Umræða um Evrópskt efnahagssvæði

80. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 13:15:36 (3402)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég sótti þennan fund í gær sem er verið að vitna til í orðum hv. tveggja síðustu ræðumanna og ég held að það sé ekki tilefni til stórra orða út af því. Það er alveg ljóst og kom fram á þeim fundi að af hálfu stjórnarandstöðunnar væri ekkert samkomulag um að hefja 2. umr. um þetta mál í dag. Jafnframt var tekið fram af okkar hálfu að búast mætti við því að því yrði mótmælt að þetta mál yrði sett á dagskrá. Um það atriði var því ekki samið. Hins vegar vissum við af þeim áformum forseta að haga dagskrártilhöguninni með þessum hætti. En það var ekki í okkar valdi að ráða því til lykta eða semja um það. Vilji okkar stóð ekki til þess.
    Hins vegar er það rétt sem hv. 8. þm. Reykv. segir að forseti lýsti áformum um þessa tilhögun fundahalda en það var oftúlkun í máli hv. 8. þm. Reykv. að segja að stjórnarandstaðan hefði þar með samið um að 2. umr. kæmi á dagskrá. Það er ekki rétt og alveg nauðsynlegt að það komi hér fram.
    Ég hygg þó að um eitt atriði séu menn sammála, að eðlilegt sé að byrja þetta dagsverk á fundahöldum þingflokkanna og því fari best á að snúa sér að því.