Umræða um Evrópskt efnahagssvæði

80. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 13:08:34 (3396)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Forseti hefur gert grein fyrir því hvernig forseti hyggst haga störfum en ekki svarað þeirri spurningu hvers vegna þetta mál er sett á dagskrá svo það er óhjákvæmilegt að halda áfram með þá spurningu og fá skýringar.
    Hér segir ráðherrann sem svar við spurningu Ingimars: ,,Já, það er vegna þess að ef við ekki gerum það þá fáum við ekki aðild að framhaldi málsins. Það er gert ráð fyrir því í EES-samningnum sjálfum, í bókun við 129 gr., hvernig við bregðumst við ef eitt landið heltist úr lestinni. Viðbrögðin eru þau að hin ríkin sem hafa fullgildingarumboð koma saman á ríkjaráðstefnu til þess að koma sér saman um þær tillögur tæknibreytingar.`` ( Forseti: Má forseti biðja hv. þm. að halda sig við gæslu þingskapa?)
    Herra forseti. Ég er með beinar ádeilur á forsetann. Það er grundvallaratriði þegar menn mæla hér til þess að ræða um gæslu þingskapa að þeir snúi sér að forsetanum. Skilur hæstv. forseti ekki að það er verið að ræða um dagskrá sem er á fundinum í dag? Ég skil ekki svona athugasemdir. Hér er ráðherrann spurður beint hvers vegna -- og ég vil lesa upp seinustu fullyrðinguna: ,,Það er beinlínis kveðið á um það í bókun með samningnum?`` spyr Ingimar. Hæstv. utanrrh. Jón Baldvin svarar: ,,Já.``
    Daginn eftir lýsir Ingimar því yfir að hann finni þessum orðum ráðherrans ekki stað í greininni. Hann ber það á ráðherrann í Ríkisútvarpinu að hann segi ósatt. Og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vekur athygli á því úr þessum ræðustól að fullyrðingar ráðherrans um formsatriði eru alrangar. Samt leyfir forsetinn sér að setja þetta mál á dagskrá -- sem er fallið og var fellt úti í Sviss.