Fjárlög 1993

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 11:25:32 (3345)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Forseti. Skólanefndir framhaldsskólanna hafa haft heimild til að innheimta greiðslur frá nemendum sem að hluta hafa gengið til nemendafélaga og að hluta í svokölluð efnisgjöld og fleira. Þessar greiðslur hafa verið utan hefðbundinna sértekna framhaldsskólanna eins og þær hafa birst í fjárlögum þar sem t.d. greiðslur vegna öldungadeildanna er að finna. Þess vegna hafa engar sértekjur verið færðar í fjárlögum á framhaldsskóla með hefðbundna kennslu. Í þessu fjárlagafrv. er hins vegar búið að færa inn sértekjur á þá framhaldsskóla í fyrsta sinn. Þau rök eru fyrir því færð að eingöngu sé verið að setja inn á fjárlög þær greiðslur sem fram að þessu hafa verið innheimtar og ekki sé um ný skólagjöld að ræða. Hlýtur því að vera rökrétt að álykta að þau útgjöld skólanna sem þessar greiðslur hafa gengið til sé jafnframt að finna í útgjaldahlið fjárlaganna fyrir viðkomandi skóla. Ég er andvíg þessari uppfærslu í fjárlögum og lít svo á að með því að taka inn á fjárlög ríkisins sértekjur fyrir alla framhaldsskóla og binda upphæð við nemanda sé verið að stíga afdrifaríkt spor í þá átt að hér eftir verði innheimt skólagjöld í bókstaflegri merkingu þess orðs í þeim almennu skólum landsins sem framhaldsskólar eru og er þetta grundvallaratriði að mínum dómi. Eini möguleiki minn í þessari stöðu er að styðja þá tillögu sem hér liggur fyrir, enda lít ég svo á að verði hún samþykkt verði kostnaðurinn sem tengist þessum greiðslum felldur út fyrir 3. umr. Hér er um að ræða inn- og útgreiðslur sem ekki áður hafa verið á fjárlögum og með tilliti til framangreinds segi ég já.