Fjárlög 1993

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 11:34:53 (3351)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er ótvírætt um það að ræða að verið er að innheimta gjöld í skólunum sem hingað til hafa ekki komið nálægt rekstri skólanna. Það er verið að gera hér nýja tilraun til þess að koma á skólagjöldum. Það tókst að stöðva það í fyrra. Nú er beitt annarri aðferð. Skólagjöld hafa aldrei verið innheimt í framhaldsskólum landsins til þess að koma nálægt rekstri. Allt slíkt er rangt. Innritunargjöldin sem hafa verið innheimt hafa annars vegar runnið til nemenda, hins vegar í sjóði sem skólarnir hafa haft til ráðstöfunar og hafa verið nýttir til þess að styðja kóra, leikstarfsemi og jafnvel nemendur sem illa hefur verið komið fyrir. Þessir sjóðir hafa aldrei komið nálægt rekstri skólanna, en nú á að hækka þessi gjöld, nú að hækka þetta í allmörgum skólum og það er verið að taka þetta inn í reksturinn. Hér er um að ræða upphæð að fjárhæð 49,5 millj. kr. og við leggjum til á þeirri brtt. sem hér verið að greiða atkvæði um að þeirri upphæð verði varið til að fella niður þessi skólagjöld. Ég segi já.