Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 13:58:28 (3369)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég tók af öll tvímæli um það mál í umræðunni í fyrrakvöld. Hv. þm. var því miður ekki viðstaddur þá. En þetta er stjórnarfrv., lagt fram af ríkisstjórnni, afgreitt frá stjórnarflokkunum en auðvitað hafa menn með þetta frv. eins og öll önnur þá fyrirvara að þeir vilja skoða það í meðferð málsins á Alþingi. Það kom fram hjá hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur sem hér talaði að hún var að lýsa sinni persónulegu skoðun. Hún er ekki sammála einu atriði í frv. Það hefur komið fram í flokki hennar að hún er það ekki. Flokkur hennar samþykkti frv. engu að síður til framlagningar sem stjfrv. Alþfl. hefur einnig samþykkt frv. til framlagningar sem stjfrv. og það er stjfrv. Hv. þm. Pálmi Jónsson gerði þann fyrirvara sem fleiri þingmenn hafa gert hér í umræðum sem mér finnst mjög eðlilegur.
    Það er sjálfsagt og eðlilegt að þingmenn gangi úr skugga um það áður en þeir samþykkja heimild til ríkisstjórnarinnar um að gera Samábyrgð Íslands á fiskiskipum að hlutafélagi í eigu ríkissjóðs að þar með séu þeir ekki að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar. Ríkisstjórnin gekk að sjálfsögðu úr skugga um það áður en hún tók ákvörðun um að leggja málið fyrir þingið. Niðurstaðan varð sú sem var staðfest, meira að segja með áliti lögfræðings Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum samkvæmt beiðni stjórnar Samábyrgðarinnar. Hans niðurstaða var sú að Alþingi Íslendinga hefði heimild til að skipa eignarmálum Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum eins og Alþingi sjálft kysi án þess að þar væri verið að brjóta rétt á einum eða neinum. Með öðrum orðum getur Alþingi ráðstafað Samábyrgð Íslands á fiskiskipum eins og hverri annarri ríkiseign með lögum. Það varð niðurstaðan, ekki bara lögfræðinga heilbrrn. heldur lögfræðings stjórnar Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum sem stjórnin leitaði sérstaklega til. Stjórnin átti ekki von á því að lögfræðilegur ráðunautur hennar mundi komast að þessari niðurstöðu en hann gerði það engu að síður. Það varð til þess að langflestir, nær allir nefndarmennirnir sem sömdu frv. það sem hér um ræðir lögðu það til að þessi afgreiðsluháttur yrði á hafður. Ég ítreka það að mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að áður en þingmenn

afgreiða slíkt mál sannfæri þeir sig um að þeir séu að gera hlut sem er lagalega heimill og réttur.