Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 02:23:32 (3329)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé það að orð míns formanns um þennan hv. þm. eru sönn. Hann tekur rökum og er greinilega enn að þroskast. Þannig sést það til að mynda að eftir mín umvöndunarorð var hans seinni ræða miklu hófstilltari og málefnalegri og það ber að þakka.
    Ég vil síðan segja það að ég er afskaplega ánægður yfir því þegar hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon fer yfir sviðið og telur upp þá sem hér eru staddir úr stjórnarandstöðu og stjórn, að hann telur hv. þm. Inga Björn Albertsson í hópi stjórnarsinna. Það eru gleðileg tíðindi fyrir mig og ég fagna því. Hann sagði hins vegar að stjórnarandstæðingar hefðu ekki dregið af sér. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að hér kemur þingmaðurinn og talar af mikilli tilfinningu og það er augljóst að honum er heitt í hamsi. Hvar eru hinir andstæðingar stjórnarinnar sem er heitt í hamsi? Þeir eru ekki staddir hér. Ég sé þá ekki. Hvar eru mótmæli þeirra við þessarsi vonsku? Er kannski vonskan í stjórnarandstöðunni ekki meiri en svo að hún er sofandi heima eða hímir hún hér á bekkjum um húsið og sefur? Ég spyr, virðulegur forseti. Ég hnaut

líka um það að í fyrri ræðu vakti hv. þm. athygli á því að fjárln. var ekki stödd hér og hann sá sérstaka ástæðu til að draga það fram að formaður og varaformaður voru ekki staddur hér.
    Nú vill svo til, virðulegi forseti, að ég veit að fjárln. hefur verið á afar mikilvægum fundi það sem af er þessari nóttu. Þar eru ekki bara staddir varaformaður og formaður heldur líka þeir virðulegu þingmenn stjórnarandstöðunnar sem sitja í þessari nefnd. Ég vil að það komi fram að það er ekki sökum anna við annars konar fundarstörf sem þeir hafa ekki getað sótt þennan mikilvæga þingfund og tekið þátt í þessari umræðu okkar.
    Að öðru leyti vil ég þakka hv. þm. fyrir að hafa upplýst mig um að hann hefur vísindalegan grunn undir tillögu sinni sem gerir hana miklu meira aðlaðandi en ella. Ég verð að þakka honum fyrir að hafa vakið athygli á því að þessi áætlun liggur fyrir og ég mun auðvitað það sem eftir lifir nætur og þangað til við göngum til atkvæða um klukkan 11 í fyrramálið íhuga mjög vandlega hvort ekki sé flötur á því hér að ná ákveðinni samstillingu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þetta tiltekna mál.