Fjárlög 1993

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 12:09:39 (3359)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á því við afgreiðslu þessa liðar sem er upp á 255 millj. kr. og fjallar um fjárveitingar til byggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, læknisbústaða og hjúkrunarheimila aldraðra að til Norðurl. e., þriðja stærsta kjördæmis landsins, þar sem búa 10% landsmanna, eiga að renna 2,5 millj. kr. af þessum lið. Þetta er til byggingar á bílskúr við heilsugæslustöðina í Ólafsfirði. Ég held að þegar þessi hlutföll eru skoðuð hljóti það að vekja nokkra furðu hjá fleirum en mér að svo skuli takast til með dreifingu á þessu fjármagni og hef ég þó ekki heyrt eða séð flutt fagleg rök fyrir því að ástand þessara mála eða uppbygging sé með svo geysilega ólíkum hætti í hinum einstöku landshlutum. Venjan hefur verið sú, og þeirri venju mun ég halda, að þingmenn styðji þær brtt. sem koma frá sameinaðri fjárlaganefnd en ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég greiði þessari tillögu atkvæði með miklum semingi.