Fjárlög 1993

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 12:18:28 (3362)

     Steingrímur J. Sigfússon :

    Hæstv. forseti. Þessi brtt. felur í sér tilfærslu innan fjárlagaliðarins sem viðkemur Vegagerð ríkisins. Hún veldur ekki eða hefur ekki í för með sér breytingu á heildarútgjöldum til vegamála en færir milli liða eins og þetta er bókfært í fjárlagafrv. eða brtt. þannig að liðurinn Nýframkvæmdir hækkar um tæpar 700 millj. kr. og liðurinn Framkvæmdaátak vegna atvinnumála lækkar að sama skapi. Sá rökstuðningur fylgir þessari brtt. að við erum andvígir þeirri lántöku sem á að ýta Vegagerð ríkisins út í með áformum hæstv. ríkisstjórnar. Við teljum að Vegagerðin eigi að njóta aflafjár síns af hinum mörkuðu tekjustofnum í stað þess að það renni í þessum mæli í ríkissjóð. Áform hæstv. ríkisstjórnar standa til þess að gera upptækar tæpar 700 millj. kr. af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar í ríkissjóð en vísa Vegagerðinni á lántökur í staðinn sem að sjálfsögðu eiga síðan að endurgreiðast með tekjustofnum Vegagerðar. Með þessari aðferð er, eins og augljóst er hverjum manni, verið að skerða ráðstöfunarfé vegamálanna til lengri tíma litið. Þetta er afar óæskileg og óheppileg aðgerð og ekki seinna vænna en að allir hv. alþm. geri sér grein fyrir því hvað hér er á ferðum.
    Við leggjum því til að þessi breyting verði gerð á uppsetningu fjárlagafrv. og síðan þær breytingar í framhaldi af henni sem nauðsynlegar eru, þ.e. að fella brott áformuð skerðingarákvæði á hinum mörkuðu tekjum Vegagerðarinnar og breyta niðurstöðutölum frv. sjálfs í samræmi við það. Ég segi já, forseti.