Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:03:19 (3303)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra, viðulegi forseti, að tillagan var dregin til baka í fyrra þannig að það varð pólitísk niðurstaða af málinu þó að það kæmi ekki til atkvæða. Það er auðvitað augljóst mál að Alþfl. hefur í þessu máli skipt um skoðun. Hann hefur núna samþykkt að leggja skólagjöld á nemendur í framhaldsskólum sem nema 3 þús. kr. á hvern nemanda. Það sem stendur í framhaldsskólalögunum um þetta mál er þetta, virðulegi forseti, í 32. gr.:
    ,,Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum.
    Ríkissjóður greiðir allan launakostnað við kennslu sem fram fer og skipulögð er í samræmi við áætlun sem samþykkt er af menntmrn.
    Auk kostnaðar við kennslu greiðir ríkissjóður launakostnað við stjórnun, námsráðgjöf, störf í skólasafni, á skrifstofu, félagsstörf, eftirlit og umsjón með heimavistum og eignum skóla og annarra þeirra starfa er nauðsynleg teljast vera.
    Ríkissjóður greiðir enn fremur laun prófdómara á lokaprófi og þann launakostnað er stafar af lækkun kennsluskyldu samkvæmt ákvörðun menntmrn. og annan þann kostnað er leiðir af kjarasamningum.
    Auk launakostnaðar greiðir ríkissjóður annan rekstrarkostnað af starfsemi skólans, viðhaldi húsa og tækja að frátalinni kostnaðarþátttöku nemenda, sbr. 33. gr.`` Þar er um að ræða heimavistarkostnað sem sérstaklega er greindur. Mín skoðun er því sú að það sé lögbrot að taka skólagjöld af nemendum í almennan rekstur. Það stangist á við framhaldsskólalögin.
    Það var fallið frá þessu í fyrra sem betur fer en núna verður auðvitað að láta á þetta reyna, ekki aðeins með atkvæðagreiðslum hér heldur einnig með pólitískum viðræðum við Alþfl. alveg sérstaklega. Þess verður freistað við þessa umræðu og 3. umr. þessa máls.