Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:05:28 (3304)

     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þar sem það kom fram í máli hæstv. ráðherra að það hafi verið og sé full þörf á að endurskoða þau grunnskólalög sem sett voru í tíð síðustu ríkisstjórnar væri forvitnilegt að fá að heyra hvað það er sérstaklega í þeim lögum sem hæstv. núv. menntmrh. getur ekki fellt sig við. Er það einsetinn skóli, er það lengri skóladagur, er það það að nemendur eigi kost á skólamáltíðum eða hvað? Hvað er það sem er svona sérstaklega slæmt við þau lög sem náðist svo mikil samstaða um hér fyrir þremur árum síðan eða þar um bil?
    Það er deilt um lánasjóðinn eins og vanalega, hversu mikill hluti lánanna er styrkur. Ég lít þannig á að ef hver nemandi er tekinn fyrir og farið yfir hans dæmi alveg frá upphafi til enda, við skulum segja nemandi sem endurgreiðir lánið að fullu, þá fáist ekki út sú niðurstaða að meira en helmingur af því sem nemandinn fékk að láni sé styrkur. Það er svo margt fleira sem kemur inn í þegar hæstv. ráðherra tekur heildardæmið og segir: Vegna þess að það þarf 54% framlag úr ríkissjóði þá er 54% styrkur. Mér finnst það ósanngjarnt vegna þeirra nemenda sem greiða öll sín lán til baka á þeim kjörum sem eru í gildi hverju sinni að dæmið sé sett fram á þennan hátt.
    Vegna umræðna um skólana sem verið er að byggja í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu skal ég fullyrða að við Menntaskólann á Akureyri, þar sem alltaf er mikil aðsókn enda er skólinn virtur, hæstv. ráðherra þekkir það vel, væri hægt að fá fleiri nemendur, jafnvel svo hundruðum skiptir ef það væri aðstaða og stærri heimavist í skólanum.