Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 02:20:34 (3328)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er rétt að það komi fram að hér voru þrír stjórnarandstæðingar í salnum því verri róg um hæstv. forseta vorn en þann að ætla honum að styðja ríkisstjórnina get ég ekki hugsað mér við núverandi aðstæður. Ég vil bera hönd fyrir höfuð hæstv. forseta.
    Í örðu lagi er það rangt hjá hv. 17. þm. Reykv. að stjórnarandstaðan hafi eitthvað dregið af sér í umræðunni og mætt illa til þings. Hér var t.d. reynd atkvæðagreiðsla áðan og þá var mikill meiri hluti viðstaddra stjórnrandstæðingar til að reyna að greiða hér fyrir þingstörfum. Ég hygg að hv. þm. átti sig á því að það er stjórnarliðið sem er allmiklu verr mennt þótt það eigi að heita í meiri hluta eða var síðast þegar ég vissi, þ.e. á þingi ef talan 63 er höfð í huga.
    Það er út af fyrir sig alltaf matsatriði hvaða einkunnir eigi að gefa ræðum manna eins og hv. þm. fór út í og gaf minni ræðu áðan þá einkunn að hún hefði verið vanstillt. (Gripið fram í.) Ég vissi ekki til þess að ég hefði verið sérstaklega órólegur. Ég er oftast í góðu jafnvægi á þessum tíma sólarhrings. Það er út af fyrir sig rétt að mér er nokkuð heitt í hamsi, t.d. þegar talið berst að hæstv. heilbrrh. Það er e.t.v. sá kafli, sem hv. þm. átti við, er ég ræddi um þennan flokksbróður hans. Það verður þá bara að hafa það. Ég er einu sinni þannig mannvera að ég get ekki alltaf hamið allar mínar tilfinningar. Eitt af því sem kemur þeim verulega upp á yfirborðið þessa dagana er hæstv. heilbrrh. En ég er ekki einn um það með þjóðinni. Það skal hv. þm. Össur Skarphéðinsson svo sannarlega vita.
    Varðandi Ríkisendurskoðun þá getur hún svarað fyrir sig sjálf. Ég hef sagt áður að hún er ekki heilög stofnun en það má nota ýmslegt sem frá henni kemur.
    Um rannsóknir á klaki þorskfiska er það að segja að fyrir liggur hjá Hafrannsóknastofnun vönduð áætlun um það sem ég hef fengið upplýsingar um frá Jakob Jakobssyni hvernig eigi að verja þessum fjármunum. Hann telur upphæðina nóga til að koma þessum rannsóknum af stað. Mér skilst að þær eigi aðallega að beinast að rannsókn á hrygningarslóðinni sjálfri, á aðstæðum þar hvort selta sjávar, hitastig, veður og ýmsar aðrar aðstæður geti haft merkjanleg áhrif og geti orðið mönnum að gagni við að meta hrygninguna, afkomuna og spá þannig fyrir um hlutina og ef til vill hafa áhrif til hins betra með t.d. friðunaraðgerðum á þeim slóðum eða við hagstæðar aðstæður o.s.frv. Þetta hlýtur hv. doktor að átta sig á og skilja að eru allt saman verkefni vísindamanna að útfæra en ekki okkar stjórnmálamanna.