Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 15:34:05 (3410)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Þetta EES-mál verður alltaf dæmalausara eftir því sem lengra líður og hæstv. utanrrh. fer á fleiri fundi og talar meira um þetta mál. Áður en ég kem að málinu frá hans hálfu langar mig til að aðeins að gera að umtalsefni það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan að það hafi mikil áhrif á atvinnulíf og efnahagslíf Íslendinga að samþykkja þennan samning nú þegar. Hann veit það jafn vel og ég að það hefur ekkert með málið að gera hvort Alþingi samþykkir samninginn í dag eða á morgun eða í næstu viku eða einhvern tíma í janúar því að hann tekur ekki gildi fyrr en tíma síðar á árinu. Núna er talið að hann taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 1993. Það er því er auðvitað út í bláinn að halda því fram og einhver misskilningur af hálfu þeirra sem talað hafa í fjölmiðlum af hálfu atvinnulífsins, eins og hér var vitnað til, þegar þeir tala um að það þurfi að samþykkja samninginn nú þegar. Hann tekur ekki gildi nærri strax.
    Þetta vildi ég segja, virðulegur forseti, þar sem greinilegt er að margir halda að það sem við erum að ræða um hér sé einhver töf á gildistöku samningsins af okkar hálfu. Það er ekki um það að ræða. Það sem skiptir máli núna er að í frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði, sem liggur fyrir Alþingi, felst heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd þennan samning. Það stendur greinilega í 1. gr. frv., með leyfi forseta, ,,. . .  aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar,`` þegar verið er að tala um samninginn sem undirritaður var í Óportó 2. maí 1992. Það er þess vegna greinilegt að þarna er verið að tala um ákveðinn samning sem undirritaður var og þarf síðan að gera breytingar á að einhverju leyti og það þarf að gera breytingar á frv. Það er alveg ljóst. Að mínu mati er alveg út í bláinn að ætlast til þess að Alþingi fjalli um frekar um frv. fyrr en fyrir liggur hvernig það á að líta út í endanlegri mynd.
    Hæstv. utanrrh. hefur margoft sagt að það þurfi aðeins að gera tæknilegar breytingar á frv. og aðeins sé um smámál að ræða. Ég er honum ekki sammála. Það hlýtur að vera meira en lítið mál þegar eitt eða e.t.v. fleiri EFTA-ríki eru ekki aðilar að þessum samningi. Sviss átti t.d. að greiða drjúgan hluta af framlögum í þróunarsjóðinn, eins og hér hefur verið rætt um og alls óvíst hvernig það mál mun fara. Einnig átti Sviss að taka þátt í kostnaði við dómstól og eftirlitsstofnun. Þetta er því ekki bara eitthvað sem hægt er að segja að skipti ekki neinu máli. EFTA er ekki lengur sú stoð sem það átti að vera. Það var talað um að EFTA yrði önnur stoðin í þessum samningi. Það er búið að veikja þá stoð verulega. Það sem margoft hefur verið talað um hér að EFTA tali einum rómi getur ekki lengur staðist. Í EFTA-samningnum er miðað við að allir séu þar sammála og allar ákvarðanir verði teknar samhljóða en það getur ekki lengur staðist. Það hlýtur því að þurfa að gera verulegar breytingar bæði á þessum samþykktum sem hér eru sem og samþykktum milli EFTA-ríkjanna og þeim samningi sem þar er í gildi. Þarna þarf því verulegar breytingar hvort sem það tekur langan eða stuttan tíma. Um það skal ég hins vegar ekkert um segja. Það getur vel verið að það þurfi ekki svo langan tíma til þess.
    Einnig hefur komið fram að Spánverjar hafa sett fram kröfu um breytingar vegna þess að þeir sætta sig ekki við að framlag Sviss verði ekki reitt fram, þ.e. jafnhá upphæð. Einnig hafa Spánverjar séð ýmislegt meira í þessum samningi að því er varðar Sviss, bæði innflutning á vörum til Sviss sem og ýmis önnur mál sem tengjast Spáni sérstaklega. Ekki liggur heldur fyrir hvað önnur EB-ríki setja fram í þessu máli. Það er alveg ljóst að eftir nýjustu upplýsingum eru einungis þrjú EB-ríki búin að staðfesta þennan samning og alls óvíst hvaða afstöðu þau taka eftir þessar breytingar. En það kemur væntanlega í ljós fljótlega þegar EB hefur gert sér grein fyrir stöðu mála hjá sér. Upplýst hefur verið að fyrsti fundur þeirra muni væntanlega verða þann 21. des. Málið verður kannski eitthvað skýrara þegar niðurstaða þess fundar liggur fyrir.
    En ef við snúum okkur að meðferð málsins á Alþingi þá hlýtur að vera eðlilegt að fresta frekari umfjöllun málsins þangað til við vitum hvernig frv. á að líta endanlega út. Það þarf að gera á því breytingar og það liggur ekkert fyrir hvað menn koma sér saman um. Það er því eðlilegt að Alþingi taki málið til umfjöllunar þegar það liggur fyrir.
    Ég vil vekja athygli á því að í gögnum frá Genf er talað um þá sem hafa skrifað undir en ekki þá sem hafa staðfest. Þar kemur alveg greinilega fram að það hefur ekkert með framhald málsins að gera hvort Alþingi Íslendinga gerir einhverja málamyndastaðfestingu eða heimilar ríkisstjórninni að fullgilda samninginn fyrir sína hönd.
    Það er auðvitað alveg óþolandi fyrir Alþingi Íslendinga að einhverjir ráðherrar úti í heimi séu að senda hingað skilaboð um það hvernig við eigum að standa að afgreiðslu málsins. Það kemur fram í Mogrunblaðinu í dag, og reyndar í fréttum í gær einnig, að erlendir ráðherrar eru að tala um að Íslendingar verði að ljúka staðfestingu samningsins án tafar. Það er auðvitað algjörlega óþolandi fyrir Alþingi að fá slík skilaboð.
    Síðan mátti skilja það á hæstv. utanrrh. að ekki þyrfti að leggja samninginn að nýju fyrir Alþingi ef honum yrði breytt. Hann talaði sérstaklega um að forseti Finnlands hafi staðfest samninginn núna í gær og í Dagblaðinu er haft eftir honum að það hafi hann gert á þeirri forsendu að ekki þurfi frekari þingstaðfestingu. Það er eins og þarna sé verið að tala um að Alþingi Íslendinga geti bara samþykkt þetta frv. og þennan samning eins og hann liggur fyrir núna og síðan þurfi ekki frekari þingstaðfestingar við. Þetta sagði hann ekki með beinum orðum hér en með þessu er hann að gefa í skyn að Alþingi þurfi ekki að taka breyttan samning fyrir að nýju.
    Það er mjög alvarlegt og raunar alveg makalaust að fylgjast með því hvernig hæstv. utanrrh. talar um Alþingi á blaðamannafundinum eftir ráðherrafundinn í Genf í gær þar sem hann gerir lítið úr Alþingi og talar um það nákvæmlega hvernig hann telur að atkvæðagreiðslan muni fara. Það má kannski spyrja hvort að hinir hafi þá ekki trúað honum. Taka þeir ekki mark á því sem hæstv. utanrrh. segir? Ef hann telur sig vera svona öruggan um pólitískan vilja á Alþingi til hvers þarf hann þá að vera að fá niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hér? Er ekki nóg fyrir hann að segja þeim þarna úti hvernig alþingismenn muni greiða atkvæði og þarf hann nokkuð meira við? Eða er hann búinn að segja svo margt að þeir trúa ekki lengur því sem hann segir?
    Virðulegur forseti. Ég tel mjög það alvarlegt sem eftir hæstv. ráðherra er haft í Dagblaðinu í dag þar sem hann segir, ef ég má vitna orðrétt í það sem þar stendur, með leyfi forseta: ,,Það gengur illa að gera mönnum grein fyrir þeirri hefð að á Alþingi skuli engin þingsköp vera og það ráðist af líkamlegu þoli manna, andvökum og þvagfærum hversu lengi mál eru í þinginu. Þetta er óþekkt og óskiljanlegt öðrum þjóðum.`` Það er svo makalaust að ráðherrann skuli leyfa sér að hafa þessi orð um Alþingi eftir ráðherrafundinn í Genf að það er . . .   ( Gripið fram í: Sagði hann þetta þar?) Í Dagblaðinu segir: ,, . . .   sagði Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. í Genf í gær að loknum ráðherrafundi EFTA``. Í Dagblaðinu er það haft innan gæsalappa og er því, ef rétt er haft eftir, orðrétt eftir honum haft. Þetta er svo mikil óvirðing að ég veit ekki hvort Alþingi geti látið það yfir sig ganga að hæstv. ráðherrann skuli leyfa sér að hafa slík orð um Alþingi.
    Ég vil því ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel eðlilega málsmeðferð að fresta málinu þangað til ljóst er hver niðurstaðan verður. Ég held að þeir sem eru ákafastir í því að koma þessu máli í gegnum þingið þurfi ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því. Það sparar engan tíma að keyra þetta mál áfram núna ef hvort sem er þarf að taka það allt upp aftur á næsta ári. Miklu eðlilegra er því fyrir Alþingi að leggja áherslu á það að fá málið í endanlegri mynd og afgreiða það svo með eðlilegum hætti fljótlega á næsta ári eða þegar ljóst er orðið hvernig það lítur út. Á þessari stundu veit enginn hvernig það muni verða því að EB-ríkin eiga eftir að fjalla um málin auk þess sem ekki er enn ljóst hvernig EFTA-ríkin munu endanlega ganga frá málinu.