikilvægt forvarnastarf. Það tekur inn á félagsmál og íþróttir auka heilbrigði manna og því er íþróttastarfsemi forvarnastarf í heilbrigðiskerfinu. Þess vegna getur sparnaður í þessum þáttum komið fram í margföldum útgjöldum í þeim risastóra málaflokki sem heilbrigðisgeirinn er þegar fram í sækir. Og í stórum útgjöldum í félagslegum vandamálum sem stafa af því að unglingar finna sér ekki áhugamál eða finna sér ekki neitt til að taka sér fyrir hendur. Mér finnst það afspyrnuvitlaust að lækka fjárframlög til Ungmennafélags Íslands og Íþróttasambands Íslands við þessar aðstæður. Ég tók það skýrt fram í fjárln. að ég mótmælti þeirri meðferð sem þessi sambönd fengu í nefndinni. Þrátt fyrir að ég standi að tillögum meiri hlutans þá er í nál. fyrirvari um að flytja eða fylgja brtt. og ég stend að og er reyndar 1. flm. að brtt. þar sem lagt er til að þessi samtök fái sömu upphæð að krónutölu og á fyrra ári. Mér finnst niðurskurður til þessara samtaka algjörlega ástæðulaus eins og nú standa sakir. Hann skiptir alls ekki sköpum í því dæmi sem við erum að glíma við og en getur, eins og ég sagði, leitt til margfaldra útgjalda þó síðar verði að slaka á því þróttmikla starfi sem íþróttahreyfingin hefur unnið í landinu.
    Fjárln. bárust erindi frá ÍSÍ þann 27. nóv. og er undirritað af formanni þess, Ellert B. Schram. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Hjá ÍSÍ er starfað að mörgum málaflokkum, sérstaklega barna- og unglingamálum, kvennaíþróttum, lyfjaeftirliti, almenningsíþróttum og afreksíþróttum. Auk þess er veitt öflug þjónustustarfsemi fyrir alla sambandsaðila. Þá rekur ÍSÍ gistiheimili fyrir íþróttafólk.``
    Frá Ungmennafélagi Íslands kom einnig erindi. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ungmennafélagshreyfingin heldur uppi þróttmiklu starfi um land allt sem m.a. felst í menningarmálum, félagsmálafræðslu, náttúruvernd og umhverfismálum, leiklist og íþróttamálum svo eitthvað sé nefnt. Auk þess reka samtökin þjónustumiðstöð í Reykjavík þar sem ungmennafélagar af landsbyggðinni geta gist endurgjaldslaust.
    Ég hygg að fjölmargir hv. þm. þekki mjög vel til starfa þessara samtaka beggja og ég trúi því ekki að þeir unni þeim ekki þess sannmælis að búa við óbreyttar fjárveitingar frá fyrra ári. Ég hef ekki treyst mér til að leggja til hækkun á fjárveitingum til þeirra en mér finnst ekki sanngjarnt að lækka til þeirra fjárframlag þó ekki sé nema um 3,6 millj. kr. til þeirra beggja. Það munar um þær upphæðir enn þá í þessari starfsemi sem rekin er af sjálfboðaliðum í stórum stíl.
    Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um landbúnaðarmálakaflann í frv. sem er kapítuli út af fyrir sig. Bændur landsins hafa gengið í gegnum stórfelldar breytingar, fyrst með búvörulögunum sem sett voru árið 1985 og búvörusamninginn sem fylgdi í kjölfarið og með nýjum búvörusamningi, sem tók gildi í mars 1991 um sauðfjárafurðir, og í ágúst 1992 varðandi mjólkurafurðir. Í kjölfar þessara samninga munu útgjöld til landbúnaðarmála samkvæmt frv. lækka um 2,2 milljarða, ( Gripið fram í: 2,2?) 2,2 milljarða vegna þessara samninga. ( Gripið fram í: Það er ekkert smávegis.) Við framsóknarmenn gerum ekki athugasemd við þessa upphæð. Bændastéttin samdi um þetta og við höfum ekki gert athugasemd við þennan niðurskurð í fjárlagagerðinni. Samningarnir gera ráð fyrir þessu. Hins vegar hefði maður haldi að þá yrði kannski vægilega tekið á öðrum þáttum og reynt að efna þær stuðningsgreinar sem voru í samningnum. Hann gerir nefnilega ráð fyrir ýmsum aðgerðum til að vega upp á móti áhrifum af þessum mikla niðurskurði. Hann gerir ráð fyrir aðgerðum í landgræðslu og skógrækt t.d.

    Hins vegar hafa hæstv. ráðherrar verið í rannsókn á því hvort það þurfi að halda þennan samning. Það hefur verið fengið álit ríkislögmanns á því hvort þurfi að halda hann og auðvitað þarf að halda hann. Það orkar ekki tvímælis. Samt eru tilburðir til að brjóta hann. Ég ásaka ekki hæstv. landbrh. því ég veit um hans stöðu. Hann er undir miklum þrýstingi frá Alþfl. til að ganga lengra í niðurskurði í þessum málaflokki en hæfilegt er. Ummæli formanns Alþfl. um þessa atvinnugrein eru alveg dæmalaus og nægir að geta þess að hann lét svo um mælt að 250 millj. væru smáaurar í niðurskurði til landbúnaðarmála til viðbótar við 3,3 milljarða kr. sem þessi niðurskurður er í heildina þó aðeins 2,2 milljarða megi rekja til búvörusamningsins. En þegar það gekk ekki eftir, þegar hann fékk þessu ekki framgengt þá lét hann svo ummælt að það yrði að bíða þangað til hinn góði GATT-samningur gengi í gildi til að þjarma að landbúnaðinum.
    Ég tek fram að þessi tilvitnun er ekki orðrétt en hún er efnislega rétt.
    Formaður landbn., hv. 3. þm. Austurl., hefur barist allmikið um í þessum málum. Landbn. hefur skilað ítarlegu áliti um landbúnaðarkaflann og komið á fund fjárln. Hann hefur beðið um áliti Ríkisendurskoðunar á því hvernig Ríkisendurskoðun líti á búvörusamninginn og efndirnar á honum. Ríkisendurskoðun hefur komist að þeirri niðurstöðu að það vanti 250 millj. kr. í fjárlagafrv. næsta árs miðað við skuldbindingar búvörusamningsins. Niðurskurður í landbúnaðarmálunum til viðbótar búvörusamningunum er hvorki meira né minna en 750 millj. kr. Þetta er meðferðin á þessari atvinnugrein og reyndar alveg furðulegt að bændum landsins skuli ætlað að taka þessar byrðar á sig. Mér er alveg kunnugt um að það hefur verið erfitt fyrir bændaforustuna og hún gagnrýnd fyrir að gera þessa samninga. Það hefur ekki verið auðvelt verk fyrir hana að ná samkomulagi um að gera þessa búvörusamninga og síðan sé gengið svona til þessa verks og menn fái ekkert ráðrúm til að skipuleggja sig í kjölfarið á þessum miklu breytingum.
    Það var reiknað með því og gerð um það bókun að leggja verulegt fjármagn til landgræðslu og skógræktar á samningstímanum. Ég skal láta þessa ríkisstjórn njóta sannmælis. ( Gripið fram í: Í hverju?) Í því að það var byrjað á þessu í fyrra og framlög bæði til landgræðslu og skógræktar hækkuð í fyrra samkvæmt fjárlagafrv. Ég skal segja það sem rétt er. ( Gripið fram í: Haltu áfram, haltu áfram.) Hins vegar var hætt á þessari braut. Nú var snúið við, búið mál. ( Gripið fram í: Lækkað og hækkað.) Lækkað í dag það sem hækkað var í fyrra. Þetta er stefnubreyting. Það er horfið frá því að standa við þessa klausu samningsins.
    Ég er hér með erindi um mál sem ég þekki mjög vel og tilheyrði þessu. Það er skógræktarverkefni austur á Fljótsdalshéraði sem er afar mikilvægt fyrir atvinnulíf á því svæði. Það var í fyrstu atrennu lækkað um 10 millj. kr. frá því í fyrra. Síðan var það hækkað um 3,7 millj. kr., ef ég man rétt, í meðförum fjárln. við 2. umr. málsins. Síðan er látið svo um mælt, hv. formaður fjárln., að þetta eigi að duga til að halda uppi svipaðri starfsemi og á síðasta ári. Það væri gott ef allir gætu búið við þetta. Þeim mönnum sem stjórna þessu er ætlað að taka nokkuð á sig. Til þeirra eru fjárveitingar minnkaðar um nærri einn fimmta og síðan eiga þeir að halda uppi svipaðri starfsemi og á síðasta ári. Ef allir gerðu það væru engin vandræði að ná saman þessum fjárlögum. En þetta er bara til að undirstrika þá stefnubreytingu sem er í þessum málum. Vonir kviknuðu í fyrra við það að framlög voru hækkuð til þessara málaflokka sem allir bundu miklar vonir við og mikill áhugi á er bæði í dreifbýli og þéttbýli. Þetta er eitt af þeim málum sem sameinar dreifbýli og þéttbýli og menn hafa áhuga fyrir þessum málum. Það er stefnubreyting í þessu og framlögin lækkuð.
    Það er dálítið merkilegt að sérstakur markhópur í þessum niðurskurði eru svína- og alifuglabændur ( ÖS: Þeir voru þeir einu sem eftir voru.) Þeir voru þeir einu sem eftir voru, segir hv. þingflokksformaður Alþfl. Það má vel vera að hann meti það svo. ( ÖS: Eru það ekki nægileg rök?) Það er þó alveg ljóst hvað sem um þá má segja að meðferðin á þeim í frv. á eftir að koma fram í verðlagi þessara afurða ef þeir geta á annað borð komið þessum hækkunum út í verðlagið. Þó er fullt eins líklegt að niðurfelling framlaga til þeirra leiði til kjaraskerðingar í greininni sem þessir menn verða að taka á sig og hætta þá þessari framleiðslu og auka enn á vandann í landbúnaðarmálunum.
    Hv. formaður fjárln. hefur stundum orðað það svo að menn gangi eins og villidýr um ríkiskassann. Ég sé ekki betur en tilhneigingin sé að ganga eins og villidýr um landbúnaðarkerfið. Það er bókstaflega allt skorið niður sem heitið getur í þeim málaflokki og þrátt fyrir þá gífurlega erfiðu stöðu og þær breytingar sem hafa verið í atvinnugreininni sem hafa leitt af sér stórfelldan niðurskurð ríkisútgjalda.
    Ég skal geta um það sem gert er. Það er áætlað núna að inn í fjáraukalög komi upphæð vegna jarðræktarlaga og framlaga á síðasta ári upp á 19 millj. kr. og smávægilegar lagfæringar í þessum málaflokki fyrir baráttu þeirra sem láta sig landbúnaðinn einhverju varða.
    Að lokum áður en ég yfirgef þennan málaflokk er einn lítill liður sem skiptir kannski ekki stóru máli í heildardæminu en hann er ljóst dæmi um það andvaraleysi sem er í þessum málaflokki. Það er lítill liður sem heitir Fyrirhleðslur. Hann var lækkaður úr 25 millj. í 15 millj. og hækkaður síðan aftur upp í 19 millj. kr. Fyrir þessar 19 millj. kr. á að verjast ágangi vatnsfalla á öllu landinu. Það á að verjast ágangi Markarfljóts, Hornafjarðarfljóts og Jökulsár á Dal, svo nefnd séu þrjú myndarleg vatnsföll fyrir utan öll hin minni. Þetta er alveg lýsandi dæmi um það krafs út um allt sem getur leitt af sér stórkostleg fjárútlát síðar. Mér er t.d. sagt varðandi Jökulsá á Dal, svo ég nefni dæmi sem ég þekki vel, að menn geti tekið það rólega og gert myndarlegt átak næsta ár en það er ekkert víst að Jökulsá á Dal, sem er mikið vatnsfall og skapþungt, sé sammála þessu. Það getur vel verið að hún verði búin að flæða yfir bakka sína og eyðileggja hundruði hektara lands, rjúfa vegi og einangra bæi á næsta ári þegar menn ætla að fara að gera þetta mikla átak og þá er skaðinn skeður. En þetta er alveg dæmigert um vinnubrögð sem eru ekki skynsamleg. Þó að menn haldi kannski að tilgangurinn sé góður þá er þetta ekki skynsamlegt og getur leitt til stórtaps síðar meir.
    Það er annað varðandi þetta, svo að maður taki dæmi um þversagnirnar í þessari fjárlagagerð, það er annar liður varðandi dreifbýlið og sveitirnar sem hefur verið sveltur núna á seinni árum, fjárframlög skorin stórlega niður, þ.e. til dreifikerfis í sveitum, dreifikerfis raforku og dreifilína. Fjárframlög til þess eru 1 / 10 af því sem metið er að þurfi árlega.
    Það var utandagskrárumræða um daginn um þessi mál og hvað ætli hæstv. iðnrh. hafi séð til bóta? Að stofna hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins til að fjárfestar landsins gætu keypt hlutafé í brotnum raflínustaurum og línum sem liggja niðri tvist og bast um landið. Þetta eru nú aldeilis ráð sem duga. En auðvitað getur þetta leitt til stórútgjalda seinna. Slíkt andvaraleysi eigum við að forðast og reyna að hafa einhverja skynsemi í því sem við erum að gera, reyna að fyrirbyggja hlutina í stað þess að vera með allt í lúkunum ef eitthvað kemur upp á. Ég bið herra forseta að fyrirgefa mér þetta orðbrag með lúkurnar en það er varla hægt að orða þetta öðruvísi.
    Stærstu liðirnir, sem heyra undir félmrn. í þessu frv., bíða 3. umr. eins og húsnæðismálin og stofnanir sem heyra undir B-hluta. Þó er ætlunin að spara 132 millj. í rekstri Húsnæðisstofnunar ríkisins. Það er gott ef hægt er að ná þeim sparnaði. En þó segir í bréfi frá Húsnæðisstofnun þann 10. nóv., með leyfi forseta:
    ,,Það er því áformað að ná fram 132 millj. kr. í sparnað í rekstri stofnunarinnar á næsta ári með lækkun útgjalda og hækkun sértekna. Til þess að ná þessu markmiði er fyrirhugað að selja hönnunardeildina, leggja niður skyldusparnaðinn og draga saman umfang annarra þátta. Stofnunin telur að ekki sé raunhæft að ná fram svona mikilli lækkun í einum áfanga þrátt fyrir fyrirhugaðar breytingar án þess að skerða þjónustuna.`` Þannig virðist sem þessi sparnaður sé ekki í höfn.     Ég fer fljótt yfir sögu í þessum málaflokki. Háð hefur verið mikil styrjöld við sveitarfélögin í landinu meðan fjárln. hefur verið að störfum. Sú styrjöld byrjaði á fyrra ári, þegar fjárlög voru til umræðu, með einhliða skattlagningu á sveitarfélögin. Síðan fór fram dauðaleit að ráðum í haust til að komast hjá því að afnema þessa skattlagningu á sveitarfélögin. Menn fundu það helst til ráða að hætta endurgreiðslum í virðisaukaskatti á þjónustu sveitarfélaga, snjómokstri o.fl. Þetta vakti harða andstöðu sveitarstjórnarmanna og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, sem jafnframt er borgarfulltrúi í Reykjavík og einn af oddvitum Sjálfstfl. þar, fór í verkfall og neitaði að mæta í nefnd á vegum félmrn. sem við áttum báðir sæti í og gerði hana óstarfhæfa um sinn meðan hann var í þessu verkfalli og meðan hann átti í þessari viðureign við ríkisstjórnina. Síðan var samið vopnahlé og friðarsamningar voru innsiglaðir þann 10. okt. með undirskrift hæstv. forsrh., hæstv. félmrh. og formanns Sambands ísl. sveitarfélaga, sem er Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, og þar var saminn friður. Þar lofuðu hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. að gera þetta aldrei aftur og öll atriði skyldu tekin til umfjöllunar í sérstakri samráðsnefnd og ákvæði um slíka samráðsnefnd yrðu sett í nýjan samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga er öðlast skyldi gildi í ársbyrjun 1993 en núverandi samstarfssáttmáli rennur út um næstu áramót. Þar var samið um það að sveitarfélögin skyldu greiða 500 millj. í Atvinnuleysistryggingasjóð. Síðan skyldu þau fá þessar 500 millj. aftur til atvinnuskapandi aðgerða í sveitarfélögunum. Þetta er í sjálfu sér ekkert óskynsamlegt og ég ætla ekkert að leggjast gegn því atriði og hef reyndar lýst stuðningi við það. Hins vegar er alveg eftir að sjá hvernig þetta er útfært. Atvinnuleysistryggingasjóður og meðferðin á honum er kapítuli út af fyrir sig og það veit náttúrlega enginn hvernig fjárhag hans verður fyrir komið á næsta ári því að atvinnuleysi hefur farið vaxandi og ekkert er fyrir því séð og við því verður auðvitað að bregðast. Vonandi getur þessi sjóður náð saman endum. Vonandi verður sú þróun að atvinnuleysi fari minnnkandi en til þess verða menn auðvitað að leggjast á eitt. Til þess verða menn að gera efnahagsaðgerðir, koma sér saman um þær aðgerðir og enda ekki í tómri ringulreið og vitleysu eftir svona tvær vikur. Samstaðan þarf að endast lengur en í tvær vikur ef ráða á við atvinnuleysið í landinu.
    Ég vil geta um það hvað varðar mál félmrn. að málefni fatlaðra hafa fengið viðunandi meðferð í þessu frv. og það er vel. (Gripið fram í.) Hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur ekki trú á því en ég get fullvissað hann um það að félmrh. hefur með því að hóta að segja af sér annan hvern dag knúið þetta í gegn og ég hygg að síðasta afsagnarhótunin hafi verið um síðustu helgi en ýmist eru haldnir næturfundir uppi í ráðuneyti eða einhvers staðar í sturtuklefum suður í Hafnarfirði til að sansa ráðherrann til að félagar hennar hæstv. í ríkisstjórninni komist ekki í þá málaflokka sem hún hefur haft með höndum. ( Gripið fram í: Hvers konar dylgjur eru þetta?) ( Gripið fram í: Er þetta ekki nýja gufubaðið í fjmrn.?) En ég vil geta þess og fagna því að þessi málaflokkur hefur fengið sómasamlega meðferð í þessu frv. því að auðvitað vilja menn vel þó að vinnubrögðin séu gagnrýnisverð og stefnan í öðrum málaflokkum ámælisverð.
    Ef ég vík að þeim málaflokkum sem heyra undir dómsmrn. þá ber þar hæst málefni Landhelgisgæslunnar sem hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Það stóð til að Landhelgisgæslan ætti að leggja einu skipi og hefði það auðvitað leitt til atvinnuleysis sjómanna og það hefði leitt til minna öryggis á sjó. Það hefði leitt til þess að eftirlit hefði minnkað og kannski aðeins eitt skip eða ekkert skip verið á sjó af varðskipunum. Það var horfið frá þessu og er það vel. Hins vegar fékk Landhelgisgæslan enga peninga til að standa straum af þessu og þarf að skera niður eitthvað af starfsemi sinni og minnka þjónustuna. En það

kom fram í viðræðum við nefndina að forsvarsmenn hennar vilja frekar leggja það á sig að reyna að spara í öðrum þáttum, t.d. í flugrekstrinum heldur en fara þá leið að leggja skipinu.
    Það kom fram í umræðum um málefni Landhelgisgæslunnar á dögunum, m.a. hjá hv. 3. þm. Reykv. að hann áleit óviðunandi að marka Landhelgisgæslunni stefnu með einhverjum ákvörðunum í fjárlögum hverju sinni. Þetta er lykilstofnun í vörslu landhelginnar og við eigum að hafa langtímamarkmið í rekstri hennar. Rekstur Landhelgisgæslunnar kostar verulega fjármuni og auðvitað þurfum við að athuga hvernig þeim rekstri er best fyrir komið. Ég ætla mér ekkert að vera með nein yfirboð í því efni en ég er sammála því að það er ekki við hæfi að marka Landhelgisgæslunni einhvern bás með ákvörðunum í fjárlögum á hverju ári. Við verðum að hafa einhverja heildarsýn í þeim efnum og líta yfir lengri tíma.
    Ég vil koma að einu máli sem heyrir undir dómsmrn. sem er að vísu ekki mjög stórt hvað varðar fjármagn en er eitt af þessum dæmigerðu málum sem eru ekki svo mjög stór í sniðum sem eru ekki skynsamleg eða úthugsuð en það úir og grúir af slíkum málum í frv. og þetta er eitt af þeim málum sem getur auðvitað leitt til aukinna útgjalda í stað þess að spara. Það er ætlunin samkvæmt frv. að leggja niður stöður hreppstjóra um land allt og spara með því 18,4 millj. kr. sem það kostar að reka þessi embætti í öllum hreppum landsins, þessa gömlu og virðulega stétt. ( Gripið fram í: Leggja þetta niður?) Leggja þessa stétt niður, já. Sýslumaðurinn á Ísafirði kom til fundar við fjárln. 2. nóv. og lagði fram mjög ítarlega greinargerð um þetta mál og ég ætla að leyfa ykkur að heyra örlítið úr henni. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Undirrituðum er það fullljóst að Alþingi Íslendinga þarf ekki að spyrja nokkurn ráða áður en ákvörðun þessi er tekin. En ekki er þó hægt að láta hjá líða að vekja athygli á gagnsemi starfa hreppstjóra í nútímaþjóðfélagi. Samkvæmt fjárlagafrv. má gera ráð fyrir sparnaði í ríkisfjármálum sem nemur um það bil 18,4 millj. kr. á ári með þeirri ákvörðun að leggja niður störf hreppstjóra. Ekki verður séð hvernig þau störf, sem hreppstjórar nú inna af hendi, verða leyst eftir breytinguna.`` Og hér segir: ,,Hreppstjórar annast lögskráningu á skip. Ef ætlunin er að fá sérstaka menn til að annast lögskráningu í stað hreppstjóra, þá vaknar sú spurning hvers vegna þessi breyting sé gerð. Hreppstjórar annast einnig önnur störf, svo sem mælaálestur bifreiða, löggæslu, sitja í almannavarnanefndum sem staðgenglar lögreglustjóra, veita viðtöku dánartilkynningum og gefa vottorð þar um og innheimta opinber gjöld.`` Og síðar segir, með leyfi forseta:
    ,,Hreppstjórar hafa undantekningarlítið reynst vel í umdæminu, ekki síst í kauptúnum. Lögskráning sem er umtalsverð hvílir á þeirra herðum. Auk þess hafa þeir reynst lögreglu ómetanleg aðstoð við mörg tækifæri, ekki síst þegar færð er slæm á vetrum. Laun hreppstjóra eru lág. Þau eru í umdæminu á bilinu frá 4.893 til 13.350 kr. á mánuði en sú fjárhæð [þ.e. hærri upphæðin] er greidd í þremur stærstu þéttbýlissveitarfélögunum. Heildarlaunakostnaður á síðasta ári nam 1.043.994 kr., þar af launagreiðslur 936.963 kr. til tíu hreppstjóra.`` Greinargerðin er miklu lengri en ég læt þetta nægja.
    Í umræðum í fjárln. hefur komið í ljós að ætlunin er að fá aðra til að leysa þessi störf af hendi fyrir hreppstjóra, sérstaka menn til að lögskrá og síðan eiga dýralæknar að leysa eitthvað af þessum störfum af hendi. ( Gripið fram í: Eiga þeir að taka við dánartilkynningum?) Mér er nú til efs að það sé ódýrara með allri virðingu fyrir þeirri ágætu stétt, að taxtar þeirra séu nú miklu lægri en hreppstjóranna. Þetta er kannski ekki stórt mál en er dæmigert um það þegar menn fara að vaða um alla liði fjárlagafrv. ógrundað og með það að markmiði að skera þá helst alla niður án þess að gera sér grein fyrir því hvernig menn ætla að skipa málum til frambúðar. Ég hef heyrt að ekkert samkomulag sé í stjórnarliðinu um þetta mál og það muni vera mjög hæpið að það frv. sem hér liggur frammi í þinginu um hreppstjórana njóti meiri hluta fylgis hér á Alþingi. Það er með það eins og annað að vonandi að verður það skoðar aðeins betur áður en látið er til skarar skríða. Ég treysti því.
    Formaður fjárln. og varaformaður, hv. 6. þm. Reykn. og hv. 1. þm. Vesturl., gerðu dálítið að því hér í ræðum sínum áðan að hæla sér af góðum árangri í ríkisfjármálum á yfirstandandi ári. Það er eiginlega gagn að frv. til fjáraukalaga er ekki komið til umræðu. Svo vill til að samantekt minni hluta fjárln. um það frv. liggur fyrir og Ríkisendurskoðun hefur lagt mat sitt á afkomu níu fyrstu mánaða þessa árs. Formaður og varaformaður lögðu báðir mikla áherslu á það í ræðu sinni að tveir milljarðar hefðu náðst í rekstrarsparnaði á árinu og töldu það góðan árangur. Það er vissulega jákvætt og ég fagna því að það hafi náðst. Hins vegar er ekki allt sem sýnist í þessum efnum. Sparnaðurinn, sem átti að nást, var nefnilega 5,5 milljarðar. Náttúrlega er alveg ljóst að ekki mun nást nema helmingurinn af því þótt við séum nokkuð bjartsýnir um mánuðina sem eftir lifa. Það er nú reyndar ekki nema rúmur hálfur mánuður sem eftir lifir af árinu en þó þrír síðustu mánuðir ársins skili nokkrum sparnaði þá verður þessi upphæð varla meira en 2,5 milljarðar. Hins vegar er þessi sparnaður til kominn vegna lækkunar á vaxtagjöldum upp á 950 milllj. kr. og minni stofnkostnaðar og eignakaupa sem nemur 900 millj. kr. Það hefur nefnilega sáralítill sparnaður náðst, því miður, þótt ég efist ekki um að hið ágæta starfslið sem við höfum hjá ríkinu --- ég held að það sé ágætis fólk upp til hópa --- hafi lagt sig fram um að reyna að gera eins vel og föng eru á þá hafa þessi markmið hreinlega ekki náðst. Það sama má segja um þann sparnað á yfirstandandi ári sem átti að nást í heilbrigðiskerfinu. Þegar skrúfað er fyrir einn kranann þá rennur úr öðrum og heildarsparnaðurinn er enginn. Því miður er ástandið svona. En ég ætla ekki að ræða meira um það við þessa umræðu. Frv. til fjárlaga kemur til umræðu síðar og þá getum við tekið dálitla rispu um málið.
    Ég hef að sjálfsögðu sleppt að ræða um marga málaflokka sem ástæða væri til að ræða um en ég fer nú að stytta mál mitt að þessu sinni. Náttúrlega er hægt að tala langt mál um sjávarútvegsmál og sjútvrn., Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og þann vandræðagang sem er í kring um þann sjóð og þær sölur aflaheimilda sem eiga að standa undir rekstri Hafrannsóknastofnunar. En ég vil samt geta þess að mér þykir mjög miður að ekki skyldi vera sýndur einhver litur á því við fjárlagaafgreiðslu að rannsóknir á þorskklaki, sem Hafrannsóknastofnun telur afar mikilvægar, geti farið fram. Beðið var um 20 millj. kr. til þessa geysilega mikilvæga verkefnis. Ég hefði staðið að því þótt þetta hefði kannski ekki verið svo mikil upphæð að aðrir aðilar hafa komið þar inn á móti en mér finnst mjög miður að meiri hluti fjárln. skyldi ekki treysta sér til að koma neitt til móts við þetta verkefni og sýna lit. Fjölmörg atriði mætti nefna til viðbótar við þessi sem ég hef nefnt.
    Ég stend að einni brtt. við þetta fjárlagafrv. Henni hefur verið dreift þótt hún sé ekki komin formlega hér á dagskrá en ég hef nefnt hana og ástæðurnar fyrir því að ég stend að henni. Við framsóknarmenn í minni hluta fjárln. höfum ekki í huga að flytja fleiri brtt. Við viðurkennum auðvitað þann vanda, sem við er að etja, og við höfum lýst því yfir að við höfum ekki ætlað okkur að flytja útgjaldatillögur. Hins vegar hef ég farið yfir það að í fjölmörgum atriðum leiða ráðstafanir í þessu fjárlagafrv., sem eru taldar vera til sparnaðar, til aukinna útgjalda þannig að það er ekki hægt að einfalda hlutina og segja sem svo: Ef þú minnist á eitthvað til hækkunar þá verður að ganga í eitthvað annað og skera það niður á móti. Málið er bara ekkert svona einfalt. Tekjuhliðin og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar eru óaðskiljanleg frá gjaldahliðinni og ekki er hægt að leggja málið svona upp eins og hv. formaður og hv. varaformaður fjárln. hafa gert í sínum ræðum.
    Endanleg mynd á fjárlagafrv. kemur auðvitað ekki fyrr en við 3. umr. Það vita allir menn. Því er ótímabært að vera með kröfur á minni hlutann bæði út í fjárln. og í umræðunni og býsnast yfir því ef eitthvað er nefnt um að menn vilji að horfi til betri vegar þá verði menn að finna eitthvað annað og skera það niður lið fyrir lið á móti. Ef vilji hefði verið fyrir því að koma til móts við ýmislegt af því sem ég hef nefnt í ræðu minni þá hefði áreiðanlega ekki staðið á okkur að leggja til hvernig því yrði mætt.
    Fjárlagagerðin hverju sinni verður að efla atvinnu í þjóðfélaginu, ekki síst við þessar aðstæður. Hún verður að vera þannig að hver þjóðfélagsþegn greiði sanngjarnan hlut til sameiginlegra þarfa. Hún verður að vera þannig að ekki sé vaðið blindandi í niðurskurð á útgjaldaliðum sem hafa í för með sér hækkun annars staðar á öðrum liðum. Ég sagði áðan að mér finnst við fjárlaganefndarmenn ekki hafa eytt nógu miklum tíma í það að átta okkur á samhengi ríkisfjármálanna. Þau fjárlög, sem nú eru til 2. umr. í þeirri stöðu sem þau eru nú og miðað við það útlit sem er um framhaldið, leiða til aukinnar misskiptingar í þjóðfélaginu. Þeir sem betur mega sín þurfa ekkert að óttast en þeir sem minna mega sín mega biðja guð að hjálpa sér. Það er einmitt þetta sem er einkenni stefnu sem kennd er við frjálshyggju og sem ég vona að þessi ríkisstjórn hverfi frá sem fyrst og að ýmsir þeir ágætu menn, sem fylgja henni, þeirra á meðal hv. félagar mínir í fjárln., þurfi ekki að hanga aftan í ríkisstjórn sem rekur þá stefnu. Ég vona að því linni. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.