Fjárlög 1993

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 11:18:37 (3342)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við uppbyggingu Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki er nú lögð öll áhersla á að byggja upp bóknámshús við skólann. Við þingmenn kjördæmisins höfum unnið samkvæmt þessu og tillögur fjárln. nú miðast sem næst við gerð verkáætlunar. Á þskj. 446 flytur samþingsmaður okkar úr Norðurl. v., Ragnar Arnalds, sem jafnframt er formaður byggingarnefndar bóknámshússins tillögur um 4 millj. kr. til stækkunar á heimavist skólans sem vissulega er þörf á. Þrátt fyrir að leitað hafi verið eftir stuðningi fjárln. við stækkun heimavistarinnar gat nefndin ekki fallist á að verða við því nú. Ég hef rætt málefni skólans við hæstv. menntmrh. og því veit ég að hæstv. ráðherra mun við gerð næstu fjárlaga beita sér fyrir því að fjármagn fáist til framkvæmda við heimavistarhúsnæði fjölbrautaskólans. Ég treysti svo sannarlega orðum hæstv. menntmrh. Ólafs G. Einarssonar. Við þessar aðstæður tel ég þennan tillöguflutning á þskj. 446 hafa vafasaman ávinning. Því greiði ég tillögunni ekki atkvæði.