Verðbréfasjóðir

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 17:14:19 (3429)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. við frv. um verðbréfasjóði. Þetta frv. tengist því frv. sem ég mælti hér fyrir áðan. Nefndin er sammála um nokkrar brtt. á frv. eins og við fyrra frv.
    Í fyrsta lagi er breyting við 3. gr. Er tekið á því að verðbréfasjóðum sé skylt að nota orðið ,,verðbréfasjóður`` í heiti sínu. Því er breytt þannig að þeim verði heimilt og rétt eftir því sem við verður komið.
    Í 14. gr. frv. er líka lögð til sú breyting að það þar komi inn tilvísan í lögbæra aðila í hlutaðeigandi ríki.
    Við 16. gr. er lögð til sú breyting að síðari málsgreinin falli brott en hún fjallar um það að hlutdeildarskírteini skuli skrá á opinberum verðbréfamarkaði, en það verður ekki nauðsynlegt að hafa það sem skyldu.
    Í 17. gr. er aðeins smábreyting á orðalagi.
    Í 20. gr. er lagt til að í stað orða um að verðbréfamarkaðir hafi hlotið viðurkenningu lögbærra yfirvalda komi: viðurkenndur með þeim hætti sem bankaeftirlitið metur gildan. Þetta er spurning um stöðu ýmiss konar verðbréfamarkaða erlendis. Á Norðurlöndunum er í gangi allmikil umræða um hvernig menn muni viðurkenna slíka markaði og ekki komið niðurstaða í það. En efh.- og viðskn. hefur í samráði við þá aðila sem hér eiga í hlut ákveðið að leggja til þessa tilhögun.
    Þá gerir nefndin tillögu um breytingu á 23. gr. þar sem bætist við 1. mgr.: Þó er bankaeftirlitinu

heimilt að setja reglur þar sem kveðið sé á um rýmri mörk . . .  `` ( Gripið fram í: Rýmri mörk?) Regla sem kveður á um rýmri mörk já, þetta eru ekki fjármörk, ,,enda sé óheimilt að setja hlutdeildarskírteini í hlutaðeigandi sjóði á markaði utan Íslands.`` Þetta er spurning um í hverju verðbréfasjóðir mega fjárfesta.
    Við 25. gr. er gerð brtt. Þar verið er að rýmka aðeins um að það sé alveg niðurneglt að verðbréfasjóðir þurfi að hafa náð tilteknum árangri innan sex mánaða og verði hægt að víkja aðeins frá því ef sé augljóslega í þágu eigenda hlutdeildarskírteina að gera svo.
    Í 28. gr. eru tillögur til breytinga um viðskipti eigenda, stjórnenda og starfsmanna verðbréfasjóðs. Það er sams konar breyting og var gerð í frv. um verðbréfaviðskipti og fyrst og fremst gerð til þess að tryggja að viðskiptin geti farið eðlilega fram og þess sé gætt að þriðju aðilar hafi góðar tryggingar fyrir því að rétt sé að verki staðið.
    Níunda brtt. fjallar um 31. gr. Það er verið að ræða um endurskoðendur og greininni breytt þannig að hún taki mið af eðlilegu hluverki endurskoðanda.
    Lagt er til að 40 gr. falli niður. Í henni var rætt um að ráðherra væri heimilt að fela bankaeftirlitinu veitingu leyfa. Nefndin taldi að ráðherra ætti að sjá um það sjálfur en ekki fela bankaeftirlitinu það.
    Að lokum gerir nefndin að tillögu sinni að lögin öðlist gildi frá 1. júlí 1993.