Fjárlög 1993

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 11:27:54 (3346)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er tekist á um mikið grundvallaratriði í skólamálum og það verður að segjast eins og er að ævintýramennska hæstv. menntmrh. í atkvæðaskýringum hér áðan sem og í umræðum um þetta mál í gærkvöldi og í nótt er með ólíkindum. Hæstv. ráðherra gat að sjálfsögðu ekki vísað í þá grein laganna um framhaldsskóla sem heimilaði að leggja á skólagjöld til almenns rekstrar og nefndi enn síður þá staðreynd að í þeim lögum eru skýlaus fyrirmæli um að ríkissjóður skuli greiða laun og annan fastan rekstrarkostnað við skólana. Hér er haldið út á þá braut að skíra skólagjöld sértekjur og afsaka með því upptöku þeirra. Það má sjá af því hversu fráleit atkvæðaskýring og skoðun hæstv. menntmrh. er að að sjálfsögðu munu nemendafélög og aðrir slíkir aðilar sem innheimt hafa gjöld á undanförnum árum halda því áfram þrátt fyrir þessa sértekjuinnheimtu skólanna í þágu rekstrar. Hér er á ferðinni gjaldtaka sem á að renna til almenns rekstrar framhaldsskólanna. Það er í fyrsta lagi lögbrot og í öðru lagi er þar haldið út á mjög hættulega braut sem ekki sér fyrir endann á. Ég segi því að sjálfsögðu já og styð þessa tillögu.