Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 14:12:57 (3371)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. sagði að gefin hefðu verið út 20 þúsund lyfjakort sem kostuðu 20 millj. kr. Það er ekki rétt. Kostnaðurinn við lyfjakortin er á bilinu 10--12 millj. kr. Hv. þm. sagði að um væri að ræða áformaða breytingu eða hækkun á lyfjum um 25--30%. Það er ekki rétt. Það sem ég hef sagt og hún misskilið er að nú er hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði 24--25%. En ég hef lýst því yfir að ég ætli ekki að hækka það umfram Evrópumeðaltalið. Hv. þm. hefur sagt í því sambandi að ég miði þar við meðaltalið í OECD-löndunum. Það er ekki rétt. Það hef ég aldrei sagt enda eru í OECD fleiri lönd en í Evrópu. Það sem ég hef sagt og endurtek er að ég ætla ekki að fara með hlutdeild almennings í lyfjakostnaði yfir það sem nemur Evrópumeðaltalinu. ( Gripið fram í: Sem er?) Sem er á bilinu 32--34%.
    Hv. þm. hefur sagt að hún skilji ekki hver munurinn er á fjölgun lyfjaflokka og fjölgun lyfja á skrá. Sá munur er mjög einfaldur. Ég vil biðja hv. þm. að hlusta til að hún nemi skýringuna. Annars vegar eru lyf flokkuð í ákveðna flokka sem eru að mig minnir frá A til J. Það stendur ekki til að fjölga þessum flokkum. Hins vegar verður mikil fjölgun á einstökum lyfjum á skrá við aðild okkar að EES því það er gert ráð fyrir sérstökum reglum um það hvernig lyfin ganga inn á íslenska lyfjaskrá og lyfjum mun fjölga mjög mikið en ekki lyfjaflokkum. Þetta er því misskilningur hjá hv. þm.
    Í lokin vil ég segja að það er ekki verið að stefna að því, eins og hv. þm. sagði, að aldraðir og öryrkjar eigi að greiða 50% af tannlæknakostnaði sínum. Því aðeins er það gert að viðkomandi hafi fulla skerðingu á lífeyri sínum. Það vill nú svo til að þó að margir aldraðir og öryrkjar séu láglaunafólk þá eru líka í þeim hópi hálaunamenn og er engin ástæða til þess að ríkið sé að greiða niður slíkan kostnað fyrir hálaunamenn, hvort sem þeir eru 67 ára eða 66 ára.