Fjárlög 1993

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 12:22:10 (3364)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Sennilega er óhjákvæmilegt að það skoðist svo að brtt. 456 kallist aftur með brtt. hv. fjárln. þar sem hún er að forminu til breyting við brtt. 437, tölulið 50. Samþykki ég það að sjálfsögðu sem flytjandi tillögunnar að hún fái þá meðferð þó að það væri nú nokkuð óvenjulegt ef aðrir en flm. gætu með slíkum hætti kallað frá atkvæðum brtt. sem flutt er af öðrum hv. þm., en formsins vegna er sennilega nauðsynlegt að líta svo á. Ég leyfi mér þá að beina því til hv. fjárln. sem ætlar að athuga þennan lið þar sem fram hafa komið í honum villur án þess að útskýrt væri hvers eðlis þær villur eru --- gætu þess vegna alveg eins flokkast undir það að þörf verkefni hefðu ekki fengið þá úrlausn í vinnu nefndarinnar sem nauðsynlegt væri --- að beina því til hv. fjárln. að hún skoði jafnframt brtt. mína mjög vel.