Húsnæðisstofnun ríkisins

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 15:22:05 (3376)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988 með síðari breytingum. Frv. er að stofni til byggt á tillögum frá starfshópi sem skipaður var á árinu 1989 vegna athugasemda Ríkisendurskoðunar um óljósa stjórnsýslustöðu Húsnæðisstofnunar og óglögg valdamörk milli húsnæðismálastjórnar og félmrn. Starfshópurinn var skipaður Berglindi Ásgeirsdóttur ráðuneytisstjóra, Halldóri Árnasyni, skrifstofustjóra Fjárlaga- og hagsýslustofnunar og Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni. Lögðu þau fram tillögu að frumvarpi í mars 1989 sem hér er byggt á hvað stjórnsýsluþátt þess varðar. Frv. þetta greinist í þrjá meginþætti: Stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar og tengsl milli stofnunarinnar svo og húsnæðismálastjórnar og félmrh., að tækni- og þjónustudeild Húsnæðisstofnunar verði lögð niður og í þriðja lagi afnám skyldusparnaðar ungmenna. Mun ég hér á eftir gera grein fyrir hverjum þætti fyrir sig.
    Ekki hefur legið nægilega ljóst fyrir hver sé stjórnsýsluleg staða Húsnæðisstofnunar. Vegna þessarar óvissu fékk Húsnæðisstofnun á árinu 1987 Lagastofnun Háskóla Íslands til að fjalla um stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar og skilaði hún áliti sínu í ágúst það ár. Í því áliti kom fram að Húsnæðisstofnun njóti verulegs sjálfstæðis gagnvart viðkomandi fagráðherra, stjórn stofnunarinnar beri ekki ábyrgð gagnvart ríkisstjórninni í heild, stjórnin þurfi ekki að taka við starfsfyrirmælum frá fagráðherra, hins vegar starfi stjórn Húsnæðisstofnunar á ábyrgð Alþingis og hafi upplýsingaskyldur gagnvart því.
    Á árinu 1988 fól ég Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni að gera athugun á stöðu, valdsviði og ábyrgð Húsnæðisstofnunar ríkisins og tengslum stofnunarinnar og stjórnar hennar við félmrn. Í því áliti kemur fram að íhlutunarréttur fagráðherra felist einkum í gerð reglugerða, eftirliti með starfrækslu stofnunarinnar og að ráðherra skipar formann og varaformann stjórnar ásamt æðstu yfirmönnum stofnunarinnar. Þá getur ráðherra krafið stofnunina um upplýsingar og skýrslur, hins vegar geti ráðherra ekki hlutast til um framkvæmd einstakra mála.
    Niðurstöður beggja þessara skýrslna sýndu þannig fram á að sjálfstæði Húsnæðisstofnunar væri

verulegt. Ráðherra hefði fyrst og fremst áhrif með reglugerðum og undirbúningi lagafrumvarpa og Húsnæðisstofnun félli því ekki með beinum hætti undir framkvæmdarvaldið.
    Það er athyglisvert að skoða í áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands hvernig þar er skilgreint sjálfstæði ríkisstofnana. Þar kemur m.a. fram að Húsnæðisstofnun hefur þau einkenni þeirra stjórnsýsluhafa, sem einu nafni hafa verið nefndir ráð og nefndir, að í stjórn hennar eru hagsmunaaðilar og að meiri hluti stjórnarinnar er kosinn af Alþingi sem hefur þannig tekið af ráðherra hinar venjulegu heimildir æðsta yfirmanns stjórnsýslunnar.
    Síðan segir um valdsvið sjálfstæðra ríkisstofnana: ,,Sérstaða þeirra og sjálfstæði kemur og fram í því að fjárhag þeirra skal haldið utan við hin almennu fjárlög ríkisins.``
    Ég tel það mjög athyglisvert sem þarna kemur fram, að valdsvið sjálfstæðra stofnana, eins og Húsnæðisstofnunar, sé þannig að fjárhag þeirra skuli haldið utan við hin almennu fjárlög ríkisins. Í því sambandi vil ég vitna í bréf Ríkisendurskoðunar frá 3. nóv. 1988. Þar segir, með leyfi forseta, um rekstur stofnunarinnar:
    ,,Um rekstur stofnunarinnar gilda sömu reglur og um aðrar ríkisstofnanir, að henni ber að leita eftir samþykki Alþingis um umfang rekstrar í fjárlögum fyrir hvert ár og þar á meðal ráðstöfun á eigin fé. Hér skiptir ekki máli á hvern hátt stofnunum er séð fyrir tekjum til að mæta útgjöldum sínum. Þá telur Ríkisendurskoðun að ekki sé hægt að jafna starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins við starfsemi banka, bæði með tilliti til þess að ríkissjóður leggur stofnuninni til veruleg framlög á hverju ári og svo hinu að Alþingi fjallar um og ákveður fjármögnun Húsnæðisstofnunar ásamt ítarlegum reglum um úthlutun lána en framkvæmdarvaldið ákvarðar hins vegar um lánakjör.
    Með vísan til þess,`` segir Ríkisendurskoðun, ,,sem að framan greinir, verður ekki séð að mikilvægir framkvæmdaþættir í störfum Húsnæðisstofnunar ríkisins séu þess eðlis, að stjórnskipan stofnunarinnar geti ekki fallið beint undir framkvæmdarvaldið og telur Ríkisendurskoðun þá skipan ákjósanlega.``
    Ég vil einnig vitna í álitsgerð Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns en þar finnst mér koma fram mjög athyglisvert sjónarmið þar sem því er haldið fram að hér sé um sjálfstæða stofnun að ræða sem þá heyri undir Alþingi. Þar kemur fram, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir tilhneigingar löggjafans til að fella meðferð stjórnvalds á tilteknu sviði undan valdi ráðherra bera umræður á Alþingi það ekki með sér að þingmönnum sé að fullu ljóst að með því er Alþingi að veikja vald sitt með því að draga úr bæði hinni beinu, lagalegu ábyrgð ráðherra og ekki síður pólitískri ábyrgð hans. Í umræðum á Alþingi virðist ráðherra sæta nákvæmlega eins gagnrýni fyrir þá meðferð stjórnvalds sem heyrir beint undir hann og þá sem undan honum hefur verið tekin. Er e.t.v. rétt að hafa þetta í huga þegar túlkuð er löggjöf um valdamörk ráðherra og einstakra, sérstakra stjórnarstofnana.``
    Við athugun á þessum álitsgjörðum, sem ég hef hér vitnað til, og áliti Ríkisendurskoðunar vaknaði sú spurning hvort ætlað sjálfstæði Húsnæðisstofnunar og þar með ætlað takmarkað vald ráðherra komi heim og saman við þá ábyrgð sem ráðherra er talinn bera á málaflokknum í raun en í umræðum á Alþingi er ráðherra talinn bera ábyrgðina. Þarf varla að fara um það mörgum oðrum hversu mikilvægt er að vald og ábyrgð fylgist að eigi málaflokkur að ganga greiðlega og árekstralaust fyrir sig innan stjórnsýslunnar.
    Til að grannskoða enn frekar þetta mikilvæga málefni, þegar ábendingar Ríkisendurskoðunar komu fram, sendi ég niðurstöðurnar Ragnari Aðalsteinssyni og Lagastofnuninni til athugunar. Í bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 3. nóv. 1988, segir að sú skipan mála sem nú gildir sé óæskileg þar sem ekki er í framkvæmd nógu tryggt að saman fari á einni hendi vald og ábyrgð sem er skilyrði fyrir árangursríkri og skilvirkri stjórnun. Því telur Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að settar séu skýrar reglur sem eyði þeim vafaatriðum sem upp hafa komið varðandi yfirstjórn þessa málaflokks.
    Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var sú að gera þyrfti þær skipulagsbreytingar sem leiddu til þess að yfirstjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins væri alfarið á einni hendi. Þar kæmi tvennt til: Stofnunin heyri beint undir Alþingi og njóti sjálfstæðis gagnvart framkvæmdarvaldinu eða stofnunin heyri beint undir framkvæmdarvaldið. Ríkisendurskoðun rökstyður síðan þá niðurstöðu sína að réttara sé að Húsnæðisstofnun falli beint undir framkvæmdarvaldið enda verði ekki annað séð en að mikilvægir framkvæmdaþættir í störfum stofnunar séu þess eðlis að stjórnskipan stofnunarinnar geti ekki fallið beint undir framkvæmdarvaldið. Ríkisendurskoðun telur slíka skipan ákjósanlega en með því móti yrði ábyrgð á einni hendi.
    Ég er sammála þessu áliti Ríkisendurskoðunar. Óhjákvæmilegt er að vald og ábyrgð séu á einni hendi. Það er forsenda fyrir árangursríkri og skilvirkri stjórnun. Því er lagt til í frv. sem hér er til umræðu að Húsnæðisstofnun falli með beinum hætti undir framkvæmdarvaldið. Stefnumörkun í húsnæðismálum verði ekki í verkahring húsnæðismálastjórnar. Húsnæðismál eru veigamikill þáttur í stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma. Sá ráðherra er fer með þann málaflokk verður að hafa stjórnsýslulegt forræði þeirrar stofnunar sem ætlað er að hrinda í framkvæmd húsnæðisstefnunni. Fáar ef nokkrar ríkisstofnanir njóta þess sjálfstæðis sem Húsnæðisstofnun nýtur.
    Í frv. er því lagt til að fellt sé niður að Húsnæðisstofnun skuli hafa forustu um stefnumótun í húsnæðismálum og til að undirstrika hina stjórnsýslulegu breytingu er lagt til að ákvæði núgildandi laga um deildaskiptingu Húsnæðisstofnunar verði numin úr gildi og að ráðherra ákveði með reglugerð skipulag stofnunarinnar. Með því að deildaskiptingin verður ekki lögbundin verður stjórnunin sveigjanlegri og möguleiki

á að ná fram meiri hagkvæmni í rekstri. Með sveigjanlegri deildaskiptingu er betur hægt að framfylgja nýjum áherslum í húsnæðismálum. Sú breyting sem hér er lögð til varðandi yfirstjórn felur það í sér að húsnæðismálastjórn verður ekki lengur ætlað að marka meginstefnu í málefnum Húsnæðisstofnunar ríkisins og byggingarsjóðanna. Umrædd breyting fæli það í sér að Húsnæðisstofnun mundi starfa í samræmi við þá stefnu sem mörkuð væri af ríkisstjórn og Alþingi á hverjum tíma en ekki eins og nú er samkvæmt stefnu húsnæðismálastjórnar.
    Þrátt fyrir það að Alþingi kjósi sjö af tíu stjórnarmönnum húsnæðismálastjórnar í dag eru áhrif Alþingis á Húsnæðisstofnun nánast eingöngu fólgin í lagasetningu. Þingmenn virðast í reynd líta svo á að félmrh. beri ábyrgð á framkvæmd húsnæðismálastefnunnar á hverjum tíma. Hér er því lagt til að valdamörk ráðherra og húsnæðismálastjórnar verði skýrari en verið hefur. Með hliðsjón af framangreindu og til að eyða vafa og ágreiningi um þessi mál, sem er augljóslega mjög óæskilegur, og til að gera stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar skýra svo ljóst sé hver beri ábyrgð á hverju og að ábyrgð sé á sömu hendi er eftirfarandi lagt til í frumvarpinu:
    Fram komi í lögum að Húsnæðisstofnun ríkisins heyri undir framkvæmdarvaldið. Innra skipulag Húsnæðisstofnunar verði ákveðið með reglugerð. Húsnæðismálastjórn verði öll kjörin af Alþingi og fækkað verði í stjórninni. Nánar verði kveðið á um hlutverk ráðherra og húsnæðismálastjórnar og verkaskiptingu milli þessara aðila. Meiri kröfur verði gerðar til fjárhagsáætlana Húsnæðisstofnunar og þær verði lagðar fyrir ráðherra til samþykktar.
    Í beinu samræmi við það að Húsnæðisstofnun heyrir undir framkvæmdarvaldið er lagt til að fellt verði á brott hið óljósa orðalag núgildandi laga um að Húsnæðisstofnun skuli vera sjálfstæð ríkisstofnun. Aðalatriðið er að um er að ræða ríkisstofnun innan framkvæmdarvaldsins sem lýtur sérstakri þingbundinni stjórn. Þessum atriðum þarf að koma til skila í lögum en forðast óljós og teygjanleg hugtök. Hvað innra skipulag Húsnæðisstofnunar varðar er það í samræmi við hugmyndir manna nú á dögum um skilvirkan rekstur ríkisstofnana að innra skipulag þeirra sé ekki bundið í lög. Nýjar hugmyndir um rekstrarfyrirkomulag eiga erfitt uppdráttar með því móti, svo sem sameining deilda, komið á ákveðnum sviðum í stað deilda o.s.frv.
    Um skipan húsnæðismálastjórnar vil ég segja að jafnfjölmenn stjórn og nú er, tíu manns, er þung í vöfum enda hefur hún gripið til þess ráðs að skipta með sér verkum. Þar sem aukin hagkvæmni í rekstri og greiðleg stjórnsýsla er eitt megineinkenni frv. er lagt til að stjórnarmönnum verði fækkað í fimm og verði allir kosnir af Alþingi. Með því móti haldast áhrif Alþingis á stjórn Húsnæðisstofnunar óbreytt en það er aðalatriðið. Húsnæðisstofnun þjónar öllum landshlutum jafnt og því á kosning í stjórn hennar réttilega heima á Alþingi. Ástæðu þess að Alþýðusamband Íslands og síðar Vinnuveitendasamband Íslands fengu rétt til tilnefningar þekkja allir þingmenn og því óþarft að rekja hana hér. Ég tel að það fyrirkomulag eigi að heyra sögunni til en það var skiljanlegt miðað við forsendur fyrri tíma. Nefni ég sérstaklega þau rök Alþýðusambands Íslands að félagslegt húsnæði skipti fólk í hreyfingunni miklu máli svo og að útlán húsnæðiskerfisins hafi að verulegu leyti verið fjármögnuð með fé úr lífeyrissjóðunum. Einnig þau rök fulltrúa VSÍ að húsnæðismálin varði aðila vinnumarkaðarins.
    Það er að sjálfsögðu laukrétt að húsnæðismálin varða þessa aðila og landsmenn alla. Hvað launþegasamtökin varðar má spyrja hvort önnur fjölmenn samtök, BSRB, eigi ekki með sama hætti rétt til tilnefningar og ASÍ. Formaður BSRB hefur oft áréttað það, síðast í dag, að BSRB fái einnig fulltrúa inn í húsnæðismálastjórn. Við þetta bætist að hin beina tenging lífeyrissjóða landsmanna við fjármögnun húsnæðismála er ekki til staðar eins og var hér áður. Með allt þetta í huga er því lagt til að húsnæðismálastjórn verði skipuð fimm þingkjörnum fulltrúum.
    Með lokun húsnæðislánakerfisins frá 1986 má segja að mikil breyting hafi orðið á hlutverki húsnæðismálastjórnar. Aðilar vinnumarkaðarins hafa því ekki lengur það hlutverk sem þeir áður höfðu í húsnæðismálum. Eins og ég hef áður nefnt er lagt til að hlutverk húsnæðismálastjórnar breytist nokkuð. Hún mun því ekki lengur móta meginstefnu í húsnæðismálum. Stjórnin mun bera ábyrgð gagnvart félmrh. og ríkisstjórn á svipaðan hátt og tryggingaráð gerir gagnvart heilbrrh. og ríkisstjórn. Almannatryggingar getum við líka nefnt sem dæmi um mál sem skipta aðila vinnumarkaðarins ekki síður miklu máli en húsnæðismálin. Ekki hefur þó komið til álita þar að fulltrúar þeirra sætu í tryggingaráði.
    Hlutverk stjórnarinnar verður eftir sem áður að sjá til þess að Húsnæðisstofnun starfi í samræmi við lög og reglugerðir og lagt er til að undirstrikað verði að henni er ætlað að hafa umsjón með fjárhag og rekstri stofnunarinnar.
    Sú fækkun sem hér er lögð til á fjölda húsnæðisstjórnarmanna felur í sér að öll stjórnin, fimm manns, yrði þingkjörin. Með því móti er betur tryggt að stefna stjórnvalda komist í framkvæmd þar sem meiri hluti á Alþingi hlýtur þá að skipa meiri hluta stjórnarinnar. Sú breyting á skipunartíma formanns og varaformanns, að hann verði takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipaði þá, tryggir það enn frekar.
    Þessi fækkun í húsnæðismálastjórn á að tryggja skilvirkari vinnubrögð og jafnframt felur hún í sér ákveðna hagræðingu og sparnað. Um þessar mundir er leitað allra leiða til að spara í rekstri stofnunarinnar og mundi helmingsfækkun í stjórn fela í sér liðlega 1 millj. kr. sparnað á ári. Í tíu manna stjórn þar sem sjö eru kosnir af Alþingi og þrír af aðilum vinnumarkaðarins getur sú staða komið upp að stjórnarflokkarnir á Alþingi séu í minni hluta og formaður jafnvel verið skipaður af fyrrv. félmrh. Hefur þetta ástand iðulega haft í för með sér mikla togstreitu, einkanlega þar sem sjálfstæði stofnunarinnar er mjög verulegt samkvæmt gildandi lögum.
    Þá má minna á að á fundi húsnæðismálastjórnar 1989 var gerð samþykkt vegna frétta og viðtala í sjónvarpi, útvarpi og blöðum. Í þessari samþykkt kemur fram afstaða hennar til stjórnsýslulegrar stöðu Húsnæðisstofnunar en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Húsnæðismálastjórn ber ekki ábyrgð gagnvart ríkisstjórninni í heild. Hún þarf ekki að taka við starfsfyrirmælum frá fagráðherra. Hins vegar hefur hún venjulega upplýsingaskyldu gagnvart honum og Alþingi.`` Síðan kemur það sem mér finnst mjög athyglisvert í þessari samþykkt húsnæðismálastjórnar:
    ,,Ábyrgð einstakra fulltrúa í stjórn Húsnæðisstofnunar er auk allra venjulegra starfsábyrgða stjórnarmanna, fyrirtækja og stofnana fyrst og fremst fólgin í því að tala máli umbjóðenda sinna.``
    Það er álit húsnæðismálastjórnar að það sé fyrst og fremst hennar verk að tala máli umbjóðenda sinna. Þá getur maður spurt: Hvaða umbjóðenda? Er það lífeyrissjóðanna sem hafa fjármagnað húsnæðiskerfið og gera það að hluta til núna? Þeirra hagsmunir eru að halda uppi sem bestri ávöxtun á sínu lánsfé og því að fá sem hagstæðust kjör við Húsnæðisstofnun. Eða eru það að gæta þess að umbjóðendurnir, þ.e. lántakendurnir, hafi sem hagstæðust lánakjör á hverjum tíma? Þessir hagsmunir hljóta að rekast á og því getur verið um hagsmunaárekstra að ræða, t.d. varðandi vaxtaákvæði inn- og útlána sem ég hef hér nefnt.
    Ég hef nefnt að aðilar vinnumarkaðarins eiga ekki sæti í tryggingaráði og mætti þó e.t.v. segja að þá varðaði ekki síður um almannatryggingar en húsnæðismál. Þannig er háttað um fjölmarga málaflokka sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt mikinn áhuga að þeir eiga ekki endilega sæti í stjórnum og ráðum sem fjalla um þá málaflokka.
    Alþingi verður hins vegar að gera það upp við sig hvort það ætlar að hafa skipun þýðingarmikilla stjórna sem sitt verkefni eða fela það öðrum. Ég tel tvímælalaust að Alþingi eigi eitt að skipa húsnæðismálastjórn og tala þar af nokkurri reynslu. Tugir milljarða streyma í gegnum húsnæðiskerfið árlega og ég tel að enda þótt aðilar vinnumarkaðarins geti gefið mjög góð ráð í því sambandi eigi þeir ekki beint að úthluta þeim fjármunum sem veittir eru í húsnæðismálin. Alþingi sjálft verður með vali á fulltrúum í stjórn Húsnæðisstofnunar að stuðla að því að stjórnin geti rækt það hlutverk sem lagt er til í þessu frv. Hlutverkið yrði nokkuð breytt og umfangsminna og því er umrædd fækkun eðlileg.
    Skal nú vikið að þeim þáttum frv. sem lúta að afnámi skyldusparnaðar og að tækni- og þjónustudeildin verði lögð niður.
    Eins og greint er frá í frv. hefur um nokkurt skeið verið til íhugunar hvort rétt sé nú á dögum að viðhalda skyldusparnaði ungs fólks á vegum Byggingarsjóðs ríkisins. Tvö meginatriði sýna fram á að tími skyldusparnaðarins í núverandi mynd sé liðinn.
    1. Breyttir þjóðfélagshættir, bæði breyttar aðstæður hjá ungu fólki eins og bent er á í frv., og nýir siðir í sparnaði, en nú bjóðast fjölmargir möguleikar á frjálsum sparnaði.
    2. Gerbreytt verkefni Byggingarsjóðs ríkisins með húsbréf sem meginhlutverk en af því leiðir að sjóðurinn þarf ekki lengur á þeim tekjustofni að halda sem innlánum sem skyldusparnaði var ætlað að vera. Við þetta bætist að síðarnefnt hlutverk skyldusparnaðarins, að þjóna sem tekjustofn, hefur ekki náð markmiði sínu þar sem útþensla er mikil vegna undanþáguákvæða sem nú gilda en þau leiða aftur til mikillar vinnu og umstangs við vandmeðfarin matsatriði. Nú liggja a.m.k. 15 ársstörf að baki umsýslu skyldusparnaðarins, bæði hjá Húsnæðisstofnun og veðdeild með tilheyrandi rekstrar- og tölvukostnaði. Kostnaður vegna skyldusparnaðarins er talinn nema a.m.k. 50 millj. kr. hjá Húsnæðisstofnun og veðdeild og jafnvel mun hærri upphæð.
    Þegar öll framangreind atriði eru metin í heild sinni er því ljóst að bæði efnisrök og sparnaðarrök mæla með því að brugðist sé við því í lögum að skyldusparnaður ungmenna heyri sögunni til, a.m.k. í núverandi mynd. Á undanförnum árum hefur hann verið neikvæður, þ.e. meira farið út en inn hefur komið. Sá munur hefði numið 307 millj. á næsta ári að óbreyttum lögum.
    Hvað stöðu á skyldusparnaðarreikningum viðvíkur skal tekið fram að í árslok 1991 nam innstæðan á 69 þús. skyldusparnaðarreikningum 4,1 milljarði kr. Meðalinnstæða á reikningi nam tæpum 60 þús. kr. Einungis 1.918 sparendur áttu meira en hálfa milljón. Á því ári námu innborganir liðlega 2 milljörðum kr. en útgreiðslur 2.245 millj. kr. Af útgreiðslum voru 605 millj. vegna íbúðakaupa, 370 millj. vegna aldurs en 1.270 millj. vegna undanþága. Einungis 605 millj. af 2.245 fóru því til íbúðarkaupa.
    Leitast er við í frv. þessu að sá tími sem fylgir afnámi skyldusparnaðarins verði sem sársaukaminnstur, bæði fyrir eigendur skyldusparnaðarins og Byggingarsjóð ríkisins. Þannig verði beitt allri mögulegri sanngirni við útgreiðslur til eigenda, en þess jafnframt gætt að útstreymi fjár úr sjóðnum verði sem jafnast. Lagt er til að marki þessu verði náð með því að lægstu innstæðurnar verði greiddar á fyrstu sex mánuðum eftir gildistöku laganna. Hærri innstæður verði síðan greiddar eftir því sem eigendur innstæðna uppfylla bein skilyrði til útgreiðslu en útgreiðslum vegna matskenndra undanþága verði sleppt. Lokagreiðslur fari síðan fram árið 2000.
    Varðandi það hvort rétt sé að taka upp annað skyldusparnaðarform en nú er hugmyndin að leggja niður samkvæmt þessu frv., þá er það til sérstakrar skoðunar, bæði hjá félmrn. og húsnæðismálastjórn.

    Mun ég nú í lokin, virðulegi forseti, víkja að hönnunar- og tæknideild. Röksemdir fyrir því að leggja til að hönnunardeildin verði lögð niður eru í stórum dráttum þrenns konar. Í fyrsta lagi þykir ekki lengur eiga við að ríkisstofnun reki verkfræði- og tæknistofu. Í öðru lagi að raunverulegur halli af rekstri deildarinnar er verulegur og í þriðja lagi er það í samræmi við eitt megininntak frv. um aukna skilvirkni í rekstri Húsnæðisstofnunar að deildaskipting þess verði ekki rígbundin í lögum heldur verði hún sveigjanleg eftir því sem hagkvæmast þykir hverju sinni. Fyrstnefnda atriðið liggur nokkuð í augum uppi miðað við nútímaaðstæður. Nú eru allt aðrir tímar en þegar hönnunardeildin hóf starfsemi sína, enda nú fjölbreytt framboð af þjónustu arkitekta og verkfræðinga. Jafnframt hafa komið fram nýjar hugmyndir um það hvaða verkefni falli að þjónustu ríkisins og hver eigi betur heima hjá einkaaðilum. Auk þessa er fólgin í því mótsögn að íbúðir séu hannaðar og teiknaðar á vegum Húsnæðisstofnunar, þar sem það er og verður áfram á vegum stofnunarinnar að hafa eftirlit með byggingu félagslegra íbúða. Þannig hefur Húsnæðisstofnun haft eftirlit með sjálfri sér þegar um félagslegar íbúðir er að ræða.
    Í annan stað varðandi kostnaðarhliðina kemur í ljós að deildin hefur um langt árabil verið rekin með halla. Á árinu 1991 voru unnin í deildinni um 8 ársverk auk 5.300 yfirvinnutíma. Samkvæmt drögum að rekstrarreikningi 1991 var rekstrarkostnaður deildarinnar liðlega 37 millj. kr. Þar af nam launakostnaður tæplega 19 millj. kr. og greiðslur til verktaka liðlega 10 millj. kr. Tekjur deildarinnar voru 29 millj. kr., þar af 5--6 millj. kr. vegna þjónustu við byggingarsjóðina og aðrar deildir Húsnæðisstofnunar. Rekstrarhalli var 8,1 millj. og er því verulegur.
    Hvað þriðja atriðið varðar vísast til þess sem um greinir í athugasemd við 2. gr. frv.
    Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að þetta frv. nái fram að ganga fyrir jólaleyfi þingmanna þar sem ákvæði þessa frv. tengjast þeim sparnaði sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., m.a. vegna breytinga á skyldusparnaði og hönnunardeild.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.