Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 16:53:27 (3383)

     Svavar Gestsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði fyrr í dag farið yfir nokkur efnisatriði frv. sem ég taldi óhjákvæmilegt að glöggva mig betur á áður en málið færi til nefndar. Ég vil rifja það upp með örfáum orðum. Það var sem sagt í fyrsta lagi það að ég taldi að í frv. væri gert ráð fyrir almennum skattlagningarheimildum með reglugerðum. Það er mjög óvenjulegt að menn geti ákveðið gjöld án viðmiðana við nokkurn hlut, bara með reglugerð. Ég hygg að þetta sé ekki aðeins óvenjulegt heldur óheimilt. Nú fyrir nokkru vorum við, ég og hæstv. heilbrrh. og hv. 1. þm. Norðurl. e., staddir á virðulegri samkomu hér í bæ. Þar var sagt frá því þegar í fyrsta sinn voru ákveðnir taxtar fyrir röntgengreiningu á Íslandi. Þá voru þeir ákveðnir með þeim hætti að ráðherra gæti ráðið hvernig þeir hreyfðust innan tiltekinna marka en þó mættu þeir aldrei verða hærri en helmingurinn af samsvarandi töxtum í Danmörku. Alveg frá upphafi vega, þegar menn hafa verið að verðleggja heilbrigðisþjónustu, hafa menn miðað við einhverja tiltekna hluti. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það eru ekki óeðlilega rúmar heimildir af hálfu ráðherra að geta sett reglugerðir um þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði og sérfræðikostnaði og fleira án nokkurra viðmiðana eins og hér er gert ráð fyrir.
    Jafnframt hafði ég rætt nokkuð um meðlagsfólkið sérstaklega, meðlagsgreiðslurnar, og ég hafði rætt um hin mörgu aukaskattþrep sem felast í frv. eins og það lítur út. Enn fremur hafði ég rætt um lyfjaverðið og taldi mig hafa sýnt fram á það að í raun væru tölur Alþýðusambandsins, sem hér voru nokkurt deiluefni milli mín og hæstv. heilbrrh. í fyrrakvöld, í grófum dráttum réttar miðað við þau áform sem nú eru í heilbrrn. um viðmiðunargreiðslu fyrir alla þá sem fá lyf og greiða eitthvað fyrir þau. Auðvitað verða einhverjir sem að sjálfsögðu munu fá lyf ókeypis.
    Ég vil enn fremur rifja það upp að síðustu úr fyrri hluta ræðu minnar, virðulegi forseti, að mér taldist svo til að í frv. væri gert ráð fyrir niðurskurði upp á 1.544 millj. kr. alls. Þar af væru 250 millj. kr. í nýjan niðurskurð og 1.294 millj. kr. sem væri í raun upp úr fjárlögunum eins og þau líta út.
    Í umræðum um þetta mál í fyrrakvöld, virðulegi forseti, kom það fram hjá hæstv. heilbrrh. og hefur reyndar heyrst frá honum áður að undanförnu að í rauninni hefði náðst mjög mikill árangur eins og það er kallað í niðurskurði í heilbrigðismálum og að þrátt fyrir það hefði orðið gríðarleg afkastaaukning í heilbrigðiskerfinu. Ég vil segja það að ég dreg þessar fullyrðingar hæstv. ráðherra í efa. Ég trúi því ekki að þessar fullyrðingar hæstv. heilbrrh. séu alveg réttar. Ég bendi á í því sambandi að hv. 1. þm. Norðurl. e., fyrrv. hæstv. heilbrrh., rakti í gær mjög athyglisverðar tölur um biðlista eftir bæklunaraðgerðum á þessu ári. Á þessu ári hafa aðgerðir þær sem ríkisstjórnin hefur gripið til verið verið að skila mestum breytingum. Hver er niðurstaðan? Styttast biðlistarnir eins og hæstv. heilbrrh. lét að liggja hér? Eru þeir að styttast? Nei, biðlistarnir eru að lengjast. Ef við tökum tímabilið apríl til september 1992 þá fjölgar á biðlistum eftir bæklunaraðgerðum um 26 manns, eða um 3,4%. Í september voru á biðlistum eftir bæklunaraðgerðum samkvæmt skrá landlæknis 783. Á biðlista eftir hjartaskurðlækningum voru 68 manns í september, hafði fjölgað um 5 frá í apríl. Fjölgunin er 8%. Á biðlista eftir háls-, nef- og eyrnaaðgerðum voru 837, hafði fjölgað um 25 frá í apríl eða um 3%. Á biðlistum eftir þvagfæraskurðlækningum voru 560 manns í september, hafði fjölgað úr 513 frá í apríl eða um 46 manns, það er 9% fjölgun. Á biðlistum eftir hjartaþræðingum voru 139 einstaklingar í september, 107 í apríl. Þá hafði þeim fjölgað verulega eða um u.þ.b. 30%. Á biðlistum eftir endurhæfingu voru 455 manns í september og hafði fjölgað um tæplega 2% frá aprílmánuði. Ég endurtek að þetta eru tölur frá landlækni. Mér finnst þessar tölur benda til þess að yfirlýsingar hæstv. heilbrrh. um afkastaaukningu heilbrigðiskerfisins í heild geti ekki verið réttar. Ég dreg þær í efa, ég trúi þeim ekki og auðvitað hefur það líka komið fyrir áður að hæstv. núv. heilbrrh. hefur sett fram tölur, tölulegar fullyrðingar um eitt og annað, m.a. um starfsemi stofnana, sem síðan hafa ekki staðist. Í því sambandi er ástæðulaust að rifja upp t.d. ummæli hans varðandi einstakar sjúkrastofnanir, Kristneshæli og fleiri slíkar sem þó væri hægt að gera ef tilefni væri til. Ég vil því segja það, virðulegi forseti, ég dreg það stórkostlega í efa að þessar tölur hæstv. heilbrrh. séu réttar.
    Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, þá var ástæða þess að umræða þessi frestaðist sú að við þurftum að bregða okkur aðeins frá til að vera viðstaddir ársfund Ríkisspítalanna sem eru stærsta heilbrigðisstofnun landsins og að mörgu leyti ein allra merkasta heilbrigðisstofnun þjóðarinnar. Ég hef stundum orðað það þannig að Ríkisspítalarnir eru eins og hjartað í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Hér er um að ræða stofnun þar sem þúsundir manna vinna og enn þá fleiri þúsundir fólks fá þjónustu og var gaman að vera viðstaddur þennan ársfund Ríkisspítalanna.
    Á ársfundi Ríkisspítalanna flutti hæstv. núv. heilbrrh. merkilegt ávarp þar sem hann sagði m.a. frá því að hann væri að athuga það hvort hægt væri að fjölga bráðavöktum á Ríkisspítölunum og ég fagna þeirri yfirlýsingu sérstaklega. Reyndar nefndi hann fleiri þætti sem mér fannst benda til þess að hæstv. heilbrrh. hefði ýmislegt lært jákvætt á því ári sem liðið er frá því að hann tók við störfum og mér liggur við að segja að það hefði getað sparað verulegar þjáningar hjá fólki, kannski einkum og sér í lagi andlegar hjá þeim sem starfa á sjúkrastofnunum ef hann hefði kunnað það, sem hann hafði lært nú, þegar hann byrjaði í starfi. En það var ekki frá því sem ég ætlaði að segja, heldur að hæstv. heilbrrh. sagði í upphafi ræðu sinnar mjög skemmtilega sögu. Þar vitnaði hann til forvera okkar hér nokkurra, hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar.
    Ein uppáhaldssaga hans, sagði hæstv. heilbrrh., væri um bónda nokkurn vestur við Djúp sem átti forláta hrút. Hrúturinn var hins vegar kominn nokkuð til ára sinna og gat þess vegna ekki sinnt þeim verkum sem honum voru ætluð. Það kom ekki fram hjá hæstv. heilbrrh. hver þau verk voru, sem hrútnum voru sérstaklega ætluð, en það var bersýnilegt af sögu hæstv. ráðherra að það var kominn tími til þess að grípa til róttækra aðgerða og þess vegna var ákveðið á heimilinu að skjóta hrútinn. Í því skyni ákváðu eigandinn og synir hans að stytta líf gripsins með því að nota kindabyssu og þeir settu kindbyssuna á krúnuna á hrútnum á milli hornanna og hleyptu af og hrúturinn stóð og ekkert gekk. Þá sagði karlinn: ,,Skjóttu aftur.`` Strákurinn hlóð kindabyssuna aftur og skaut og ekkert gekk. Hrúturinn stóð því að krúnan var orðin svo þykk, hrúturinn var gamall og var orðin þétt skelin á milli hornanna eins og margir hv. þm. þekkja að getur orðið með gamla hrúta og einkum og sér í lagi hinn virðulegi hæstv. forseti þessarar stofnunar í dag.
     Nú voru góð ráð dýr, og hvað sagði þá bóndinn við syni sína? Hann sagði: ,,Við skulum hætta þessu í dag, strákar mínir. Fáum okkur kaffi, förum inn, látum hrútinn inn í fjárhús, geymum hann þar til morguns og byrjum að skjóta aftur í fyrramálið.``
    Hæstv. heilbrrh. sagðist segja þessa sögu vegna þess að við, ég og hv. þm. Guðmundur Bjarnason, værum eins og strákarnir og karlinn, við vildum skjóta hrútinn en hæstv. heilbrrh. sagðist vera hrúturinn. Hann sagðist vera með þykka krúnu og ég dreg það ekkert í efa og hann er líka hyrndur þegar hann vill svo við hafa. Hins vegar sagði hæstv. heilbrrh. ekki frá tvennu: Í fyrsta lagi því: Af hverju var ákveðið að skjóta hrútinn, hvaða brýnu nauðsynjaverk það voru, sem hrúturinn gat ekki sinnt, og varð þess vegna að falla? Ég skildi hæstv. ráðherra ekki svo að hann væri að líkja sér við hrútinn að þessu leytinu til. Að hinu leytinu sagði hann ekki frá því hvað hefði svo orðið um hrútinn að lokum. En ég skildi ráðherrann svo að að lokum hefði þeim skotmönnum tekist að vinna á krúnunni á hrútnum. Það mun okkur hv. 1. þm. Norðurl. e. einnig takast, virðulegi forseti.