Fjárlög 1993

78. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 22:55:13 (3298)

     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er að sjálfsögðu full ástæða fyrir því að hv. þm. skuli spyrja því hann var ekki viðstaddur þegar ég skýrði þetta mál fyrr í umræðunni. Það sem ég tilgreindi voru 175 millj. kr. sem á að taka að láni úr Verðmiðlunarsjóði. Það voru 100 millj. sem eiga að berast til þessara verkefna til Byggðastofnunar og hefur ekki verið fullt samkomulag um hvers eðlis það fjármagn ætti að vera, hvort það ætti að vera styrkur eða framlag. Í þriðja lagi eru það 50 millj. kr. sem með samkomulagi við Stéttarsamband bænda er fært til næsta árs. Ég lagði á það áherslu að það væri með skilmerkilegum hætti sagt frá því við fjárlagaafgreiðslu og fært í bókhald, eins og vera ber, hvernig þessum skuldbindingum ríkissjóðs væri fyrir komið.
    Ég tel sjálfgefið að allt annað svipmót væri á framkvæmd búvörusamningsins ef þessar tölur væru ekki látnar hanga í lausu lofti. Það er þess vegna aðgerð sem ég tel til þrifnaðar í samskiptum manna á milli.