Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:07:51 (3305)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. spurði hvað það væri í gildandi grunnskólalögum sem ég get ekki fellt mig við og spurði sérstaklega hvort það væri ákvæðið um einsetinn skóla, skólamáltíðir og fleira í þeim dúr. Þetta var ekki spurning sem sett var fram af mikilli sanngirni eða velvilja. Ég hef marglýst því yfir að mörg og kannski flest af þeim markmiðum sem eru í gildandi grunnskólalögum eigi auðvitað að halda og sérstaklega þau sem hv. þm. spurði um. Ég er ekki að láta endurskoða löggjöfina til að fella brott einmitt þessi

ákvæði, alls ekki. En það sem hefur knúið til þess að endurskoða löggjöfina snertir þessi akvæði m.a. Þau voru sett og lagðar þær skyldur á sveitarfélögin án þess að séð væri fyrir tekjustofnum til þeirra svo ég nefni það dæmi. Ég trúi ekki að það hafi farið fram hjá hv. þm. eða neinum að framhaldsskólinn kvartar undan því að fá heldur slakari nemendur en hann fékk áður. Háskólinn kvartar undan því að fá slakari nemendur úr framhaldsskólakerfinu. Efast menn um þetta? Þegar svona er fullyrt dugar það mér til að setja slíka endurskoðun af stað sem ég hef gert.
    Enn um lánasjóðinn. Mér tókst náttúrlega ekki enda lagði ég mig ekki sérstaklega fram um að reyna að skýra fyrir hv. þm. í hverju þessi námsaðstoð er fólgin. Nú er ræðutíminn búinn og ég ætla bara að segja að þegar lán er afborgunarlaust þar til tiltekinn árafjöldi er liðinn frá lokum náms er það ákveðin bein námsaðstoð. Þegar lán er með 1% vöxtum er það líka beint framlag frá ríkinu. Það er það sem ég á við og það er þetta sem gerir 54%.