Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 17:24:35 (3386)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mér var að berast ályktun stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga vegna efnahagsráðstafana ríkisstjórnarinnar og alvarlegra áhrifa þeirra á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á næsta ári. Mig langar til að lesa úr þessu bréfi valinn kafla sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Jöfnunarsjóður sveitarfélaga ber ábyrgð á greiðslum vegna vanskila barnsmeðlaga. Verði frv. til laga um breytingu á lögum nr. 67/1971 samþykkt má ætla að greiðslur Jöfnunarsjóðsins til Innheimtustofnunar sveitarfélaga hækki á næsta ári um 300--350 millj. kr. samkvæmt mati stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Framlög sjóðsins til jöfnunarframlaga sveitarfélaga munu því lækka um sömu upphæð miðað við reglur sjóðsins. Skerðingin mundi því einungis bitna á þeim sveitarfélögum sem ekki ná meðaltekjum sambærilegra sveitarfélaga og þeim sem skortir tekjur til að halda uppi eðlilegri þjónustu. Afleiðingarnar yrðu því mjög alvarlegar fyrir tekjulægstu og verst settu sveitarfélögin á landsbyggðinni. Með

ólíkindum er að ríkisstjórnin skuli standa að slíkum aðgerðum þvert ofan í undirritað samkomulag Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar um náið samráð ef fram koma tillögur um verulegar breytingar á fjármálalegum samskiptum aðila.``
    Enn fremur segir í lok ályktunarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Í ofangreindum áformum felast afdrifaríkar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem ákveðnar eru einhliða af ríkisstjórninni og án alls samráðs við Samband ísl. sveitarfélaga.``
    Í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga frá 10. okt. sl. segir m.a:
    ,,Aðilar eru sammála um að framvegis verði tillögur um meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem kveður á um í lögum eða gert hefur verið sérstakt samkomulag um teknar til umfjöllunar í sérstakri samráðsnefnd þeirra. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar ganga þvert á nýgert samkomulag. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga krefst þess að ríkisstjórnin hverfi frá öllum áformum um að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Mikilvægt er að hann geti áfram og óskertur gegnt sínu þýðingarmikla jöfnunarhlutverki. Nú þegar er óskað eftir formlegum viðræðum við ríkisstjórnina um þessi mál.``
    Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin hyggist verða við þessari ósk um að ræða við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta mál.
    Með þessari ályktun fylgir yfirlitsblað frá formanni stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga og er stílað á stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga þar sem gerð er grein fyrir áhrifum þess frv., sem hér er verið að ræða, á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar kemur fram að á þessu ári er áætlað að meðlagskröfur verði 1 milljarður 110 millj. 755 þús. og inn komið og skilað til síðustu mánaðamóta voru 766 millj. 317 þús. Áætlað er að 80 millj. verði innheimtar í desember þannig að mismunur sem sóttur er í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er áætlaður á þessu ári 264 millj. 438 þús.
    Á næsta ári, 1993, er eftirfarandi áætlun samkvæmt frv. að meðlagskröfur með 50% hækkun verði 1 milljarður 666 þús. kr. Áætluð skil með 20% aukinni innheimtu eru 1 milljarður 69 þús. Því er áætlað að sótt verði í Jöfnunarsjóð á næsta ári 597 millj. kr.
    Enn fremur kemur eftirfarandi fram í þessu bréfi, með leyfi forseta: ,,Stjórn Innheimtustofnunar ræddi nýlega og gaf umsögn um frumvarp Kvennalistans nr. 552 um hækkun meðlags. Stjórnin taldi þá að það yrði flestum ofviða að taka á sig frekari hækkun meðlaga og sagði orðrétt í umsögn sinni: ,,Með skírskotun til þeirra erfiðleika sem margir foreldrar eiga í við að standa í skilum við endurgreiðslu meðlaga með börnum sínum, svo sem þeir eru með börn á framfæri á heimilum sínum og njóta lágra launa, treystir stofnunin sér ekki til að mæla með hækkun meðlaga. Rétt er að benda á að margir af viðskiptavinum Innheimtustofnunar eru ekki fjáðir og hefur stofnunin orðið að beita mjög hörðum aðgerðum til innheimtu. Á þessu ári hafa verið framkvæmd um 1.300 fjárnám og stjórn hafa borist um 800 erindi frá meðlagsgreiðendum sem eru af báðum kynjum þó karlar séu þar í miklum meiri hluta.````
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram inn í umræðuna.