Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 16:38:02 (3415)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ríkisstjórnin er víða á þunnum ís þessa dagana en þó held ég hvergi eins og í þessu máli þegar hún fer fram á það að Alþingi veiti utanrrh. opið umboð til að staðfesta samning sem eftir er að skrifa. Það finnst mér nokkuð langt gengið. Herrarnir í Genf hafa að vísu sett fram hugmynd um hvernig þeir gætu hugsað sér að þessi skrift liti út en mennirnir þenkja en guð ræður og í þessu tilfelli er það Evrópubandalagið sem á eftir að segja sitt orð. EFTA sem stofnun verður ekki aðili að þessum samningi. EFTA verður þó starfrækt áfram. Það þarf að mynda nýjan samstarfsvettvang þeirra aðildarþjóða EFTA sem verða aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Þetta er allt í lausu lofti. Eins er þróunasjóðurinn í lausu lofti og ekki tímabært að taka afstöðu og endanlega staðfesta þennan gerning.
    Með brottför Sviss úr þessu kompaníi gæti hlutur Íslands aukist um 40%, þ.e. hlutur okkar í rekstrarkostnaðinum, sem eru 4,4 milljarðar, ykist um 40% plús það sem framlag okkar til þróunarsjóðsins kynni að aukast.
    Það er ekki boðlegt fyrir Alþingi að ganga frá þessu máli. Það er ekki boðlegt að ætla forseta Íslands að staðfesta þvílík lög og það liggur heldur ekkert á að afgreiða þetta mál. Utanrrh. á enga kröfu á Alþingi að það komi með einhverja sérstaka traustsyfirlýsingu handa honum í þessu sambandi og að hann fái umboð til þess að ganga frá samningi eftir sínu höfði. Mér finnst þetta nokkuð langt gengið.

    Ég kippi mér út af fyrir sig ekkert upp við það þó að ég heyri einhver hrokafull ummæli frá hæstv. utanrrh. eða jafnvel heimskuleg ummæli sem hann viðhefur á blaðamannafundum heima eða erlendis. En mér finnst hins vegar lakar þegar langhalagállinn er á honum og það hefur hann sannarlega verið undanfarna daga. Hann greindi ekki rétt frá stöðu mála. Ég vona að það hafi verið af ókunnugleika og fljótfærni en ekki það að hann hafi viljandi verið að reyna blekkja þjóð sína og þing.