Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 18:28:40 (3290)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Í 2. umr. um fjárlög hefur það komið í minn hlut að mæla fyrir brtt. okkar kvennalistakvenna við frv. til fjárlaga. Þær er að finna á þskj. 435.
    Við höfum ekki farið þá leið að flytja margar tillögur að þessu sinni. Að vísu er nú ein umræða eftir og aldrei að vita hvað getur gerst en að þessu sinni flytjum við þrjár brtt. við fjárlagafrv. Þessar tillögur fela vissulega í sér hækkun útgjalda á fjárlögum þessa árs, samtals á 42 millj. 683 þús. kr., en þær eru jafnframt þess eðlis að að þeim samþykktum munu án efa sparast umtalsverð útgjöld, bæði fjárhagsleg og vegna félagslegra vandamála, nú þegar og ekki síður í framtíðinni. Það tel ég nauðsynlegt að við höfum í huga.
    Auk þess að mæla fyrir þessum brtt. eru nokkur önnur atriði sem ég tel ástæðu til að geta um. Ég byrja

þó á því að mæla fyrir og útskýra okkar brtt.
    Í fyrsta liðnum leggjum við til að hækkaður verði liðurinn Sérkennsla í grunnskólum úr 10,2 millj. kr. í 20 millj. Tilgangur þessarar hækkunar er að bæta nú þegar úr bráðum vanda sem skapast hefur vegna barna sem ekki fá kennslu við sitt hæfi í íslensku skólakerfi. Þau eru vissulega mörg en það er sérstaklega einn hópur 150 barna sem við eigum við og það eru þau börn sem flust hafa erlendis frá til Íslands, t.d. börn flóttamanna. Flest þessara barna hafa ekki vald á íslenskri tungu. Tungumál þeirra margra hverra er mjög ólíkt okkar og menningarheimurinn sem þau eru sprottin úr er mjög ólíkur.
    Vandi þessara barna er mjög mikill og aðbúnaður þeirra í íslenska skólakerfinu er smánarblettur á því samfélagi sem við viljum oftast kalla siðmenntað. Fyrir tveimur mánuðum kom út skýrsla á vegum menntmrn., Íslenskukennsla fyrir nýbúa, tillögur starfshóps. Þar kemur fram, eins og ég gat um áðan, að hér er um að ræða um það bil 150 börn. Sú fjárveiting sem þörf er á handa þeim í allt til að halda uppi sómasamlegri íslenskukennslu og styðja þau á annan hátt er 23--31 millj. kr. Það er því ekki hægt að segja að við förum offari þó að við biðjum um tæpar 10 millj. kr. til þess að bæta úr allra brýnustu þörfinni. Við leggjum til að þetta framlag sem við erum að biðja um verði sett á liðinn Sérkennsla í grunnskólum vegna þess að sú viðleitni sem er nú þegar fyrir hendi til að sinna þessum börnum er ekki síst vegna þess að það hefur verið reynt að sinna þessum börnunum eftir mætti og gera það sem hægt er til að kenna þeim sérstaklega.
    Þetta er í rauninni mjög viðamikið mál. Ég vil geta þess að auk þessa þarf að veita börnunum aukinn stuðning í venjulegri bekkjarkennslu til þess að þau hafi tök á því að tileinka sér námsefnið og sitji við sama borð og önnur börn í náminu. Það er því miður alveg með ólíkindum, í sumum tilvikum alla vega, hvernig búið er að þessum börnum í skólakerfi okkar. Við erum langt á eftir nágrannaþjóðunum í þessum efnum. Þetta er sérstaklega undarlegt í ljósi þess að við höfum sjálfviljug tekið á móti hópum flóttamanna og skuldbundið okkur til að rækja skyldur okkar við þá hópa.
    Ég vil samt sem áður leyfa mér að ætla að hér sé um andvaraleysi að ræða en ekki ásetning. En ef ekki verður gripið til ærlegra umbóta og það mjög bráðlega, þá er ekki lengur um andvaraleysi að ræða heldur vítaverða vanrækslu.
    Við Íslendingar höfum tekið að okkur nokkurn hóp flóttamanna, svo sem ekki stóran, m.a. frá Víetnam. Ég held að fáum blandist hugur um að það hefur verið fengur fyrir samfélag okkar að fá þetta harðduglega fólk til liðs við okkur og alls engin fórn af hálfu Íslendinga. Hins vegar getum við ekki haldið áfram að haga okkur eins og við höfum gert og sveifla fólki úr ólíkum menningarheimum inn í íslenskt samfélag, ætlast til þess að það læri íslensku upp á guð og lukkuna og að börnin komist í gegnum skólakerfið án þess að fá fullnægjandi tungumálakennslu og stuðning. Þessi kennsla og þessi stuðningur verður að eiga sér stað innan eðlilegs skólatíma og án þess að börnin séu tekin úr hópi félaga sinna í skólanum nema í mjög litlum mæli.
    Ég er hrædd um að við alþingismenn mundum tæplega njóta okkar sem skyldi ef okkur væri skyndilega svipt inn á kínverskt þjóðþing og ættum að spjara okkur þar án teljandi stuðnings. Við yrðum dæmd til þess að vera utanveltu og það er ekki öfundsvert hlutskipti. Ég held að það þyrfti ekki endilega að bera vott um lélegt atgervi okkar eða greind heldur er þetta ósköp eðlilegt þegar maður kemur í umhverfi þar sem talað er framandi tungumál, letrið er annað, menningin önnur, arfleifðin önnur og grunnurinn annar. Þá hlýtur að þurfa töluvert mikið til til að geta tileinkað sér þetta allt. Fjöldi flóttamanna víða um heim og fjöldi fólks sem hefur valið sér nýtt föðurland hefur samt sem áður spjarað sig mæta vel við þessar aðstæður en við stöndum mörgum öðrum þjóðum langt að baki í þessum efnum.
    Mér er það minnisstætt að ég kenndi eitt sinn nemanda sem kom raunar af íslenskumælandi heimili erlendis frá inn í íslenskt skólakerfi. Þetta var 14 ára strákur. Þrátt fyrir góða greind og sterkan grunn í íslensku háði tungumálið honum engu að síður námi. Einfalt hugtak eins og bratti var honum t.d. fullkomlega framandi og hann átti mjög erfitt með að tileinka sér og skilja um hvað ég var að tala. Hann hélt raunar að ég væri að gera gys að sér þegar ég talaði um bratta.
    Ég kenndi þessum pilti íslensku í sértímum í þrjú ár og hann náði ljómandi góðum árangri en foreldrar hans urðu að kaupa handa honum þá þjónustu sem hann hefði að sjálfsögðu átt að fá innan skólans. Brauðstrit flestra íslenskra nýbúa er allt of hart til þess að leyfa slíkan munað enda eiga þau mannréttindi, að geta tileinkað sér nám og tjáð sig án erfiðleika, ekki að vera munaður fárra heldur mannréttindi allra.
    Mjög er misjafnt hvernig skólar og fræðsluumdæmi hafa tekið á málefnum þeirra barna sem hér er átt við. Því miður eru þess allt of mörg dæmi að þau séu í algeru reiðileysi í íslensku skólakerfi árum saman án þess að læra okkar ágæta en afskaplega erfiða tungumál. Það er áfellisdómur yfir ríkjandi ástandi að slíkt geti yfir höfuð gerst en það hefur gerst og það kemur fram í skýrslunni sem ég nefndi. Skólunum er allt of þröngur stakkur sniðinn og sérkennslukvótinn er skammarlega lágur. Hann er engan veginn til skiptanna eins og hann er nú. En þessi viðbót sem við kvennalistakonur leggjum til að fari til þessa fjárlagaliðar mundi vonandi bæta úr sárustu þörfinni. Ef þau börn sem hér eru nú hefðu hafnað í nágrannalöndum okkar í stað þess að koma til Íslands hefðu þau notið betri þjónustu. Mig langar til að gefa þinginu smáupplýsingar um hvaða þjónusta er í boði annars staðar og vona að við tökum upp mannsæmandi háttu og búum vel að þessum börnum áður en það er um seinan.
    Í Danmörku er í námsskrá ákvæði um kennslu innflytjendabarna en ég vek sérstaka athygli á því að slík

ákvæði er ekki að finna í íslensku grunnskólalögunum eða námsskrá. Meginstefnan í Danmörku er sú að innflytjendabörn verði tvítyngd. Sveitarfélög fá styrk frá ríkinu til að standa straum af kennslu og öll innflytjendabörn eiga að fá dönskukennslu bæði í hópum og einstaklingsaðstoð eftir því sem þörf krefur. Einnig er börnunum kennt eigið móðurmál í 3--5 kennslustundir á viku utan venjulegs skólatíma. Það er stundum vandkvæðum bundið en engu að síður er reynt að leysa það.
    Auk þessa eiga börnin að fá stuðning við nám í öðrum námsgreinum eftir þörfum samkvæmt námsskrá í Danmörku. Þetta er auðvitað allt annað en við bjóðum börnunum sem koma hingað. Í Noregi er sérstaklega lögð rækt við að kenna norsku fyrir innflytjendur og innflytjendabörnin þar eiga einnig kost á móðurmálskennslu, þ.e. kennslu á sínu eigin móðurmáli. Meginstefnan er sú að íbúarnir aðlagist norsku samfélagi sem fyrst og geti fylgt jafnöldrum sínum í norskum skólum en að þeir viðhaldi og rækti jafnframt móðurmálið og verði tvítyngdir.
    Þetta fyrra er kannski það sem er reynt hér, að láta börnin aðlagast, en það er ekki gert mikið og í sumum tilvikum nánast ekki neitt til að auðvelda þetta. Þar af leiðandi verður árangurinn eins og hann er.
    Í Svíþjóð hafa verið í námsskrá frá 1980 sérstakir kaflar um kennslu í sænsku fyrir nýbúa og móðurmálskennslu innflytjenda. Það liggja fyrir drög að nýrri námsskrá í Svíþjóð núna og í þeim eru svipaðir kaflar um kennslu í sænsku. Síðan er lögð sérstök áhersla á það í nýju námsskránni að nemendur fái kennslu við hæfi hvers og eins í sænsku þar til þeir hafa náð góðum tökum á málinu. Á þetta hefur nokkuð þótt skorta í Svíþjóð en þar hefur hins vegar verið mikil kennsla og vönduð víða í móðurmáli innflytjendabarnanna.
    Það er sem sagt um breyttar áherslur að ræða í Svíþjóð en ekki að verið sé að minnka þjónustuna þrátt fyrir að Svíar séu að draga saman á öllum sviðum. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu því ég held að það sé fráleitt að segja bæði já og nei. Segja já við því að fólk komi frá ólíkum menningarsvæðum til Íslands, eins og við höfum sem betur fer gert, og nei við því að fólki sé gert kleift að spjara sig eins og fólkið í næstu íbúð.
    Næsta brtt. okkar kvennalistakvenna ætti að vera nokkuð kunnugleg og hún er e.t.v. brýnni nú en nokkru sinni fyrr. Við leggjum til að varið verði 30 millj. kr. til þess að endurreisa Fæðingarheimilið í Reykjavík. Þetta er tvöfalt réttlætismál. Í fyrsta lagi nær það ekki nokkurri átt að ekki skuli lengur vera boðið upp á val á fæðingaraðferð og fæðingarstofnun hér á mesta þéttbýlissvæði landsins. Svo sem kunnugt er hafa ýmsar nýjungar við fæðingar og sængurlegu verið fyrst reyndar á Fæðingarheimili Reykjavíkur og margar hverjar verið seinna teknar upp annars staðar. Konur vilja eiga val og krafan um það er svo skýr að síðan Fæðingarheimilinu í Reykjavík var lokað hafa allmargar konur tekið þann kost að fara alla leið til Keflavíkur til að ala börnin sín. Þar er andi Fæðingarheimilisins enn við lýði enda er ljósmóðirin fyrrum yfirljósmóðir Fæðingarheimilisins og skilningur annarra á hugmyndum hennar er í góðu lagi. Þetta eru skýlaus skilaboð um að konur láta ekki bjóða sér það að eiga ekki þetta val. En auðvitað eiga ekki allar tök á því að fara til Keflavíkur. Nú er svo komið að hópur kvenna sem kennir sig við náttúrbörn er að vekja athygli á þeim sjálfsögðu réttindum verðandi mæðra að eiga val um fæðingaraðferð, meiri fjölbreytni og annars konar umhverfi við fæðingu og sængurlegu en hátækni- og kennslusjúkrahús.
    Ég man það í utandagskrárumræðu, ég held það hafi verið 13. apríl sl., um málefni Fæðingarheimilis Reykjavíkur að þá sagði hæstv. heilbrrh., Sighvatur Björgvinsson, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það sem stendur til er að reyna að bjóða upp á sömu þjónustu með því að innrétta á fæðingardeild Landspítalans sams konar aðstöðu til fæðingarhjálpar og á sér stað á Fæðingarheimili Reykjavíkur.``
    Hvort sem það er vegna hins stóraukna álags á fæðingardeildina eða einhvers annars er alveg ljóst að á meðan konur kjósa að fara alla leið til Keflavíkur héðan af höfuðborgarsvæðinu til þess að ala börn sín hefur þetta að sjálfsögðu ekki orðið. Við þurfum ekki að blekkja okkur með þetta. Ég efa það ekki að allir eru af vilja gerðir að hlúa sem best að konum, verðandi mæðrum, fæðandi konum og nýbökuðum mæðrum og börnum þeirra en þegar vinnuálagið er slíkt og það er nú á fæðingardeildinni við Landspítalann er auðvitað tómt mál að tala um þetta. Á sama tíma er verið að skera niður fjárveitingar og ég tala nú ekki um það hversu smánarleg laun ljósmæðra eru. Raunar má geta þess að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður á Landspítalanum hafa fengið sig fullsaddar af þeim kjörum sem þeim er boðið upp á og hafa gripið til þess að segja störfum sínum lausum. Ég veit ekki hvort nýr samningur við ljósmæður breytir einhverju þarna um en ég óttast að það sé ekki mjög mikil breyting.
    Ég vil geta þess að það er fleira en bara þetta val sem vakir fyrir okkur kvennalistakonum. Það hlýtur á endanum að vera kostnaðarsamt að láta allar fæðingar eiga sér stað á hátækni- og kennslusjúkrahúsi, jafnvel þótt farið sé að spara og þrengja að konum sem þar fæða börnin með því að senda þær heim eftir sífellt færri daga sængurlegu.
    Á síðasta ári voru fæðingar á fæðingardeild Landspítalans 2.558 og eru áætlaðar nálægt 2.900 á þessu ári. Þetta eru um 70% allra fæðinga í landinu. Það segir mér enginn að allar þessar fæðingar þurfi að fara fram á hátæknispítala og með þann tækjabúnað við höndina sem alla jafna á fyrst og fremst að vera til taks við áhættufæðingar. Sem betur fer eru slíkar fæðingar oftast fyrirsjáanlegar. Áhættuþættirnir eru flestir þekktir og þar að auki er yfirleitt auðvelt að beina konum, bæði utan að landi og úr næstu götu, yfir á fæðingardeild Landspítalans ef eitthvað óvænt kemur upp á varðandi móður og barn. Hér tala ég raunar af eigin reynslu því ég veit að ef á bjátar er stutt á milli þessara tveggja fæðingarstofnana sem lengst af hafa

staðið konum á Reykjavíkursvæðinu til boða. Samkvæmt minni reynslu gerir það ekki nokkurn skapaðan hlut til þótt maður eigi sitt barn á Fæðingarheimili Reykjavíkur en þurfi að taka sængurleguna á fæðingardeildinni vegna öryggisins sem þar er boðið upp á fyrir mæður og börn og vegna nálægðar við barnaspítala Hringsins. Ég veit líka að það væri meira en lítið undarlegt ef öll áhætta væri bundin við konur á Reykjavíkursvæðinu því auðvitað eru þær konur sem ala sín börn úti á landi sendar til Reykjavíkur ef fyrirsjáanlegt er að einhver áhætta sé á ferðinni. Einnig eru þær sendar eins snarlega og hægt er til Reykjavíkur ef eitthvað kemur upp á sem ekki hefur verið fyrirsjáanlegt og ég veit ekki betur en að það gangi í langflestum tilfellum vel. Auðvitað getum við aldrei boðið upp á fullkomið öryggi en ég held að það sé hreinasti óþarfi að bera fyrir sig öryggisþáttinn þegar verið er að beina öllum konum inn á fæðingardeild Landspítalans. Það er hreinn óþarfi og gjörsamlega úrelt hugsun og úr takti við allt sem verið er að gera annars staðar. Við sem erum á mínum aldri þekkjum margar hverjar þessar stofnanir báðar. Við höfum átt val og við viljum að sjálfsögðu að aðrar konur eigi þetta sama val.
    Þriðja tillaga okkar kvennalistakvenna varðar atvinnumál og nýsköpun í samfélaginu þótt það geti vel verið að einhverjir hafi ekki lesið það nákvæmlega út úr tillögunni er þeir lásu hana. Þar erum við ekki að biðja um stórar fjárhæðir en við erum að biðja um fjárhæðir sem munu án efa nýtast vel. Það þarf nefnilega ekki mikið fé til að koma á laggirnar hér á landi merkilegri starfsemi sem gæti orðið til að hvetja konur til stofnunar fyrirtækja á traustum grunni með góðan bakhjarl og skapa þannig atvinnu og umsvif. Hér á ég við þriðja lið tillagna okkar kvennalistakvenna um að leggja 2 millj. 883 þús. kr. til stofnunar lánatryggingarsjóðs kvenna á Íslandi. Þetta mál hefur átt sé nokkurn aðdraganda. Hér er um að ræða net alþjóðlegs samstarfs sem hefur orðið til til að bæta úr brýnni þörf sem er á lánafyrirgreiðslu fyrir konur. Þetta alþjóðlega net, Women's World Banking, hefur einnig verið kallað kvennabanki manna á meðal á Íslandi en lánatryggingarsjóður kvenna er meira réttnefni því hér er ekki um bankastofnun að ræða heldur veðtryggingasjóð sem baktryggir lán þeirra kvenna sem uppfylla skilyrði sjóðsins að öðru leyti. Hið alþjóðlega nafn þessa sjóðs er venjulega stytt í WWB og vera má að ég muni nýta mér þá styttingu hér í nánari greinargerð.
    Kerfið er þannig að lánastofnanir þær sem fyrir eru í hverju landi fyrir sig eru nýttar í stað þess að byggja upp nýtt kerfið við hliðina á því sem fyrir er í landinu. Í vönduðu erindi til fjárln. gera þær konur er undirbúa stofnun Íslandsdeildar WWB glögga grein fyrir því hvernig lánatryggingarsjóðurinn virkar og langar mig, með leyfi forseta, að grípa aðeins niður í þessa afbragðsgóðu greinargerð með umsókn kvennanna:
    ,,Í kjölfar kvennaráðstefnunnar árið 1975 [á vegum Sameinuðu þjóðanna] var WWB stofnaður. Markmið Women's World Banking er að stuðla að efnahagslegu sjálfstæði kvenna og efla atvinnurekstur þeirra með því að auðvelda konum aðgang að fjármagni. Kveikjan að stofnuninni var sú staðreynd að konur unnu 65% allrar vinnu í heiminum en öfluðu aðeins 10% heildartekna og áttu minna en 1% af eignum heimsins. Þessar staðreyndir eiga reyndar við um stöðu kvenna enn í dag. WWB hóf starfsemi árið 1979 með 15 millj. kr. styrk frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna og 150 þús. kr. framlagi frá hverjum stofnaðila. Í dag hefur WWB yfir 420 millj. að ráða sem notaðar eru sem veðtryggingasjóðir fyrir 56 aðildarstofnanir í 42 löndum. Hlutverk sjóðsins er fyrst og fremst að vera veðtrygging fyrir lánum sem viðskiptabanki aðildarstofnunarinnar veitir.
    WWB er í rauninni net sjálfstæðra aðildarstofnana sem starfa annars vegar í samvinnu við höfuðstöðvar WWB í New York og hins vegar við viðskiptabanka í viðkomandi landi. Aðildarstofnanir WWB eru sjálfstæðar einingar sem miða starfsemi sína við þarfir viðkomandi samfélags. Hver stofnun starfar óháð höfuðstöðvunum og ber ábyrgð á eigin stjórnsýslu, fjárhag og framkvæmdum. Í viðkomandi landi safnar aðildarstofnunin frjálsum framlögum í stofnsjóð sem síðan er notaður sem veðtrygging fyrir lánum. Fyrir hvert lán sem veitt er tryggir WWB 50% af heildarupphæðinni, aðildarstofnunin 25% og viðkomandi viðskiptabanki 25%. Aðildarstofnunin gerir samning um samstarf við einn eða fleiri viðskiptabanka. Samstarf aðildarstofnunarinnar við viðskiptabanka byggist upp á eftirfarandi verkaskiptingu:
    Aðildarstofnunin metur lánshæfni umsókna. Reynist umsóknin lánshæf veitir viðskiptabanki lán á markaðsvöxtum. Vextir af lánum renna til viðskiptabanka og allt að 3% þóknun rennur til aðildarstofnunarinnar. Viðskiptabanki fær þannig allar vaxtatekjur af veittum lánum en þarf aðeins að taka 25% áhættu auk þess sem hann fær aðgang að nýjum markhópi. Aðildarstofnunin metur ekki aðeins lánshæfni heldur veitir jafnframt öllum sem þess óska fjárhags-, rekstrar- og markaðsráðgjöf.
    Markmið aðildar Íslands að WWB er að fá aðgang að erlendu áhættufjármagni ásamt ráðgjöf varðandi fjármálastarfsemi og fyrirtækjarekstur kvenna. Erlendar rannsóknir sýna að forráðamenn lánastofnana eru tregir til að lána konum í fyrirtækjarekstri. Ástæða er til að ætla að aðstæður hér á landi séu sambærilegar. Konur sem vilja hasla sér völl sem atvinnurekendur í nýrri atvinnugrein fá litla lánafyrirgreiðslu og mæta jafnvel andstöðu annarra atvinnurekenda og viðskiptavina. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar eru konur 35% atvinnurekenda á Íslandi. Sífellt fleiri konur hefja fyrirtækjarekstur vegna skorts á atvinnutækifærum, sérstaklega á landsbyggðinni.
    Undanfarin ár hefur velgengni smáfyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu vakið athygli en fyrirtæki kvenna eru fjölmennust í hópi smáfyrirtækja. Talið er að atvinnu- og hagvaxtarmöguleikar framtíðarinnar liggi hjá smáfyrirtækjum. Ef tryggja á velgengni kvenna í fyrirtækjarekstri þarf að auðvelda konum aðgang að ráðgjöf og fjármagni. Smæð fyrirtækja kvenna og samþjöppun þeirra í atvinnugreinar þar sem verðmætasköpun er lítil eru m.a. afleiðingar andsnúinna viðhorfa forráðamanna lánastofnana og viðskiptavina til kvenna í fyrirtækjarekstri.``
    Ég ætla ekki að tilgreina allt sem stendur í umsókninni en ég vísa á að í Vísbendingu þann 20. ágúst sl. er grein eftir Lilju Mósesdóttur, Velgengni í fyrirtækjarekstri. Þeir sem hafa áhuga á að vita meira um þetta merkilega framtak geta að sjálfsögðu litið á þetta.
    Undir lok umsóknar sinnar segja konurnar, með leyfi forseta:
    ,,Enda þótt undirbúningshópurinn vinni að þessu máli í sjálfboðavinnu er nú svo komið að þörf er á fjármagni. Nauðsynlegt er að ráða starfskonu í átta mánuði, kaupa sérfræðiþjónustu, svo sem löggilta þýðingarvinnu, lögfræðiaðstoð og fleira. Einnig þarf að hefja kynningarstarf um land allt, skrá stofnfélaga og vinna að stofnfundi sem fyrirhugaður er haustið 1993.``
    Ég bendi á að hér er ekki verið að flana að neinu í flaustri eða fljótræði heldur hefur ábyrgur undirbúningur farið fram og ég tel að það ætti að sjálfsögðu að vera til framdráttar. En um hvaða upphæðir erum við að tala? Þær eru ekki háar. Það er í rauninni alveg ótrúlegt að það skuli ekki hafa nú þegar verið samþykkt að taka þetta inn sem fjárlagatillögu og þá tillögu allrar nefndarinnar. Samkvæmt nákvæmlega sundurliðaðri kostnaðaráætlun er greinilegt að hér er alvara á ferð. Það er ekki verið að biðja um neinar stórfúlgur. Það er talað um að starfsmaður þurfi stærsta hlutann af þessu eða liðlega eða u.þ.b. helminginn. Þýðingar eru tilgreindar alveg nákvæmlega og síðan eru aðrir liðir t.d. lögfræðiþjónusta, prentun upplýsingabæklings og ferðakostnaður. Þetta er ekki mikið. Vonast ég til að þessi tillaga verði samþykkt eða að á milli 2. og 3. umr. muni þetta jafnvel bara fljúga í gegn.
    Suðurnesjakonurnar, sem hafa vakið þjóðarathygli með framtaki sínu til að bæta úr atvinnumálum kvenna, hafa eins og fleiri konur komist í tæri við skilningsleysi a.m.k. sumra bankastjórnenda á hugmyndum sínum. Þær og fleiri konur sem sitja ekki með hendur í skauti heldur bretta upp ermarnar þegar harðnar í ári mundu án efa eiga fleiri tækifæri ef lánatryggingarsjóður kvenna væri til nú þegar. Ég verð raunar að taka fram að ég gat þessarar hugmyndar á fundi með þessum konum nú nýverið. Þær voru mjög áhugasamar um og vildu fá að vita meira og spurðu bara: Hvenær verður þetta orðið að veruleika? Þær hafa því miður rekið sig á sömu veggi og konurnar í Afríku, konurnar í Asíu og konurnar í þróuðum löndum og þróunarlöndum, þær koma að lokuðum dyrum þegar verið er að sækja um lánsfjármagn einkum og ekki síst ef þær eru að biðja um lágar fjárhæðir vegna þess að þær eru ekki reiðubúnar til að veðsetja íbúðarhúsnæði sitt og barnanna sinna og taka stóra áhættu. Eins og við vitum væntanlega öll mætavel er það gefið mál að háar fjárhæðir liggja oft á lausu fyrir mikla áhættu en lágar fjárhæðir og miklar tryggingar virðast einhvern veginn ekki njóta náðar fyrir augum bankastjóra. Það er raunar undravert og annar kapítuli sem ekki verður leystur með löggjöf einni saman þó gott væri kannski að hafa eitthvað til að styðjast við. ( Forseti: Forseti vill spyrja ræðumann hvort hann á langt eftir af ræðu sinni eða hvort ræðunni er senn lokið. Ætlunin var að gera hlé á fundinum um þetta leyti.) Ég vil upplýsa hæstv. forseta um að ég á eftir tvö efnisatriði ræðu minnar er varða fjárlögin í heild. Það er eiginlega hvorki stutt né langt í lok ræðu minnar. Forseti verður því að meta það. Ég er það mikið handskrifað að ég þori ekki að giska á það. ( Forseti: Forseti vill þá fara fram á það við hv. ræðumann að fresta ræðu sinni.) Við því skal orðið og mun ég þá halda áfram þegar þessu hléi er lokið.