Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:58:58 (3313)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, enda var það formaður hans eigin flokks sem bjó til þessar reglur um rammafjárlög, þá er það ekki fjmrn. sem skammtar fagráðuneytunum peninga í því sambandi heldur er sú ákvörðun tekin af ríkisstjórninni í heild.
    Í öðru lagi vil ég benda á að það er mjög eðlileg krafa af hálfu fjárveitingavaldsins að rekstraráætlanir nýrra stofnana séu lagðar fram áður en ákvörðun er tekin um hversu miklu fé skuli veitt til þeirra. Eins og nú standa sakir hefur hvorki hv. þm. né ég neina hugmynd um hvort þær 100 millj. sem hann leggur til að veitt verði til reksturs til hjúkrunarheimilisins Eirar sé of mikið eða of lítið miðað við þær rekstraráætlanir sem aðstandendur heimilisins leggja til grundvallar sínum beiðnum því að hvorugur okkar hefur séð þær og því vil ég endurtaka það að ríkisstjórnin, sem hefur gefið yfirlýsingu um það að við munum beita okkur fyrir fjárveitingu til reksturs hjúkrunarheimilisins, mun að sjálfsögðu ekki gera neina tillögu þar um fyrr en það liggur fyrir á hvaða áætlunum rekstraráform þeirra á næsta ári grundvallast. Ég vænti þess að hv. þm. hafi sömu skoðun á þeim efnum að það sé ekki varlegt að gera ráð fyrir fjárveitingum áður en ígrundaðar rekstraráætlanir hafa verið lagðar fram sem ekki hefur enn verið gert.