Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 14:37:55 (3406)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Utanríkisviðskiptaráðherrar Efta-ríkjanna funduðu í Genf 10. og 11. des. Á fundinum gaf svissneski utanríkisviðskiptaráðherrann Jean-Pascal Delamuraz yfirlýsingu um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss þann 6. des. sl. en niðurstöður hennar leiða til þess að Sviss mun ekki taka þátt í samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Niðurstöður fundarins má draga saman í fimm meginatriðum:
    1. Ráðherrar EFTA-ríkjanna eru sammála um þann einarða ásetning sinn að samningurinn taki gildi eins skjótt og unnt er á fyrri hluta ársins 1993.
    2. Að það sé afar mikilvægt að ljúka án tafar staðfestingu samningsins.
    3. Að samkomulag takist hið fyrsta um hvaða tæknilegar breytingar þurfi að gera á samningnum.
    4. Að tillaga að viðbótarbókun við samninginn, sem innihaldi þessar tæknilegu breytingar, verði tilbúin snemma í janúar 1993.
    5. Að unnt verði að samþykkja þessa viðbótarbókun á ráðstefnu stjórnarerindreka sem haldin verði strax þar á eftir.
    Þetta eru meginniðurstöðurnar, virðulegi forseti, og þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að í EES-samningnum, nánar tiltekið í samþykktum við 129. gr., var raunverulega stafað hvernig við skyldi brugðist í slíku tilviki, þ.e. ef eitthvert eitt ríki fullgildir ekki samninginn þá skulu hinir samningsaðilarnir boða til ráðstefnu stjórnarerindreka, meta áhrif fráviks frá fullgildingu samningsins, kanna möguleika á að samþykkt verði bókun um breytingar sem verða --- með fyrirvara um meðferð innan lands --- og að slík ráðstefna skuli haldin jafnskjótt og ljóst er að einhver samningsaðili mun ekki fullgilda, í síðasta lagi ef dagsetning gildistöku samningsins er ekki virt. Niðurstöður ráðherra EFTA-ríkjanna eru því í samræmi við þessa verklýsingu á því hvernig við skuli brugðist.
    Örfá orð um hvert einstakt atriði. Í fyrsta lagi eru ráðherrarnir sammála um þann einarða pólitíska ásetning ríkisstjórna landanna að samningurinn taki gildi eins skjótt og unnt er á fyrri hluta ársins 1993. Um það þarf ekki að fjölyrða.

    Í öðru lagi er afar mikilvægt að ljúka án tafar staðfestingu samningsins. Um þetta atriði er rétt að taka fram eftirfarandi: Öll hin EFTA-ríkin, þar með talin Sviss og Liechtenstein, hafa þegar lokið staðfestingu samningsins á sínum þjóðþingum. Austurríki hefur þegar afhent fullgildingarskjöl sín. Forseti Finnlands undirritaði samninginn fyrir hönd finnskra stjórnvalda á föstudaginn og utanríkisviðskiptaráðherra Finna sagði að í framhaldi af því yrðu fullgildingarskjöl afhent af þeirra hálfu fljótlega. Því var lýst yfir af hálfu ráðherra Svíþjóðar og Noregs að í framhaldi af staðfestingu þinga þar, sem er löngu lokið, verði fullgildingarskjölin afhent fljótlega.
    Þetta þýðir að Ísland er eina landið í hópi EFTA-ríkjanna sem ekki hefur lokið þinglegri umfjöllun málsins. Þessi áskorun um að mikilvægt sé að ljúka án tafar staðfestingu samningsins á því eingöngu við um Ísland.
    Þriðja atriðið er að athugun hefjist þegar í stað á því hvaða tæknilegar breytingar þurfi að gera á samningnum. Um þetta er það að segja að svokölluð laganefnd EFTA hafði þegar komið saman í framhaldi af úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss og lagði fram á fundinum greinargerð um það hvaða tæknileg atriði það væru sem þyrfti að skrá í hina fyrirhuguðu viðbótarbókun. Þar er vitnað til samþykktarinnar um hvernig við skuli brugðist í framhaldi af 129. gr., sem ég vitnaði til áðan. Eftirfarandi atriði eru grundvallarþættir slíkrar viðbótarbókunar:
    Í fyrsta lagi að EES-samkomulagið skuli gilda milli undirritunaraðilanna. Í annan stað að öll ákvæði sem varða Sviss skuli ekki vera virk. Í þriðja lagi að tilvísanir í dagsetningu gildistöku, þ.e. 1. jan. 1993, skuli breytast. Í fjórða lagi ef bókun 38 varðandi sjóðinn komi til samninga þannig að hún breytist þá verði kveðið á um þær niðurstöður. Og í fimmta lagi verði nýtt ákvæði um gildistöku. Sama máli gegnir að því er varðar tæknilegar breytingar í kjölfar brotthvarfs Sviss í innbyrðis samningum EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun, dómstól og fastanefnd. Af hálfu EFTA liggja því fyrir tillögur um það hverjar skuli vera þessar tæknilegu breytingar sem koma eigi í viðbótarbókun.
    Fjórða atriðið er að þessi viðbótarbókun skuli vera tilbúin snemma í janúar 1993. Um það er það að segja að þegar hefur verið ákveðið að fyrsti sameiginlegi fundur EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins verður næsta mánudag. Ef samkomulag er milli aðila um þessa leið og inntak þessarar viðbótarbókunar þá má ætla að framhaldið verði tiltölulega auðsótt að því er varðar þá tímatöf sem fyrirsjáanleg er. Ég geri þó ekki ráð fyrir því að málinu ljúki á þeim fundi og fyrirhugaður er ráðherraráðsfundur Evrópubandalagsins 21. des. þar sem búast má við því að afstaða Evrópubandalagsins liggi ljós fyrir.
    Um þetta er þó það að segja að með þessum samþykktum er afstaða EFTA-ríkjanna alveg skýr. Hver er þá afstaða Evrópubandalagsins? Á þessari stundu vitum við það eitt að utanríkisráðherra framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, Andriessen, hefur í fréttayfirlýsingum sagt að hann telji ástæðulaust að hefja nýjar samningaviðræður er taki til efnislegra þátta. Hann hefur jafnframt sagt að hann telji eðlilegt að því er varðar þróunarsjóðinn að upphæð í sjóðinn lækki sem samsvarar framlagi Sviss. Ef þetta verður staðfest niðurstaða Evrópubandalagsins þá mun tímatöfin verða lágmörkuð því þá virðist vera samkomulag um efnisatriðin.
    Á hitt er svo að líta að af hálfu eins Evrópubandalagsríkis, Spánar, hefur því sjónarmiði verið lýst að Evrópubandalagið eigi að gera kröfu um að hin EFTA-ríkin deili með sér kostnaði sem samsvarar til framlags Sviss. Þetta mál er því í óvissu, a.m.k. fram að ráðherraráðsfundinum 21. des.
    Fimmta atriðið er varðar niðurstöður okkar EFTA-ríkjanna var að við viljum stefna að því að samþykkja þessa viðbótarbókun á ríkjaráðstefnu sem haldin verði strax eftir að þetta samkomulag hefur tekist.
    Þetta eru niðurstöður fundarins, virðulegi forseti. Það er kannski ástæða til að rifja upp að ekkert í þessum niðurstöðum þarf að koma á óvart því að í raun og veru er þetta í samræmi við samþykktina við 129. gr. sem lýsir því hvernig á skuli halda í slíkum tilvikum.
    Niðurstöðurnar virðast því vera þessar: Af hálfu EFTA-ríkjanna er stefnt að því að gera engar breytingar á efnisatriðum samningsins. Hin EFTA-ríkin hafa öll þegar samþykkt samninginn. Sérstaka athygli vekur að forseti Finnlands hefur í gær, eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss, staðfest samninginn. Það staðfestir að Finnar telja ekki þörf á að breyta neinu þrátt fyrir að úrslitin liggja fyrir í Sviss. Hin EFTA-ríkin hafa öll gengið frá þessu. Ísland er eitt eftir. Samkvæmt þessum niðurstöðum erum við sammála um að engu þjóðþinga EFTA-ríkjanna sé neitt að vanbúnaði að ganga frá samþykktinni, sérstaklega í ljósi þess að formlega séð er staðfestingarfrumvarpið sem liggur fyrir Alþingi Íslendinga með þeim hætti að í 1. gr. er kveðið á um heimild til ríkisstjórnar til fullgildingar. En hin ákvæðin, þ.e. fullgildingin sjálf, ganga ekki í gildi við það eitt heldur síðar þegar allir aðilar hafa afhent sín fullgildingarskjöl.
    Þess má geta að sá er munur á annars vegar EFTA-hliðinni og EB-hliðinni að EFTA megin eru það EFTA-ríkin sjálf sem eru samningsaðilar að því er varðar framhald málsins en EB megin framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins.
    Ég vil þá víkja að tveimur spurningum, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hefur verið spurt í ljósi þess að Ísland er seinast EFTA-ríkjanna til að staðfesta samninginn: Gætum við núna gert þegar breytingar á þeim lagatexta sem fyrir liggur með það að markmiði að taka inn þessar tæknilegu breytingar sem hér er

lagt til að verði gerðar og sparað þinginu tíma þannig að það þyrfti ekki að koma til kasta Alþingis síðar?
    Þá spyr maður: Hvaða breytingar ættu menn að framkvæma nú? Þar er ekki aðeins um að ræða tillögur EFTA-ríkjanna þótt samstaða sé um þær þeirra í milli heldur sameiginlega niðurstöðu ríkjaráðstefnu EFTA- og Evrópubandalagsríkja sem haldin verður síðar. Mér sýnist þess vegna, þótt eðlilegt sé að þetta mál sé skoðað vandlega, að það geti ekki orðið nú heldur séum við í þeirri stöðu að svara einfaldlega þeirri spurningu: Ætlum við að staðfesta þennan samning eins og hann liggur fyrir, eins og hann hefur verið samþykktur og staðfestur af öðrum EFTA-ríkjum?
    Hin spurningin er þá þessi: Þegar boðað er til ríkjaráðstefnunnar er þá verið að ganga þar frá bókun sem í kjarna málsins er um að lýsa því að ákvæði samningsins, eins og þau liggja fyrir, gildi ekki að því er varðar Sviss? Í annan stað að því er varðar Liechtenstein, þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram núna á sunnudaginn og flestir sem hafa tjáð sig virðast gera ráð fyrir því að úrslitin verði þar á sömu lund og í Sviss, mundi þá í þessari bókun einnig vera ákvæði sem tæki fram að ákvæði sem vísa til Liechtenstein séu ógild eða óvirk?
    Þá er spurningin sem varðar Íslendinga EFTA-megin. Þegar komið verður til þessarar ríkjaráðstefnu, hvort sem það verður fyrr eða síðar, hvað á þá að segja um Ísland? Hver er afstaða Alþingis Íslendinga? Ætlumst við til þess að bandalagsþjóðir okkar, sem hafa gengið frá málinu að fullu og öllu, verði þar í einhverri óvissu? Eða vill Alþingi Íslendinga kveða upp úr um það að íslensk stjórnvöld hafi fullt umboð um framhald málsins?
    Þetta er að sjálfsögðu spurning sem varðar bæði okkur og samstarfsaðila okkar í EFTA. Vegna þess að enginn getur svarað spurningunni um afstöðu Íslands annar en Alþingi Íslendinga. ( Gripið fram í: Nú? Þú ert löngu búinn að því.) Ég endurtek, það getur enginn svarað um afstöðu Íslands annar en Alþingi Íslendinga en menn geta haft á því ýmsar skoðanir, virðulegi forseti. Það er rétt að það komi hér fram að óvissan um framtíð málsins að því er varðar EFTA-ríkin snýst auðvitað fyrst og fremst um niðurstöðu Alþingis Íslendinga. Af hálfu annarra ráðherra EFTA-ríkjanna var að sjálfsögðu spurt: Hvenær er niðurstöðu að vænta að því er varðar afgreiðslu Alþingis Íslendinga?
    Það er eðlilegt að þær spurningar séu bornar fram vegna þess að upphaflega hafði verið gert samkomulag á hinu háa Alþingi þar sem stefnt var að því að málið skyldi til lykta leitt í lok nóvember. Það hefur ekki orðið. Í annan stað var þessum aðilum kunnugt um að samkomulag væri um að 2. umr. hæfist reyndar á þessum drottins degi. Þannig hefur verið ráð fyrir því gert að Ísland mundi útkljá þetta í tæka tíð fyrir hinn upphaflega gildistökudag 1. jan.
    Í ljósi þess að þessar upplýsingar hafa ekki staðist og í ljósi þess að einstakir ráðherrar höfðu eftir þingmönnum sínum, sem átt höfðu viðræður við þingmenn í þingmannanefnd Alþingis Íslendinga, þær upplýsingar að það væri fullkomlega í óvissu hvort eða hvenær Alþingi Íslendinga lyki þessu máli er því ekkert launungarmál að bandalagsþjóðir okkar spyrja: Ætlar Alþingi Íslendinga að lúka þessu máli? Ef einhver óvissa er um það annaðhvort hvenær það verður gert eða hvort það verður yfirleitt gert þá er afar eðlilegt að þeir segi: Við viljum ógjarnan taka þá áhættu að þurfa að fara aftur í viðbótarbókun í framhaldi af Sviss og hugsanlega Liechtenstein ef þess kynni að þurfa að því er varðar Ísland. Þetta er ákaflega eðlilegt sjónarmið af þeirra hálfu og rétt að frá því sé skýrt þannig að hv. þm. sé fullkomlega ljóst hvernig samstarfsþjóðir okkar hugsa í því efni. ( Gripið fram í: Hvað sagði ráðherrann um vilja Alþingis?) Ég lét það koma fram að þessum spurningum væri út af fyrir sig ekki hægt að svara með neinu þjóðréttarlegu öryggi. Hins vegar gætu menn ályktað út frá umræðunni og út frá atkvæðagreiðslum sem fram hefðu farið hér varðandi skyld mál að ekki væri vafi á að það væri meiri hluti á Alþingi Íslendinga fyrir samningnum.
    Ég hygg að eftir bestu vitneskju sé það rétt mat. Það hefur komið fram að að því er varðar einstaka nafngreinda þingmenn úr stjórnarliðinu, ef ég skil þá rétt, séu tveir þeirra ekki samþykkir þessum samningi. Að því er varðar stjórnarandstöðuflokkana er ekki alls kostar allsherjareining í afstöðu til málsins.
    En kjarni málsins er þessi: Spurningin er hver afstaða Alþingis Íslendinga sé. Ef svo fer að samkomulag takist milli beggja aðila um þessar lágmarks tæknilegu breytingar og að boðað verði mjög bráðlega til þessarar ríkjaráðstefnu í samræmi við bókun við 129. gr. verður það að liggja ljóst fyrir við afgreiðslu á þeirri bókun hvort það er á hreinu af hálfu Alþingis Íslendinga að þessi samningur hafi verið fullgiltur. Þessar niðurstöður eru með öðrum orðum mjög í samræmi við það sem fram kom í umræðum áður en til þessa fundar var boðað.
    Virðulegi forseti. Kjarni þessa máls er því einfaldlega þessi: Það er sameiginlegt mat ríkisstjórna EFTA-landanna að fara þá leið að gera ekki efnislega breytingu á samningnum, að staðfesta hann eins og hann er, að undirbúa viðbótarbókun sem tekur á hinum tæknilegu aðlögunaratriðum sem varða ekki efnislega hagsmuni okkar heldur formsatriði. Eins og t.d. að kveða á um að samningurinn taki ekki til Sviss eða annarra ríkja sem kunna að heltast úr lestinni.
    Málið virðist því liggja þannig fyrir að það séu engin efnisleg rök fyrir því að slá því á frest eins og haldið hefur verið fram, hvað þá heldur að málið sé dautt eða þær breytingar séu á orðnar að EFTA sé ekki lengur sú stoð sem ætlað var. Þessi samningur er ekki við EFTA. Hann er milli einstakra

EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins. Um þetta er samkomulag. Um þau álitaefni, sem menn ræddu hér, er sameiginleg niðurstaða að því er varðar EFTA-ríkin.
    Ég vil þess vegna eindregið, virðulegi forseti, hvetja hv. þm. til þess að lúka afgreiðslu þessa máls hið fyrsta alveg burt séð frá því hver afstaða þeirra er. Ekkert nýtt hefur komið fram í málinu sem ætti að breyta afstöðu manna og mönnum ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka afstöðu. Það er niðurstaða þessa fundar að bæði út frá hagsmunum okkar sjálfra og út frá skuldbindingum okkar gagnvart samstarfsaðilum sé sú stund upp runnin að menn taki afstöðu.