Umboðssöluviðskipti

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 17:24:43 (3431)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti efh.- og viðskn. á frv. til laga um umboðssöluviðskipti. Nefndin er öll sammála um þetta mál og skrifa allir undir án fyrirvara. Nefndin sendi nokkrum aðilum frv. til umsagnar og fékk tillögur um breytingar. Nefndin tók tillit til nokkkurra ábendinga og leggur fram brtt. á þskj. 410 og jafnframt á þskj. 428.
    Í fyrsta lagi er lagt til að 1. gr. verði breytt þannig að frv. gildi aðeins um umboðssölu með vörur en ekki umboðssölu í þjónustuviðskiptum.
    Í öðru lagi er lagt til að breyta 10. gr. þannig að hún sé skýrari.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 11. gr. þar sem um misritun hefur verið að ræða.
    Síðan er lagt til skýrara orðalag í 13. gr., einfaldlega að samningarnir skulu vera skriflegir.
    Í fimmta lagi er lögð til breyting á 16. gr. en þar hefur fallið niður tilvísun í 15. gr.
    Í sjötta lagi er lögð til breyting á 17. gr. þar sem skilgreining hugtaksins ,,fjárhagstjón`` er rýmkuð.
    Í sjöunda lagi er lögð til breyting á orðalagi 2. mgr. 18. gr. til þess að skýra orðalagið. Málsgreinin orðist svo, með leyfi forseta: ,,Umboðssölumaður á ekki rétt til greiðslu vegna samningsslita ef hann hefur sjálfur sagt samningnum upp. Þetta á þó ekki við ef ástæður uppsagnarinnar má rekja til umbjóðanda eða þess að umboðssölumaðurinn getur ekki haldið áfram starfi sínu vegna aldurs eða sjúkleika.``
    Síðan er lögð fram lagfæring á 19. gr. en þar hefur orðið misritun.
    Sömuleiðis er lögð til sams konar breyting vegna misritunar á þskj. 428 við 8. gr.
    Ég tel afar mikilvægt að þetta frv. geti orðið að lögum fyrir jólin. Nefndin gerir tillögu um að lögin taki gildi 1. jan. í samræmi við það sem stóð upphaflega í frv. Það er afar mikilvægt fyrir þá sem stunda þessi viðskipti að frv. verði samþykkt. Það bætir réttarstöðu innlendra umboðssölumanna og er ekki vanþörf á vegna margs konar mála sem upp hafa komið og væri hægt að rekja hér í löngu máli.