Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 16:43:23 (3417)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það kemur ekkert á óvart þótt andstæðingar þessa samnings vilji draga það á langinn að hann verði staðfestur. Hitt er jafnskiljanlegt að þau okkar sem styðja þennan samning vilja ekki að það dragist úr hömlu af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vitum við að íslenskir hagsmunir og hagsmunir íslensks atvinnulífs munu skaðast þeim mun meira sem gildistakan dregst lengur. Í annan stað vitum við að þeim mun lengur sem það dregst að ganga frá þessum samningi þeim mun meiri verður sú hætta að samstarfsaðilarnir missi á honum áhuga. Við erum þar í þeirri sérstöðu að hin EFTA-ríkin eru jafnframt þegar líða tekur á árið að semja um aðild --- við ekki. Það erum því fyrst og fremst við sem erum í þessari hættu.
    Í annan stað, burt séð frá pólitískum skoðunum manna, þá stöndum við frammi fyrir eftirfarandi hlut. Ef vilji EFTA-ríkjanna nær fram að ganga munu samningsaðilarnir koma saman á ríkjaráðstefnu sem gæti orðið snemma í janúar. Tilgangurinn er að ganga frá bókun sem er í kjarna málsins um að ákvæði samningsins taki ekki til þeirra landa sem ekki hafa staðfest. Með öðrum orðum ganga menn á þeirri ríkjaráðstefnu frá þessari bókun á grundvelli staðfests samnings. Hvaða erindi á Ísland á þá ráðstefnu ef það er enn fullkomnum vafa undirorpið hvort Ísland ætlar að staðfesta þennan samning eða ekki?
    Þetta er að vísu dálítið þversagnakennt. Andstæðingarnir segja: Liggur ekkert á. Skiljanlegt út frá þeirra pólitísku sjónarmiðum. En við stöndum frammi fyrir því að á þessari ráðstefnu, ef af henni verður, þurfum við að svara því: Ætlum við að standa að þessari viðbótarbókun á grundvelli staðfests samnings eða ekki.
    Hv. þm. sem helst bera sannleikanum vitni í hópi andstæðinga, þ.e. þeir hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og Ólafur Þ. Þórðarson, hafa fullyrt digurbarkalega að utanrrh. hafi sagt rangt frá um framhald málsins. Ég vísa þeim fullyrðingum öllum á bug. Ég árétta að við eigum lítið erindi á þessa ríkjaráðstefnu nema á grundvelli staðfests samnings. Ég árétta að það varð og mun verða, eins og við höfðum sagt fyrir fram, að ákvæðin um Sviss munu ekki gilda að því er varðar þessa viðbótarbókun. Öllum sem hér eru inni er ljóst að samningurinn á við um EFTA-ríkin en ekki EFTA sem stofnun.
    Virðulegi forseti. Það hefur verið spurt um kostnað eins og það sé mjög mikið mál. Það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir að ef hin EFTA-ríkin fallast á að greiða hlut Sviss þá mun það þýða hækkun á framlagi Íslands um u.þ.b. 25 millj. kr. samkvæmt upplýsingum fastanefndar okkar í Sviss. Hver verður aukinn kostnaður við starfsemi EFTA? Hann verður u.þ.b. 20 millj. kr. en þá er á það að líta að á sl. vori lækkaði framlag okkar úr 1,7% niður í 0,7% og 1,2% almennt séð. Ég hef aldrei haldið því fram að brottför Sviss hafi ekki áhrif á starfsemi EFTA. Hún dregur auðvitað úr mannafla og mannaflaþörf þannig að ég hygg að rekstrarkostnaðurinn þar standist nokkurn veginn á, hvað vinnst og hvað tapast.
    Virðulegi forseti. Lokaorð mín í þessari umræðu eru einfaldlega þessi: Sumir segja: Það liggur ekkert á að afgreiða þetta mál. Ég hef þegar svarað því. Við stöndum frammi fyrir því að svara því fyrr en við kannski vitum hvort við erum tilbúin til þess að halda þessum samningi áfram og standa að viðbótarbókun á grundvelli staðfests samnings. Sumir segja: Við höfum um nóg annað að hugsa varðandi efnhags- og atvinnumál. Svarið við því er að ekkert eitt einstakt atriði er hér til umfjöllunar sem er jafnþýðingarmikið fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf og þessi samningur. Og síðan það að Ísland tekur mesta áhættuna af því ef þetta mál dregst á langinn. Hinir hafa annan kost sem er inngangan í Evrópubandalagið. Það höfum við ekki. Þess vegna á ekkert ríki eins mikið undir því komið að við staðfestum þennan samning hið allra fyrsta.