Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:54:59 (3311)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er vinnur ríkisstjórnin nú fjárlagagerð eftir reglum sem hv. 8. þm. Reykn., þáv. fjmrh., mótaði á sínum síðasta vetri í fjmrn., þ.e. eftir svokallaðri rammafjárlagagerð. Það þýðir að ef ráðherra gerir tillögu um aukningu á fjárveitingu til einhvers verkefnis á sínu verksviði þá verður hann að færa það af öðru verkefni og skera þá niður sem því svarar. Ég vænti þess sannarlega að fá stuðning til slíkra tilfærslna frá þeim hv. þm. sem flytja tillögur um viðbótarfjárveitingar að þeir séu þá reiðubúnir til að styðja mig að sækja þær viðbótarfjárveitingar til annarra viðfangsefna á mínu verksviði.
    Ég vil aðeins staðfesta það að ég fékk í morgun tillögur sérstakrar nefndar undir forustu ráðuneytisstjórans í heilbr.- og trmrn. varðandi áfengismeðferðina á Vífilsstöðum. Í því fólust ákveðnar tillögur sem ég hef þegar komið á framfæri við stjórnarnefnd Ríkisspítalanna og óskað eftir afstöðu þeirra til þeirra tillagna. Verði stjórnarnefnd Ríkisspítalanna við þeim tillögum sem þar eru gerðar verður málið leyst með þeim hætti og tillaga flutt um það við 3. umr. Hafni stjórnarnefnd Ríkisspítala, þá eru aðrir reiðubúnir til að leysa málið á þeim grundvelli þannig að málið verður leyst og afgreitt við 3. umr.
    Í öðru lagi. Samkomulag við SÁÁ, sem hefur verið gert, hefur verið lagt fram í fjárln. Það er sjálfsagt að afhenda hv. þingmanni ljósrit af því. Ég mun gera að á morgun. Ég er ekki með það hér hjá mér. Þar er ekki gert ráð fyrir því að SÁÁ taki við því verkefni í ársbyrjun 1994 sem hv. þm. lýsti heldur því að árið 1993 verði notað til þess að kanna hvort slíkt samkomulag sé fáanlegt sem þar er um að ræða.
    Í þriðja lagi þá er engin sameiginleg hugsun í þeirri lausn sem þar er orðuð og tillögu hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur. Ég veit ekki hvaða hugsun liggur á bak við tillögu hennar önnur en sú að afhenda eignir ríkisins til einstaklinga án endurgjalds. Slíkt styð ég ekki.
    Að lokum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita sér fyrir því að fjárveitingar verði til reksturs Eirar á næsta ári miðað við þær fjárþarfir sem okkur verður gerð grein fyrir. Við eigum í viðræðum við stjórn Eirar. Það er ekki enn ljóst hver er rekstraráætlun þeirra fyrir þá starfsemi sem við treystum okkur til að fjármagna á næsta ári. Ég reikna með því að niðurstaða í þeim viðræðum verði fengin fyrir 3. umr. og þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að leggja fyrir Alþingi tillögu um þær fjárveitingar sem til þarf svo að hægt sé að standa við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar um sem ég gaf við formlega vígslu hjúkrunarheimilisins Eirar.