Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 14:54:21 (3375)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði varðandi það frv. sem hér liggur fyrir sem er óhjákvæmilegt að fara nokkuð ítarlegar yfir, m.a. í framhaldi af upplýsingum sem hafa komið um þessi mál í hv. heilbr.- og trn. en þó sérstaklega í framhaldi af þeim orðum sem hæstv. ráðherra lét falla í umræðum í fyrrakvöld. Einkum varðandi biðlista og það að hann taldi að þeir hefðu styst mjög verulega og allt væri í miklu lukkunnar velstandi í heilbrigðiskerfinu, einkum vegna þess hvernig hann hefði haldið á málum. Yfir þessi atriði ætla ég að fara, virðulegi forseti, og sömuleiðis frv. og byrja á því að víkja aðeins að þeim þætti sem hefur verið nefndur m.a. af hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur og lýtur að því stefnuatriði núv. hæstv. ríkisstjórnar að einfalda almannatryggingakerfið.
    Það vill þannig til að í salnum eru staddir einir þrír menn sem hafa komið við sögu og sett sér það markmið að einfalda almannatryggingakerfið og hafa setið í ýmsum ríkisstjórnum hér fyrr á öldinni. Staðreyndin er sú að það hefur aldrei tekist að ná neinu heildarsamkomulagi um endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Í upphafi á hinum miklu og blómlegu hagvaxtartímum var það vegna þess að menn gátu ekki komið sér saman um það hversu miklu þeir ættu að eyða né hvernig þeir ættu að eyða happdrættisvinningi þjóðarbúsins í þágu aldraðra og öryrkja og annarra þeirra sem fjallað er um í almannatryggingalögunum. Síðan var það vegna þess að menn gátu ekki komið sér saman um hvernig ætti að útdeila skerðingunni sem samdráttur í þjóðartekjum hefði í för með sér.
    Ég notaði mjög oft þá samlíkingu þegar ég var í þessum verkum fyrir tíu árum eða svo að almannatryggingalögin væru eins og stagbætt flík með bót á bót ofan. Ég hygg að ( Gripið fram í: Hún er orðin gauðrifin núna.) --- sjálfsagt orðin gauðrifin núna. Ég hygg að þeir séu til hér í salnum sem muna eftir því hvernig stagbættar flíkur litu út og hvernig þær flíkur litu út þar sem var bót á bót ofan. Þær þóttu ekki fínar á þeirri tíð þó að svo hafi orðið í seinni tíð að mér er tjáð að það þyki þeim mun fínna sem það er meira bætt sem fólk klæðist.
    Mér finnst hins vegar að núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. hafi náð alveg nýju þróunarstigi varðandi endurbætur á almannatryggingalögum og ekki sé hægt að tala um það að hann hafi í raun og veru rifið þessa flík eða slitið af henni bætur. Miklu nær væri að tala um að almannatryggingalögin litu út rétt eins og fat sem hefði verið veist að með haglabyssu. Menn hafi látið skeika að sköptu hvar höglin lenda, því að þetta er allt saman sundurtætt og opið gatasigti. Í raun og veru veit enginn hvað er hvar og hvaða breytingar þessar og hinar ákvarðanir hafa í för með sér.
    Á síðasta þingi náðum við stjórn og stjórnarandstaða um það samkomulagi, t.d. að breyta tannlæknaþætti almannatryggingalaganna. Við lágum yfir því á mörgum fundum og vönduðum okkur við það og ég tel ástæðu til þess að þakka þeim sem voru í þeirri nefnd fyrir það góða starf sem þeir þá unnu við að ná samkomulagi um það að breyta þessum ákvæðum um tannlækningar. Niðurstaðan varð sú að allt sem við vorum að gera þá virðist hafa verið meira og minna tóm vitleysa vegna þess að það stenst engan veruleika. Nú er aftur komið frv. um að taka allt til baka sem menn voru þá að gera, að fylla upp í götin sem höglin hafa myndað á almannatryggingalögunum.
    Ég held satt að segja að það sé eitt allra mesta þjóðþrifamál sem hægt er að hugsa sér að ná samkomulagi um heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum. Ég tel að það eigi ekki að gera það með því að ganga út frá lögunum eins og þau eru. Ég tel að menn eigi í sambandi við almannatryggingalögin að setjast niður og segja: Við skulum skapa ný almannatryggingalög og ekki að vera að eyða tíma í að endurskoða lögin eins og þau eru nú heldur eigi menn að koma saman nýjum almannatryggingalögum einfaldlega út frá þeim grundvallaratriðum sem almannatryggingalögin eiga að byggjast á, sem eru jöfnun í lífskjörum.
    Í annan stað vil ég víkja að því sem hefur komið fram í þessum umræðum og snýr að meðlagsgreiðendum. Ég get út af fyrir sig verið alveg sammála hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um að þær konur sem fá greitt með börnum sínum þessa upphæð sem nú er 7.551 kr. á mánuði eru ekki ofsælar af þeirri tölu. Þær eru heldur ekki ofsælar af þeirri tölu sem stendur til að koma þessu í sem eru 11.300 kr. á mánuði ef ég man rétt. Staðreyndin er hins vegar sú að aðferðin við að taka á meðlagsgreiðendum í þessu frv. er með þeim hætti að hún er algjörlega óþolandi. Þetta er högg. Þetta er þungt högg.
    Samkvæmt tölum sem ég hef frá heilbr.- og trmrn. og við fórum hér yfir í fyrrakvöld er gert ráð fyrir því að með breytingum 1. og 2. gr. sé verið að spara ríkissjóði 485 millj. kr. og upp í það fái mæðurnar 350 millj. eða svo af því að meðlögin hækka. Það var talan sem ég sá á blaðinu frá ráðuneytinu. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig má það vera að þetta eru aðeins 350 milljónir? Með hliðsjón af þeim tölum sem hér hafa komið fram, m.a. hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni, hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, og koma út úr reiknivélinni hjá manni þegar maður margfaldar einfaldlega 15.900 börn sinnum 3.749 kr. sinnum 12 gerir þetta eftir minni reiknivél og fleiri manna hér greinilega 715 millj. á ári en ekki 350 millj. kr.
    Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði í fyrrakvöld: Ef þetta er svona, --- og hann áskildi sér rétt til að skoða málið nánar --- er augljóst að menn þurfa að skoða talnagrunninn aðeins betur. Ef þetta er svona, ef það er rétt reiknað hjá mér og fleiri þingmönnum að þetta séu 715 millj. þá þýðir það að þeir sem eru að missa 485 millj. eru samkvæmt þesu að fá í staðinn 715 millj. en ekki 350 millj. kr.
    Getur verið, hæstv. ráðherra, að þetta sé svona? Eða er þetta algjör misskilningur og meinloka í hausnum á mér og öðrum þingmönnum sem hafa verið að skoða þessa hluti? Það er alveg nauðsynlegt að fá þetta á hreint vegna þess að ég tek eftir að fjölmiðlar, m.a. DV í gær, trúi ég, var með þessa tölu 715 millj. Mig rak í rogastans þegar ég sá hana vegna þess að ég hafði alltaf gengið út frá því að þessi tala væri 350 millj. og hafði, eins og ég er vanur, tekið mark á útreikninum vinar míns, Þorkels Helgasonar, sem kann ágætlega að reikna að mínu mati, þó að það séu skiptar skoðanir um það í seinni tíð eftir að hann fór að reikna fyrir hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. en það er svo annað mál. ( Gripið fram í: Hann reiknaði hann inn á þing.) Hann reiknaði mig reyndar ekki inn á þing. Það má miklu frekar segja að hann hafi reiknað hæstv. ráðherra inn á þing. ( Gripið fram í: Ég sagði það.)
    Þetta er atriði í raun og veru númer eitt sem ég vil biðja menn um að hugleiða. Þarna eru menn annars vegar að tala um 485 millj. kr. niðurskurð og hins vegar á móti 715 millj. Ég tel mjög nauðsynlegt að fá upplýst hér hvaða talnagrunnur það er sem menn eiga að réttu lagi að ganga út frá.
    Í sambandi við þetta mál allt er auðvitað mjög fróðlegt að hugleiða hvernig á þessum hlutum er haldið að öðru leyti í því frv. sem hér er um að ræða. Nú vil ég biðja hæstv. ráðherra um að festa sig við það augnablik með mér hver talnagrunnur frv. sé.
    Ég skil það þannig að 1. og 2. gr. frv. séu 485 millj. kr. Að 3. gr. frv. er mér sagt að sé allt að 50 millj. kr., geti kannski verið núll en geti verið allt að 50 millj. kr. Ég skil það svo að 3. gr. sé allt að 50 millj. kr. Að 6. gr. gefi í fyrsta lagi vegna sérfræðitilvísananna 120 millj. kr. Í annan stað ætli menn að taka á þessari 6. gr. í lyfjunum 430 millj. kr. Það eru 400 millj. kr. sem eru þegar inni í fjárlagafrv. og svo 30 til viðbótar, 430 millj. kr. á 2. tölul. 6. gr. Að menn ætli að taka úr 7. gr. í tannlækningunum 190 millj. kr. Að menn ætli að taka á 8. gr., útboðunum, 80 millj. kr. Og menn ætli að taka á 9. gr., varðandi reglur um sambýlisfólk, sýnist mér 15 millj. kr. Menn ætla að taka úr II. kafla frv. 174--175 millj. kr. Samtals gerir þetta, eins og ég hef aflað mér upplýsinga um það, 1.544 millj. kr. sem menn ætla að ná með frv. eins og það lítur út.
    Þar af er nýr sparnaður, nýr niðurskurður, 250 millj. kr. Og í fjárlagafrv. þess vegna 1.294 millj. kr. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá það upplýst hjá hæstv. heilbr.- og trrh. hvort að ég skil talnalegan grunn frv. rétt að hér sé um að ræða sparnað alls upp á 1.544 millj. kr., þar af nýr sparnaður upp á 250 millj. kr. en í fjárlagafrv. sé 1.294 millj. kr.
    Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég vil gagnrýna í fyrsta lagi ráðuneytið fyrir að leggja frv. fram án þess að gera grein fyrir þessum tölum. Að leggja frv. þannig fram að hv. þm. verði eins og á handahlaupum að tína þessa tölu þarna og þessa tölu hér til að átta sig á þessu. Auðvitað á að leggja frv. fram með skýrum hætti, með umsögn m.a. frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Þó að kveðið sé á um það í lögum að umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar eigi að fylgja öllum frv. og hafi fylgt þeim samviskusamlega tel ég vera að undanförnu, þá fylgir það ekki þessu frv. Þó er þetta 1.600 millj. kr. frv., ef ég get lesið þennan texta rétt eins og hann lítur út. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því í öðru lagi: Er þessi talnagrunnur sem ég er hér að rekja upp á tæplega 1.600 millj. kr. réttur?
    Þá vil ég, virðulegi forseti, gagnrýna alveg sérstaklega eitt atriði í frv. sem mér sást yfir við fyrri hluta 1. umr. Það er að í frv. er, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á, óvenju mikið um reglugerðarheimildir. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að ég tek ekki undir það sem oft er sagt af þingmönnum að ráðherrar eigi að vera bundnir á hödnum og fótum og eigi ekki að hafa tilteknar heimildir til að útfæra mál í reglugerðum. Ég tek ekki undir þá gagnrýni. Mér finnst að hv. þm. hafi oft gengið allt of langt í því. Hins vegar er ég á móti því að ráðherrar fái skattlagningarvald í reglugerðum. Ég tel að það stangist á við anda stjórnarskrárinnar þar sem segir: Það er Alþingi sem leggur á skatta.
    Í 2. gr. frv. er svona skattlagningarheimild fyrir ráðherrann. Heilbrrh. má leggja á skatta og í raun

og veru eru engin takmörk tiltekin í þessu efni því að það segir: ,,Þar er heimilt`` --- í sambandi við mæðra- og feðralaun --- ,,að tengja greiðslu bótanna við tekjur.`` Þar er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur. Ég spyr: Hvaða tekjur? Þetta gengur ekki, virðulegi forseti. Ég tel að málið sé næstum að segja ekki þingtækt af þessum ástæðum vegna þess að hérna er verið að ganga svo langt í því að heimila ráðherra að leggja á skatt af því að hann má ákveða það hvar tengingin við tekjur kemur þegar ákveðin eru mæðra- og feðralaun.
    Ég tel þess vegna alveg óhjákvæmilegt að taka á þessu atriði en það er ekki eina tilvikið. Eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á fyrr í dag þá kemur þetta líka fyrir í 1. tölulið 6. gr. Þar er verið að fjalla um tilvísanirnar og greiðslu fyrir komu til sérfræðings. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Fyrir hverja komu til sérfræðings samkvæmt tilvísun greiðir sjúklingur gjald sem ákveðið skal`` --- miðað við hvað? Ekkert --- ,,með reglugerð.``
    Í gömlu almannatryggingalögunum, eins og þau voru sett í tíð Eggerts G. Þorsteinssonar á sínum tíma, er alls staðar ákveðið við hvað skal miða þegar reglugerðir eru settar. Hér er verið að afhenda ráðherranum vald til að segja: Fyrir hverja komu til sérfræðings greiðir sjúklingur eins mikið og ráðherranum sýnist á hverjum tíma. Það er ekkert þak og engin takmörk í þeim efnum. Nú dreg ég ekkert úr nauðsyn þess að menn reyni að hafa aðhald að þessu sérfræðingaliði með því að hafa þessa þjónustu alldýra. En ég tel það algjörlega ótækt fyrir Alþingi og þjóðina að búa við það að einn ráðherra hafi skattlagningarvald og geti ákveðið hversu mikið sjúklingur á að greiða, gjörsamlega án tillits til nokkurs í lögunum eða annars staðar til viðmiðunar.
    Eins er það með lyfin. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður gjald sem ákveðið skal`` --- hvernig? --- ,,með reglugerð.`` Engin viðmiðun, ekki við tekjur, ekki við kostnað, ekki við hlutföll, ekki við gólf, ekki við hámark, ekki við neitt. Ráðherrann getur ákveðið að hafa verð á lyfjum eins hátt eða lágt og honum sýnist. Þetta er ekki hægt. Ég endurtek það að í lögunum um almannatryggingar, eins og þau voru sett í tíð Eggerts G. Þorsteinssonar, 1970--1971, var alls staðar um að ræða tilteknar viðmiðanir.
    Alveg eins er það í 7. gr. þar sem stendur: ,,Fyrir tannlæknaþjónustu aðra en tannréttingar greiða sjúkratryggingar samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.`` Ráðherrann getur sett gjaldskrá um að hafa kostnað við tannlækningar alveg eins og honum sýnist þá og þá. Ég tek það fram, virðulegi forseti, að ég er ekki að segja að hæstv. núv. heilbrrh. ætli að misnota þessi heimildarákvæði á neinn hátt. En ég tel óeðlilegt að Alþingi veiti ráðherra opið skattlagningarvald. Því þetta er skattlagningarvald. Hér er um að ræða sameiginleg gæði, sem eru almannatryggingarnar, og það er verið að ákveða hvað það kostar að fá aðgang að þeim og hæstv. ráðherra á ekki einn, hver sem hann er, að geta ákveðið það.
    Ég tel því hvað sem öllu öðru líður óhjákvæmilegt og mun beita mér fyrir því að hv. heilbr.- og trn. breyti þessum ákvæðum því að þau eru algjörlega óþolandi eins og þau eru hér. Skattlagningarvaldið sem ráðherra fær í hendur er algjörlega fráleitt.
    Ég tók eftir því að þegar hv. 13. þm. Reykv. var að tala um tilvísanakerfið þá gagnrýndi hann hvernig á því er haldið og gagnrýndi að það væri kostnaður við skriffinnsku og þess háttar og tvíverknaður og guð veit hvað og það getur vel verið að það sé alveg rétt. Hitt held ég að sé þó mikið alvarlegra að segja í lögunum: Ráðherra getur látið þetta kosta eins og honum sýnist. Fyrir hverja komu til sérfræðings samkvæmt tilvísun greiði sjúklingur gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Ég fullyrði það, virðulegi forseti, að það er algjörlega einstakt mál að ráðherra fái fulla, opna gjaldskrárheimild frá Alþingi með þessum hætti án þess að miða við eitt eða neitt.
    Ég tel þess vegna að þetta sé eitt af þeim atriðum sem sé alveg óhjákvæmilegt að skoða nánar. Það er ekki hægt að heimila heilbr.- og trmrh. að fara með skattlagningarvald. Ég treysti honum ekki til þess og ég er sannfærður um að þjóðin treystir honum ekki til þess heldur.
    Þá kem ég aðeins að lyfjamálunum næst, virðulegi forseti. Þar á að taka inn hvorki meira né minna en 430 milljónir. Það á að spara 430 millj. kr. á lyfjapartinum. Og það er gert með því að hækka lyfin.
    Hvernig gerist það? Það gerist þannig samkvæmt upplýsingum sem komu fram í heilbr.- og trn. í morgun að þeir sem borga ekkert í dag, eru með fríkort, munu þurfa að borga 17,3--18,4% eða 6,9% eftir því um hvers konar lyf er að ræða af þeim kostnaði sem um er að ræða við lyfið hverju sinni. Einn flokkur, sem hefur greitt lyfin að verulegu leyti, borgar í dag 23,4% af kostnaði lyfjanna en samkvæmt tillögu ráðuneytisins, eins og hún lítur út núna, er gert ráð fyrir því að borga fyrir lyfin 35--39% af kostnaði samkvæmt tillögu ráðuneytisins. Hér er ekki um að ræða neina EB-viðmiðun í lyfjaverði eins og hæstv. ráðherra var að tala um. Hér er greinilega verið að tala um að þetta hlutfall verði miklu hærra fyrir flestalla sem þurfa að nota lyf. Það er einnig verið að ræða um það í núverandi tillögum ráðuneytisins, eins og þær liggja fyrir, að meðaltalshlutfallið, sem í dag er talið vera um 25%, 25--26%, fari upp í 33--34%. Ég tel því, virðulegi forseti, að útreikningar Alþýðusambandsins á hækkun lyfjanna séu allir réttir. Útreikningar hagfræðings Alþýðusambandsins á hækkun lyfjanna, eins og hún liggur fyrir, eru allir réttir. Það er sannað, en af hverjum? Af heilbr.- og trmrn. sjálfu samkvæmt upplýsingum sem við fengum frá heilbrrn. Ekki í gær, ekki í sumar, ekki í fyrra, heldur í dag.
    Ég hef, virðulegi forseti, nefnt nokkur atriði sem ég tel óhjákvæmilegt að fara betur yfir með hæstv. ráðherra. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að fá upplýsingar um það hvort talan er 350 millj. eða 715 millj.

Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að fá um það upplýsingar hvort að talnagrunnur frv., eins og ég rakti hann, upp á 1.543 millj. kr. sé réttur. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að ráðherrann segi skoðun sína á því hvort hann telur reglugerðarheimildirnar, sem eru í frv., víðtækar skattlagningarheimildir, eðlilegar. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að við förum enn frekar yfir þætti eins og skattahliðina á þessu máli og eins og hinn mikla árangur sem náðst hefur í heilbrigðismálum og ég mun rekja á eftir.
    Ég ætla að víkja að skattaþættinum, virðulegi forseti. Það þykir fínt að tekjutengja, það þykir snjallt að tekjutengja. Þeir eru ýmsir sem hafa talið að það væri hægt að leysa alla hluti með því að tekjutengja. Einn þeirra manna er sá sem hér stendur. Ég hef talið að það væri rétt að tekjutengja ýmislegt, m.a. elli- og örorkulífeyri. Ég hef talið að það mætti ganga býsna langt í því. Ég verð hins vegar að segja eins og er að ég staldra mjög við þessi mál eins og þau líta út núna. Hvað er verið að tekjutengja? Það er verið að tekjutengja allt. Í fyrsta lagi er það þannig að lagður er almennur skattur á fólk, sama prósentan yfir línuna. Svo fá allir persónuafslátt. Síðan koma ný skattþrep sem ráðast ekki af tekjum manna heldur af t.d. barnafjölda. Það eru öðruvísi skattar á þá sem eru með börn, þeir eru ekki bara fastir heldur líka tekjutengdir. Þar er tekjutenging á öllum sviðum. Það er verið að ræða um að tekjutengja líka greiðslur fyrir lyf. Þar er nýtt skattþrep, lyfjaskattþrepið. Í þriðja lagi er verið að tala um að tekjutengja ellilífeyri að verulegu leyti, langt umfram það sem við höfum gert á undanförnum 20 árum. Þar er nýtt skattþrep, ellilífeyrisskattþrepið. Það er í fjórða lagi verið að tala um að tekjutengja örorkulífeyri. Þar er nýtt skattþrep, örorkuskattþrepið. Og það er í fimmta lagi verið að tala um tekjutengja vaxtabætur, að þeir fái aðeins greiddar vaxtabætur sem eru með tiltölulega lágar tekjur en aðrir alls ekki. Þar er enn nýtt skattþrep, vaxtaskattþrepið.
    Hæstv. núv. utanrrh. hefur verið með miklar kenningar um að nauðsynlegt væri að skattkerfið væri skilvirkt, gagnsætt og einfalt. Þess vegna yrði bara að vera ein skattprósenta. Það mætti alls ekki vera stighækkandi tekjuskattur, ekki vera tvö þrep í tekjuskatti, ekki þrjú. Það yrði að vera eitt til að tekjuskatturinn væri skilvirkur. En hvað er nú um að vera? Hvað er núna að gerast í þessu, virðulegi forseti? Það er verið að búa til mörg ný skattþrep, aukaskattþrep. Eitt fyrir þá sem eiga börn, eitt skattþrep fyrir þá sem nota lyf, eitt skattþrep fyrir þá sem eru aldraðir. ( Forseti: Forseti vill spyrja ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni því að hugmyndin er að fresta þessari umræðu núna um sinn vegna óviðráðanlegra orsaka. Vill ræðumaður ljúka ræðu sinna eða fresta henni um sinn?) Mér þætti vænt um það, virðulegi forseti, ef ég fengi að fresta ræðunni frekar.