Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 18:13:02 (3289)

     Anna Kristín Sigurðardóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á fara að dæmi hv. formanns fjárln. og vitna í bókmenntir. Þær bókmenntir sem ég ætla að vitna í eru því miður ekki jafnmerkar og hans bókmenntir. Hann vitnaði í Litlu gulu hænuna, ég ætla að vitna í merkt rit sem ber heitið Velferð á varanlegum grunni og er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem kynnt var með miklum tilþrifum fyrir rétt rúmu ári. ( Gripið fram í: Leyfist að kalla það bókmenntir?) Á sama hátt og Litlu gulu hænuna, kannski. En á bls. 6 í þeirri bók segir, með leyfi forseta: ,,Tryggð verður afkoma aldraðra, öryrkja og annarra sem þurfa á stuðningi og samhjálp að halda og öllum skulu tryggð jöfn tækifæri til að þroska hæfileika sína. Þannig byggjum við samfélag menningar og mannúðar þar sem fólk býr við góða og örugga afkomu.`` Á bls. 7 segir: ,,Ríkisstjórnin mun hlúa að fjölskyldunni sem grunneiningunni í nútímasamfélagi, m.a. með markvissum umbótum í húsnæðismálum og skóla- og heilbrigðismálum.`` Svo mörg voru þau orð.
    Því miður er ekki að sjá í því fjárlagafrv. sem hér er verið að fjalla um né í þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum sem kynntar voru nú fyrir skömmu að hæstv. ríkisstjórn hefði þau stefnumið sem rakin voru hér að framan. Ekki er að undra þótt mörgum í þessum sal hafi flökrað ofurlítið þegar lagðar voru fram lokatillögur á margumræddu ráðstöfunum um síðustu helgi. Þær bera þess ekki vott að það sé skráð stefna ríkisstjórnarinnar að styrkja fjölskylduna. Heldur þvert á móti, enginn fer verr út úr þeim ráðstöfunum en einmitt fjölskyldan sem svo fjálglega var rætt um í þeirri stefnuyfirlýsingu sem ég áðan vitnaði í. Og því verr fer hún út úr þeim eftir því sem hún er stærri og tekjulægri að ekki sé talað um ef hún er að basla við að koma sér upp húsnæði. Skýrast birtist þetta í síðustu ráðstöfunum þer sem reiknað er með að hátekjufólk skili skitnum 300 millj. í ríkiskassann í formi hátekjuskatts á meðan barnafólki og sjúklingum er ætlað að skila hátt á þriðja milljarð með skerðingu á barnabótum, vaxtabótum, mæðra- og feðralaunum og aukinni kostnaðarhlutdeild í lyfjakostnaði og tannlækningum sem bitnar verst á barnmörgum fjölskyldum. Það sama má segja um hækkun virðisaukaskatts á ýmsar neysluvörur svo sem kjúklinga og svínakjöt. Að vísu er þessi lyfjasparnaður hæstv. heilbrrh. í meira lagi grunsamlegur. Á þessu ári er ætlunin að spara 200 millj. en þrátt fyrir mikið brambolt og aukna kostnaðarþátttöku notenda jukust útgjöldin um 400 millj. 200 millj. af þeim útgjaldaauka á síðan að spara á næsta fjárlagaári til viðbótar við niðurskurð upp á 100--200 millj. Samtals gera þetta 400--500 millj. kr. Samt lofar hæstv. heilbrrh. því að kostnaðarþátttaka almennings verði ekki meiri en 31%. Hvernig þetta dæmi má ganga upp er með öllu óskiljanlegt. Varla nægir sú ráðstöfun ein að greina á milli bráðnauðsynlegra lyfja og lífsnauðsynlegra. Fróðlegt væri að heyra álit lækna á því hvenær lyf hættir að vera bráðnauðsynlegt og fer að vera lífsnauðaynlegt ef þeir yfirleitt treysta sér til að skera úr um það. Með skerðingu á mæðra- og feðralaunum er einungis verið að færa kostnað frá ríkissjóði yfir á foreldra sem eru í þeirri stöðu að greiða meðlag með börnum sínum. Þannig þarf foreldri sem nú greiðir meðlag með þremur börnum nú að greiða tæpar 40.000 kr. á mánuði eða 10.400 kr. meira en áður. Þessi hækkun verður þó ekki til að bæta aðstöðu þess foreldris sem hefur börnin á framfæri sínu þar sem ríkið skerðir framlag sitt á móti. Þvert á móti, þetta foreldri þarf að þola skerðingu upp á 2.944 kr. Ekkert tillit er tekið til fjárhagsstöðu meðlagsgreiðenda í þessu sambandi.
    Í minnisblaði frá heilbr.- og trmrn., sem lagt var fyrir fjárln., kom fram að gert hafði verið ráð fyrir 200 millj. kr. sparnaði eða niðurskurði á greiðslum vegna fæðingarorlofs. Að vísu var niðurskurðurinn lækkaður niður í 50 millj. eftir að hæstv. trmrh. gerði sér grein fyrir þeirri staðreynd að afar óheppilegt er af líffræðilegum orsökum að vísa barnsfæðingum til aldraðra þótt vissulega væri mikið hagræði í því fjárhagslega þar sem þeir fá hvort eð er bætur og eru alla jafna ekki á vinnumarkaðnum og ættu því ekki að þurfa fæðingarorlof. Er ég með þessu að vísa í þau fleygu orð ráðherrans að ótækt sé að fullfrískt fólk á besta aldri sé að fá fæðingarorlof. Að vísu er óljóst hvernig á að ná þessum 50 millj. kr. niðurskurði þar sem ekki hafa verið boðaðar neinar breytingar á lögum til að skera niður fæðingarorlof. En það er eins með þessar og aðrar sparnaðarhugmyndir hæstv. ríkisstjórnar, þær eru nánast eingöngu tölur á blaði sem bitna harkalega á einstökum hópum en leiða að öðru leyti ekki til sparnaðar á útgjöldum ríkisins.
    Ein er sú stofnun í íslensku samfélagi sem er ekki einungis mjög þýðingarmikil fyrir framtíð þjóðarinnar heldur getur hún einnig skipt sköpum fyrir aðstæður barna og fjölskyldna þeirra. Hér er ég að tala um grunnskólann. En í tíð síðustu ríkisstjórnar voru samþykkt metnaðarfull grunnskólalög þar sem gert var ráð fyrir verulegum umbótum í skólastarfi og þar með aðstæðum barna. Í þeim var m.a. ákveðið að skólatími barna yrði lengdur í áföngum, fækkað yrði í bekkjum, komið upp skólamötuneyti og skólaathvarfi í öllum skólum. Með bandorminum svokallaða sem samþykktur var á þinginu í fyrra var ekki einungis komið í veg fyrir að þessar umbætur næðu fram að ganga heldur var bætt um betur og vikulegur skólatími enn skertur þrátt fyrir ítrekuð loforð um að niðurskurðurinn gilti aðeins fyrir skólaárið 1992--1993 er hann staðfestur áfram í fjárlagafrv. fyrir árið 1993. Fyrir þetta þing hefur nú verið lagt fram frv. til laga til að staðfesta áfram þennan niðurskurð. En í greinargerð með frv., segir m.a.: ,,Frestað er framkvæmd ákvæðis um að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma. Frestað er að lengja kennslutíma nemenda í grunnskóla . . .   Enn fremur er frestað framkvæmd á 6. mgr. 46. gr. þar sem kveðið er á um að koma skuli á skólaathvörfum við hvern grunnskóla. Frestað er til loka skólaárs 1993--1994 að fækka nemendum í bekkjum í samræmi við 75. gr.`` Þannig höfum við nú stystan skóladag sem þekkist í nágrannalöndum. Þetta er gert samhliða öðrum niðurskurðartillögum sem bitna harkalega á börnum og barnafjölskyldum eins og rakið hefur verið í mörgum ræðum síðustu daga. Þetta er gert á sama tíma og fjöldinn allur af grunnskólabörnum á Íslandi gengur sjálfala meiri hluta dagsins og kemur jafnvel ekki heim til sín nema til þess að sækja plastpokann á hurðarhúninum með hádegismatnum í. Ekki geta þetta talist skynsamleg viðbrögð við ástandi eins og þessu.
    Til viðbótar þessum þrengingum sem grunnskólinn er settur í er farið í stórfelldan niðurskurð til Námsgagnastofnunar án þess að ljóst sé hvernig eigi að standa að námsgagnagerð. Þess má geta að kostnaður vegna námsgagna er um 6 þús. kr. á hvern grunnskólanemanda á móti 40 þús. á hvern framhaldsskólanemenda. Það er því óskiljanlegt hvernig á að ná þessum kostnaði niður enn frekar. Því miður sá hæstv. menntmrh. sér ekki fært vegna heilsubrests að svara fyrirspurn þar um sem meiningin var að leggja fram í morgun. En hann hefði væntanlega getað svarað því hvernig hann ætlar að fjármagna útgáfu á námsgögnum. Það kæmi ekki á óvart þó að á árinu 1993 kæmu fram tillögur um að foreldrar tækju þátt í þessum kostnaði sem bættist þar með ofan á annan foreldraskatt sem virðist vera í miklu uppáhaldi hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Í forsendum fjárlagafrv. þess sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir minni tekjubreytingum á árinu 1993 en á yfirstandandi ári. Í greinargerð frv. kemur fram að heildaratvinnutekjur á mann muni hækka um 1% á árinu 1993. Hér er með öðrum orðum verið að segja að ekki er gert ráð fyrir að laun hækki á árinu. Hvernig í ósköpunum dettur hæstv. ríkisstjórn í hug að það muni ganga eftir? Þegar er ljóst að í kjölfar síðustu árása á launafólk hafa nokkur stéttarfélög ákveðið að segja upp samningum sínum. Kennarasamband Íslands hefur sagt upp sínum samningum og það sama hefur Starfsmannafélag ríkisstofnana gert. Alþýðusambandið hefur skorað á aðildarfélög sín að segja upp samningum. Svona mætti áfram telja.
    Ákvörðunin um að segja upp samningum var tekin hjá sumum þessara félaga eftir að tilkynnt hafði verið um fyrri hluta efnahagsaðgerða sem fólust í auk 6% gengisfellingar, niðurskurð á barnabótum um 10%, skerðingu vaxtabóta og hækkun tekjuskatts þar sem barnafólki var ætlað að skila 1,5 milljörðum á meðan hátekjufólk skyldi skila 300 millj. í gegnum hátekjuskatt. Hæstv. forsrh. var meira að segja svo ósvífinn að halda því fram að hér væri verið að koma til móts við óskir samtaka launafólks og því væri sátt um þessar aðgerðir. Um leið gat hann þess af sinni alkunnu smekkvísi að hátekjuskatturinn væri einungis sálrænt atriði fyrir launafólk. Aukaatriði væri hversu miklu hann skilaði.
    Um leið og þessar aðgerðir voru kynntar var boðað að von væri á frekari niðurskurði upp á 1.240 millj. Töldu þá margir að nú mundi ríkisstjórnin finna breiðu bökin í samfélaginu og láta þau taka á sig þessar 1.240 millj. Eftir langa mæðu og erfiðar fæðingarhríðir hafði hæstv. ríkisstjórn fundið breiðu bökin. Að vísu treysti hún þessum breiðu bökum ekki til að taka á sig nema 800 millj skerðingu. En hver voru svo þessi breiðu bök? Jú, það voru aftur foreldrar og sjúklingar og eins og áður því meiri skerðing eftir því sem börnin voru fleiri og tekjurnar lægri að ekki sé nú talað um einstæða foreldra og einkum og sér í lagi þá sem glímdu við veikindi sín eða barna sinna. Þetta er svo makalaust að það er með ólíkindum að flokkur sem kennir sig við jöfnuð skuli láta hafa sig í að taka þátt í öðru eins og þessu og láta sér í ofanálag detta í hug að þetta verði gert í sátt við launafólk. Það eru engar líkur á því að launafólk geti risið undir þessum ósvífnu árásum og útlit er fyrir harðar vinnudeilur á næsta ári og þar með er þessi hluti í forsendum fjárlagafrv. kominn út í veður og vind.
    Til þess að líta nánar á hvernig það launafólk á Íslandi sem á að taka á sig þessar byrðar hefur það tók ég með mér Fréttabréf Alþýðusambands Suðurlands sem birtir launataxta sinna félagsmanna. Tökum konu í ábyrgðarstarfi sem ætti að vera sæmilega vel launuð, matráðskona í skólaráðuneyti. Hún hefur eftir þrjú ár 54.498 kr. Skrifstofufólk hefur 53.007 kr. Skrifstofufólk sem annast störf sem krefjast þjálfunar og reynslu á sviði skrifstofustarfa er með 62.026 kr. Við getum haldið svona endalaust áfram. Starfsmenn steypustöðva sem hafa unnið í þrjú ár hjá sínu fyrirtæki hafa 53.279 kr. Allar tölur eru á þessum nótum í launatöflunni. Þetta er fólkið sem á að taka á sig þær byrðar, taka það á sig að rétta við halla þjóðarbúskaparins og það þarf víst ekki að efast um að þetta fólk er vel í stakk búið til þess að taka á sig 10% kjaraskerðingu til að ríkisstjórnin geti náð fram sínum ,,sparnaðaráformum``. Launafólk og þá sérstaklega barnafólk hefur á þessu ári mátt sætta sig við mikinn niðurskurð á velferðarkerfinu og aukna skatta. Í fjárlagafrv. 1993 er enn höggvið í sama knérunn. Fram kom í máli hv. þm. Finns Ingólfssonar í gær að auknar álögur á sjúklinga, aldraða og öryrkja nema á árinu 1992--1993 samtals 3,8 milljörðum kr. Þá er ekki meðtalin skerðing á barnabótum, niðurskurði til grunnskóla, framhaldsskóla, Lánasjóðs ísl. námsmanna o.s.frv.
    Eins og kom fram í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar áðan hefur sparnaður af þessum aðgerðum og þessu brambolti verið nánast enginn. Hér hefur einungis verið um tilfærslu á fjármunum að ræða. Hæstv. ríkisstjórn er að vinna skemmdarverk á íslenska velferðarkerfinu á fölskum forsendum, á forsendum ráðdeildar og sparnaðar. Við að vinna þetta skemmdarverk hefur hún skýlt sér á bak við ótta almennings við atvinnuleysi. Ég er ekki að segja að atvinnuástand hér á landi sé gott eða að ekki þurfi að spara eða draga saman í þjóðarbúskapnum. Það er bara ekki sama hvar er sparað og hvað er dregið saman og hæstv. ríkisstjórn er einfaldlega ekki að taka á þessum málum. Tillögur til uppbyggingar atvinnulífsins eru afar fátæklegar og ótrúverðugar og sparnaðurinn er fólginn í því, eins og áður hefur komið fram, að skattleggja sjúklinga og barnafólk á meðan hátekjufólk og stóreignafólk spilar frítt. Ekkert útlit er fyrir að fjárlagahallinn verði minni þrátt fyrir þessa skemmdarverkastarfsemi.
    Virðulegi forseti. Það er engin sátt um fjárlagafrv. það sem hér er til umfjöllunar.