Verðbréfaþing Íslands

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 17:19:58 (3430)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. efh.- og viðskn. á þskj. 393. um frv. til laga um Verðbréfaþing Íslands og brtt. á á þskj. 394. Um þetta mál hefur náðst mjög góð samstaða í efh.- og viðskn. og skrifa allir nefndarmenn undir álitið en Kristín Ástgeirsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon þó með fyrirvara.
    Þetta mál var sent til hagsmunaaðila til umsagnar eins og fram kemur í nál. og rætt við allmarga aðila í tengslum við það. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frv. og ég mun rekja þær hér á eftir.
    Í fyrsta lagi er lagt til að einkaréttur Verðbréfaþings á verðbréfaþingsstarfsemi sé afmarkaður betur en gert er ráð fyrir.
    Í öðru lagi er lögð til breyting við 2. gr. frv. þar sem er tæmandi upptalning er á því sem Verðbréfaþingið á að gera.
    Við 3. gr. er orðalagsbreyting.
    Í fjórða lagi er lagt til að 8. gr. verði breytt þannig að heimild verðbréfamiðlara til að gerast þingaðilar samkvæmt greininni falli brott en ákvæðið í núverandi mynd þykir of víðtækt. Enn fremur er lagt til að 2. mgr. falli niður en í stað komi nýr töluliður í 1. mgr. er kveði á um að verðbréfafyrirtæki utan EES geti orðið þingaðilar séu þau með leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum sín heimalands og heyri undir eftirlit lögbærs yfirvalds þar. Loks er lagt til að 3. mgr. falli brott enda er kveðið á um starfsemi Seðlabankans í lögum um hann.
    Í fimmta lagi er lagt til að 11. gr. verði breytt og frestur styttur eftir því sem kom fram í frv. Meginreglan verði sú að frestur verði tveir mánuðir og skal þingaðila tilkynnt um ákvörðun stjórnar að jafnaði eftir tvo mánuði frá því að fullbúin umsókn barst.
    Í sjötta lagi er lagt til að 12. gr. verði breytt. Annars vegar að ákvæði um niðurfellingu verðbréfa af skrá Verðbréfaþingsins verði sambærileg við núgildandi reglur, en ákvæði frv. hefur sætt nokkurri gagnrýni. Hins vegar að fastar verði að orði kveðið um samráð ráðherra við stjórn Verðbréfaþingsins ef hann tekur ákvörðun um að loka þinginu.
    Í sjöunda lagi er lögð til breyting á 15. gr. þannig að þingaðili þurfi ekki að fá formlega staðfestingu kaupenda og seljenda á því að þeir sætti sig við að hann eigi viðskipti með skráð verðbréf án þess að bjóða þau fram í viðskiptakerfi þingsins. Ef þetta stæði eins og þarna er þá mundi það valda mjög auknum kostnaði við smáviðskipti með verðbréf, en viðskipti þurfa að nema tilteknu lágmarki til að komast inn á þingið sem er eitthvað á annað hundrað þúsund krónur. Hins vegar er töluvert um að fólk vilji kaupa verðbréf af þessum þingaðilum fyrir minna, kannski tugi þúsunda króna og mundi það auka mjög kostnað við slík viðskipti ef þyrfti að hafa allt það umstang í kringum það eins lagt var til upphaflega í greininni.
    Í áttunda lagi eru lagðar til breytingar á 18. gr. þar sem falli út heimild bankaeftirlitsins til þess að ganga beint að gögnum og upplýsingum um starfsemi og útgefanda skráðra verðbréfa. Þykir nægilegt að bankaeftirlitið hafi aðgang að gögnum um þessa aðila hjá Verðbréfaþinginu sjálfu. Enn fremur má benda á að í frv. um verðbréfaviðskipti hefur bankaeftirlitið allar þær heimildir sem þarf til þess að hafa eftirlit með þessum aðilum.
    Í níunda lagi er lagt til að gildistökuákvæði verði breytt og lögin öðlist gildi 1. júlí nk.