Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:10:22 (3306)

     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er ekki einkennilegt að kvartað sé yfir að nemendur komi ekki nógu vel undirbúnir úr grunnskólanum vegna þess að þessi lög sem sett voru fyrir þremur árum voru ekki komin til framkvæmda. Forsenda þess að grunnskóli sé góður og standist kröfur er að skóladagur sé lengri, skóli sé einsetinn og margt fleira. Síðan get ég verið sammála hæstv. ráðherra um að framhaldsskólinn er heldur ekki óaðfinnanlegur. Þar þarf líka að taka á málum, t.d. með því að koma á styttri námsbrautum sem veiti þó réttindi til ákveðinna starfa.
    Ég ætla svo sannarlega ekki að halda því fram að engin bein námsaðstoð sé við námsmenn. Auðvitað er það og þannig á það líka að vera. En að hún sé í þeim mæli sem hæstv. ráðherra er alltaf að halda fram, því er ég bara ekki sammála. Það hafa verið of mikil afföll og það er eitt af því sem var að þessu gamla kerfi sem var lagt niður í fyrra. Þegar þeim afföllum er svo deilt út á nemendur sem standa sig og greiða til baka, þá er eflaust hægt að fá út einhverjar tortryggilegar tölur. En ég sætti mig ekki við þessa framsetningu hæstv. ráðherra.