Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 02:53:44 (3337)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mikið skil ég það vel að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir vilji ekki ræða Evrópska efnahagssvæðið. Staðreyndin er sú að flokkur hennar er um þessar mundir í þvílíkri klípu í því máli að það má segja að hann sé nánast opið flak þannig að ég vil, vegna þess að mér er frekar hlýtt til Framsfl. og sér í lagi hlýtt til hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur, hlífa henni við að ræða þetta.
    Varðandi SÁÁ er staðan þannig að ég tala þar ekki af neinum ókunnugleika. Það vill svo til að ég ásamt formanni Alþfl. og heilbrrh. átti í samningaviðræðum við forustumenn SÁÁ og er því gerkunnugur hvert vilji þeirra stefndi í þessu máli.
    En fyrst verið er að tala um ókunnugleika, þá vil ég geta þess, virðulegi forseti, að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir talaði m.a. um að stjórnarþingmenn fjösuðu um það að nýta þyrfti innlenda orku betur en gert er núna en hins vegar á sama tíma og þeir hefðu uppi slíkar ræður þá væru til að mynda skip í höfnum að keyra dísilvélar í stað þess að nýta innlenda orku. Þess vegna vil ég upplýsa þingmanninn, sem eins og ég er mikill unnandi hæstv. iðnrh., um það að téður hæstv. ráðherra, sem þingheimur allur hefur fest mikla ást við, hefur einmitt sett niður nefnd til þess að vinna að þessu máli m.a. vegna þess að aðrir þingmenn, að vísu ekki þingmenn Framsfl. en þó þingmenn úr kjördæmi hv. þm., settu fram hugmynd í þessa veru á sl. vori. Því vil ég að það komi hér fram, virðulegi forseti, að a.m.k. í þessu efni þarf þingmaðurinn ekki að hafa of miklar áhyggjur og gæti nú þess vegna farið heim að sofa en ég veit að þingmaðurinn vill starfa málefnalega þannig að hún mun vaka hér með okkur áfram í nótt.