Umræður um dagskrármál

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 17:10:49 (3428)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þessi umræða er ekki þinginu til mikils sóma. Daginn sem hæstv. viðskrh. --- eins og hann man mjög vel --- talaði fyrir þessu máli talaði hann fyrir að mig minnir ellefu málum. Ég var ein af þeim . . .  ( Viðskrh.: Fjórtán.) Eða fjórtán, segir hæstv. ráðherra. Svo mikill kjáni sem ég er sat ég undir þeirri umræðu allri saman, tók til máls í þessu ákveðna máli sem ég hafði verið svo leiðinleg að kynna mér allnokkuð og gerði við það athugasemdir sem ráðherra féllst á sumar hverjar. Þetta er greinilega ekki það vinnulag sem þykir gott lengur á hinu háa Alþingi.
    Síðan þegar dagskrá þingsins liggur fyrir í dag þá á að skila nál. í þessu máli. Venjulegur þingmaður hlýtur að álykta að um það nál. megi ræða, eða hvað? Ég kann engin önnur ráð. Ég sit ekki í hv. efh.- og viðskn. Ég hafði athugasemdir við þetta frv. Sumar hafa verið teknar til greina og ég vil þakka það, og ég taldi mig eiga allan rétt á að geta þess hér í ræðustól eins og almennt gerist um afgreiðslu þingmála. Það er harla nýtt á hinu háa Alþingi að nefndarformaður, sem sjaldnast sést í þingsölum, komi og þylji í belg og biðu fleiri, fleiri nefndarálit um gjörbreytingu á verðbréfamarkaðnum og þingmenn eigi að halda sér saman og síðan verði farið að tala um eitthvað annað. Ég spyr hæstv. forseta: Er hægt að ætlast til að menn taki þessu með góða skapinu?
    Ég skil þetta ekki. Svo kemur hér einn virðulegasti alþingismaður þjóðarinnar ( ÖS: Þótt víðar væri leitað.) og þótt víðar væri leitað, hv. þm. Halldór Ásgrímsson, og segir: Það tekur svo sem ekkert að vera að tala um þetta. Það kann vel að vera að það sé alveg rétt hjá þingmanninum að það liggi ekkert á að afgreiða þetta. En það vill bara svo til að hv. formaður nefndarinnar er búinn að mæla fyrir nál. Hæstv. ráðherra situr hér og það hlýtur að vera það eðlilegasta af öllu eðlilegu að ljúka umræðu um málið. Síðan, ef þingmenn eru sammála um að það taki því ekkert að vera að fjargviðrast í að afgreiða þetta, þá liggur það tilbúið til atkvæðagreiðslu þegar þar að kemur. En það verður að vera einhver háttur á þessu, hæstv. forseti.