Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 15:26:17 (3409)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég þakka utanrrh. fyrir skýrslu hans um fundina í Genf og ég tel að með þessum umræðum í dag séum við að fjalla um þá formlegu hlið þessa máls sem upp hefur komið eftir að Svisslendingar höfnuðu með þjóðaratkvæði aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Mér finnst það blasa við eftir fundina í Genf að Svisslendingum er það kappsmál að þeir verði ekki útilokaðir frá þátttöku í þessu samstarfi þegar fram líða stundir.
    Mér finnst það líka liggja ljóst fyrir að svissnesk stjórnvöld hafa það sem stefnu sína að geta gerst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu þegar fram líða stundir. Það hefur komið fram í umræðum í Sviss að stuðningsmenn þessa máls telja að sá frestur sem Svisslendingum var gefinn og var stuttur vegna þess að málið dróst í meðförum, eins og við vitum og höfum rætt á Alþingi áður, að krafan um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss 6. des. hefði verið ósanngjörn miðað við framvindu málsins og þeir hefðu í raun þurft lengri tíma til þess að taka afstöðu til þess og atkvæðagreiðslan hefði farið á annan veg ef þessi tími hefði gefist. Þetta eru sjónarrmið sem fram hafa komið í umræðum í Sviss og það er alveg ljóst að stjórnvöld hafa það á stefnu sinni að endurtaka þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru líka hefðir fyrir því þar í landi.
    Mér finnst því að eins og þessar hugmyndir liggja fyrir, sem við höfum kynnst eftir fund í utanrmn. í morgun, sé einmitt stefnt að breytingum sem auðvelda Svisslendingum að hefja virka þátttöku í þessu samstarfi þegar fram líða stundir.
    Það kemur einnig í ljós í skýrslu ráðherrans og gögnum sem okkur þingmönnum hafa verið kynnt að þær breytingar sem þarf að gera eru þess eðlis að þar er ekki um upptöku á samningnum sjálfum að ræða. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið stendur óbreyttur. Það sem fyrir liggur er annars vegar að líta á tvíhliða samning EFTA-ríkjanna um dómstól, fastanefnd og eftirlitsstofnun og taka tillit til þess hvernig fjölda er háttað í þeim eftir brotthvarf Sviss og síðan að líta á bókun með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem tekur á þeirri stöðu sem skapast hefur eftir að Svisslendingar hafa komist að þessari niðurstöðu sinni. Ekkert af þessu er óyfirstíganlegt eða það erfitt í framkvæmd að það stofni þessu máli í voða eða valdi því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið verði ekki að veruleika.
    Eins og fram hefur komið erum við á Alþingi í þeirri sérstöðu miðað við þjóðþing EFTA-ríkjanna að við höfum ekki lokið endanlegri málsmeðferð. Ég var að vona að við hefðum getað hafið 2. umr. málsins í dag en það er nauðsynlegt að klára það formsatriði sem snýr að því sem við erum að tala um hér áður. En það er ekkert því til fyrirstöðu að mínu mati að við höldum áfram meðferð málsins. Það tel ég að verði einnig niðurstaðan eftir að við höfum hlýtt á lögfræðilegar álitsgerðir í utanrmn., en það munum við gera á mánudaginn.
    Ég tel ekki ástæðu til þess hér að setja það fyrir sig að Alþingi er að fjalla um fjárhagsleg og efnahagsleg mál á þessum síðustu dögum fyrir áramót og þess vegna eigi Alþingi ekki að taka á frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið og afgreiða það. Þetta frv. snertir ekki síst afkomu íslensku þjóðarinnar og stöðu hennar í efnahagslegu tilliti. Strax eftir að Svisslendingar höfðu hafnað þessum samningi komu, eins og við alþingismenn vitum, fram hvatningar frá bæði verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum og öðrum aðilum í þjóðfélaginu um það að Alþingi léti þetta ekki fipa sig í meðferð málsins því að það væri svo brýnt að ná þessum samningi og Ísland gerðist aðili að honum einmitt vegna atvinnumála í landinu og efnahagsstarfseminnar.

    Ég lít því þannig á að það sé tengt þeim miklu úrlausnarefnum sem við erum að glíma við í efnahags- og atvinnumálum að afgreiða þennan samning núna þannig að enginn vafi sé á afstöðu Íslendinga til þessa máls og enginn þurfi að velkjast í vafa um hver sé afstaða Alþingis í málinu og það sé liður okkar þingmanna í því að bæta úr atvinnumálum og styrkja efnahagslega stöðu í landinu. Þessi sjónarmið voru áréttuð mjög af aðilum utan Alþingis eftir að Svisslendingar höfðu hafnað samningnum og ég vil aðeins minna á þær skoðanir í dag.
    Það er alveg ljóst að ekki þarf að breyta neinu í EES-samningnum og það er um hann sem þetta frv. fjallar sem við höfum verið að fara yfir í þinginu. Það breytir ekki þeim kjarna málsins að við getum fjallað áfram um málið. Ég tek ekki undir það með hv. þm. sem töluðu á undan mér, Steingrími Hermannssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni, að staðfestingarfrv., það frv. sem við höfum og höfum verið að fjalla um m.a. í utanrmn. og er í fimm greinum, sé orðin markleysa. Ég get ekki fallist á þá skoðun og sé engin rök fyrir því að líta þannig á að það frv. sé orðið markleysa. Þvert á móti finnst mér að það hafi sannast í meðferðinni að frv. er skynsamlega samið og það er ekkert í því sem í sjálfu sér stenst ekki þrátt fyrir að Svisslendingar hafa hafnað aðild að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Mér finnst margir menn tala í þinginu um þetta mál á þann veg að Svisslendingar og afstaða Svisslendinga hafi ráðið úrslitum um það hvort Íslendingar gerist aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu eða ekki. Svo er að sjálfsögðu ekki. Það sem ræður okkar mati er að sjálfsögðu hagsmunamat okkar sem Íslendinga og staða okkar í samfélagi Evrópuþjóðanna. Það breytist ekki þótt Svisslendingar hverfi á brott. Ég er í hópi þeirra sem vona að þeir eigi eftir að slást í hópinn að nýju og unnt verði að halda þessu máli áfram eins og til var stofnað í upphafi og ég sé ekki að neitt hafi gerst sem útiloki það. Mér finnst að þær bókanir sem nú verða samþykktar eigi að taka mið af þeim óskum Svisslendinga að þeir geti slegist í hópinn að nýju þegar fram líða stundir eins og pólitískur vilji stendur til og þarf að ræða nánar í því landi. Það er sérmál þeirra sem við eigum ekki að hafa afskipti af. Við eigum að taka mið af okkar hagsmunum og þeir mæla eindregið með því að við göngum frá þessu máli í þinginu í næstu viku. Ég sé ekki að það eigi að tefja neitt fyrir því að við tökum á öðrum mikilvægum málum sem fyrir þinginu liggja um þessar mundir.