Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 15:46:46 (3411)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér hefur hæstv. utanrrh. flutt skýrslu og sagt okkur frá ýmsu af því sem hann varð vísari í Sviss. Ég vildi gjarnan geta verið í þeirri stöðu að geta treyst því að hæstv. utanrrh. væri að segja þingi og þjóð sannleikann. Því miður gerðist það, eins og fram hefur komið í sjónvarpi og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, 4. þm. Austurl., vék að í þingræðu, að hæstv. utanrrh. taldi sig ekki þurfa að segja þjóðinni satt um formsatriði málsins.
    Ég viðurkenni það að ég var svo bláeygður að ég átti ekki hugmyndaflug til þess að láta mér detta í hug að íslenska þjóðin hefði utanrrh. sem ekki teldi nauðsynlegt að segja sannleikann um formsatriði. Það má lengi deila um það þegar komið er að skoðunum hver hefur rétt fyrir sér en formsatriðin hélt ég að

þyrftu ekki að vera deiluefni.
    Nú aftur á móti blasir það við að við erum frædd á því að það séu mest tæknilegir hlutir sem þurfi lagfæringar við. Þó er það svo að þessi samningur fjallar um peninga. Það fyrsta sem við rekum okkur á er að Sviss, sem var aðalgreiðandinn í þróunarsjóðinn, hefur sagt sig frá því og Spánn fer fram á að greidd verði sama upphæð og upphaflega var um talað og hinar þjóðirnar greiði það sem á vantar.
    Í annan stað láta menn að því liggja að reksturskostnaður sé upp á 4,4 milljarða. Það blasir við að allar hinar þjóðirnar ætla að sækja um inngöngu í EB. Þær eru þess vegna í reynd að segja sig frá því að greiða þennan reksturskostnað strax eftir áramótin í ofanálag. Allt ætti þetta að vera umhugsunarefni fyrir þá sem hafa horft á þetta sem bisniss. Fyrir mér hefur þetta aldrei verið bisniss, fyrir mér hefur þetta verið spurning um sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, hvert við ætluðum að stefna í þeim efnum.
    Hins vegar held ég að það væri hollt að nota friðinn um jól og áramót til þess að meta það hvort við séum ekki í reynd komnir aftur á byrjunarreit hvað það snertir að við þurfum að svara þeirri spurningu af yfirvegaðri ró: Eigum við ekki númer eitt, tvö og þrjú að leita eftir tvíhliða samningi við Efnahagsbandalagið? Þær þjóðir sem í upphafi fóru í samningsgerð við EB hafa að sjálfsögðu ekki haft neina sérstaka þörf fyrir að gera þennan samning vandaðan vegna þess að þær hafa aldrei ætlað að búa við hann nema örstutta stund. Þær ætla sér að ganga inn í EB. Jafnframt er það upplýst að menn hafi áhuga á því að bjóða löndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum inn í EFTA og e.t.v. setja nýtt nafn á þetta fríverslunarbandalag og kalla það biðsalinn fyrir EB. Í hvaða félagsskap sitjum við þá eftir? Við sitjum í þeim félagsskap sem er mættur í biðsalinn og vill komast inn í EB.
    Ég horfi á það að í Bandaríkjunum vorar í efnahagsmálum. Í Evrópu er kreppan miklu harðari en nokkur gerði ráð fyrir. Hún er svo hörð að menn óttast nánast að það geti leitt af sér vaxandi þjóðernisátök í öllum þessum löndum. Og hvað gerist ef slík þjóðernisátök magnast og brjótast út? Við höfum reynslu af því hvað gerist.
    Ég hallast mjög að því að hæstv. utanrrh. hafi reynst sannspár þegar hann lýsti því yfir óformlega að það væri stutt í fall EB, það væri stutt í fall þeirrar hreyfingar sem vill mynda bandaríki Evrópu. Hann taldi að það yrði að vísu, ef ég man rétt, í byrjun næstu aldar. Mér kæmi ekki á óvart þó að þróunin yrði hraðari. Okkur berast fréttir af því að bandarísk stórfyrirtæki hafi hætt við að fjárfesta í Þýskalandi vegna þess að þeim líst ekki á þau átök sem þar eru. Tvo stórfyrirtæki í Vestur-Þýskalandi hafa hætt við gífurlegar fjárfestingar í Austur-Þýskalandi. Við aðra fjárfestinguna var alveg hætt en í hinu tilfellinu var ákveðið að byggja bílaverksmiðjuna í Ungverjalandi.
    Það er mikil nauðsyn fyrir þjóð eins og Íslendinga að rasa ekki um ráð fram, gefa sér tíma. Ég hygg að þeir hinir varfærnari í hópi þingsins í þessum efnum, eins og hv. 4. þm. Reykv., eigi eftir að hafa mikla sæmd af því í sögunni, þegar hún verður skrifuð, að hafa þolað mikinn þrýsting í þessu máli en haldið sömu stefnu af rósemi. Ég er sannfærður um að kjarninn í því sem hann hefur verið að boða, að við séum einhver ríkasta þjóð í heimi með okkar auðlindir, ef grannt er skoðað. Það er nákvæmlega sama og þýskumælandi Svisslendingar gerðu sér grein fyrir. Auðkýfingurinn sem barðist gegn sameiningunni leit svo á að Svisslendinga mundi bíða og biði björt framtíð ef þeir fengju að stýra eigin málum. Ég er sannfærður um að þannig bíður Íslendinga líka björt framtíð.
    Við þurfum að gera samninga við aðrar þjóðir, það er allt annað mál. Það er verkefni sem við þurfum sífellt að vinna að. Eitt af því er að ná eðlilegum viðskiptasamningi við EB. Ég vil trúa því að innan Sjálfstæðisflokksins fari sá hópur mjög ört vaxandi sem telur það ekki farsælt fyrir flokkinn, horft til framtíðar, að láta Evrópukrata draga sig á asnaeyrunum inn í þetta samstarf.