Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 01:01:53 (3315)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. forseta í upphafi máls míns hvort hæstv. menntmrh. muni vera enn í húsinu. Ég hafði hugsað mér að spyrja hann lítils háttar í framhaldi af upplýsingum um Rannsóknaráð sem hann gaf hér upplýsingar um áðan. Það er fleira sem ég hefði áhuga á að fá að heyra um það mál. ( Forseti: Hæstv. menntmrh. er í húsinu og hann verður látinn vita að nærveru hans sé óskað.) Ég þakka fyrir þær upplýsingar, virðulegi forseti.
    Hæstv. forseti. Ég tók hér til máls fyrr í dag um fjárlagafrv. og tók þá fyrir ákveðna málaflokka og gerði grein fyrir stöðu þeirra miðað við fjárlagafrv. eins og það er nú. Ég tók ekki sérstaklega fram hverjar þær brtt. væru sem fjárln. öll stendur að. Ég taldi nægilegt að hv. formaður fjárln. gerði það. En vegna þeirrar gagnrýni að við í minni hluta fjárln. höfum ekki nefnt sérstaklega þessar tillögur þá er mér ljúft að geta þess aftur að ég tel þær vera spor í rétta átt og það gerði ég raunar í dag líka.
    Ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju minni með það að bæði samtök um Kvennaathvarf og Stígamót fengu í þeim meðförum umtalsverða hækkun frá frv. eins og það er. Það sýnir að það er nokkurs metið allt það mikla starf sem þar er innt af hendi í þágu þeirra kvenna og barna sem hafa orðið þolendur ofbeldis. Það

er viðurkenning á starfi Stígamóta sem aðstoðar þá sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Því miður hefur orðið vaxandi þörf fyrir slíka starfsemi og ég vildi svo sannarlega óska þess að svo væri ekki.
    Um leið og ég lýsi yfir ánægju með þessar hækkanir, þær eru vissulega fleiri eins og aukið framlag til ferðamálasamtaka landshlutanna, þá vil ég líka ítreka það að ég er ósammála þeirri stefnu, sem kemur fram í þessu frv., að sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar skuli í svo verulegum mæli beinast að heilbrigðismálum, einnig hinum síaukna niðurskurði á barnfjölskyldur þessa lands. --- Nú sé ég að hæstv. menntmrh. er kominn í salinn og þar sem nú er mjög áliðið nóttu, klukkan farin að ganga tvö, þá hef ég ekki hugsað mér að hafa þetta langt mál, en ég vildi spyrja hann í framhaldi af þeim upplýsingum sem hann kom hér með áðan um framlag til vísinda- og rannsóknastofnana þar sem hann upplýsti að 300 millj. kr. af sölu eigna væru hugsaðar til þess að auka fjárveitingu til rannsóknastofnana.
    Það kom líka fram hjá honum að þetta væri ekki fyrir fram vituð upphæð þar sem ekki væri vitað hvað mundi seljast af eignum. Svo sem kunnugt er og hefur komið fram í umræðum eiga 20% af greiddu andvirði seldra eigna að skila sér til rannsóknastarfa.
    En fyrirspurn mín er fyrst og fremst vegna þess að á ársfundi Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins 27. nóv. sl. flutti hæstv. menntmrh. ræðu sem hann nefnir Stefnumótun ríkisstjórnarinnar í vísindatækni og nýsköpunarmálum. Í þeirri ræðu segir hann m.a., með leyfi forseta:
    ,,Eins og kunnugt er mæltu sérfræðingar OECD með því að það fé sem Rannsóknasjóður hefði til umráða yrði aukið. Þrátt fyrir þröngan fjárhag ríkissjóðs hefur þetta mál verið forgangsverkefni á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Þannig var á fundi ríkisstjórnarinnar 14. ágúst sl. samþykkt efnislega svohljóðandi tillaga embættismannanefndar um stefnumótun varðandi Rannsóknasjóð Rannsóknaráðs ríkisins:
    ,,Árlegt framlag til Rannsóknasjóðs hækki í 200 millj. kr. á næstu tveimur árum og hækkunin verði í tveimur jöfnum áföngum.``
    Samkvæmt þessar samþykkt``, segir hæstv. ráðherra, ,,ætti ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs að vera a.m.k. 165 millj. kr. á næsta ári. Ríkisstjórnin hefur jafnframt samþykkt tillögur um að hluta af söluandvirði eigna ríkisins verði varið til að fjármagna rannsókna- og þróunarverkefni.``
    Ég ætla ekki að lesa lengra af þessari ræðu hæstv. ráðherra en vil í framhaldi af þessu spyrja hann hvort það sé fyrirhugað að ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs verði aukið úr 115 millj. kr., sem það er í fjárlögum þessa árs, í þær 165 millj. kr. sem hér er talað um. Því í næstu línum fyrir neðan kemur að síðan séu jafnframt samþykktar tillögur um að verja hluta af söluandvirði eignar ríkisins í þessu skyni.